Golli hlýtur verðlaun fyrir mynd ársins

Mynd af Yaz­an, ung­um flótta­manni frá Gaza, að skreyta tíma­bund­ið at­hvarf sitt hér á landi með jóla­ljós­um, var val­in mynd árs­ins 2023 í dag. Höf­und­ur henn­ar Golli og mynd­in er hluti af myndaröð hans sem birt­ist í Heim­ild­inni í des­em­ber í fyrra.

Golli hlýtur verðlaun fyrir mynd ársins
Mynd ársins Myndin birtist í Heimildinni sem kom út 8. desember 2023. Mynd: Golli

Í dag, 27. apríl, klukkan 15 voru afhent verðlaun í Ljósmyndasafni Reykjavíkur fyrir myndir ársins 2023. Veitt voru verðlaun fyrir mynd ársins 2023 og fréttamynd sama árs. Höfundur myndar ársins, sem er af Yazan, ungum flóttamanni á frá Gaza, er Kjartan Þorbjörnsson, eða Golli, tók myndina í tengslum við forsíðuumfjöllun Heimildarinnar sem birtist í 33. tölublaði hennar sem birtist 8. desember í fyrra og skrifuð var af Auði Jónsdóttur. Golli, sem er með reyndustu starfandi fréttaljósmyndurum landsins, hafði þá nýverið hafið störf hjá miðlinum þar sem hann sér um ljósmyndun og sinnir myndritstjórn, jafnt á vef og í blaði. 

Myndin sem Golli hlýtur verðlaunin fyrir er hluti af myndaþætti sem sýndi palestínsku frændurna Yazan og Sameer, sem komu fjórtán og tólf ára til Íslands sem flóttamenn sumarið 2023. Þeir voru teknir í fóstur af fjölskyldum í Mosfellsbæ en þegar umfjöllun Heimildarinnar birtist stóð til að vísa þeim úr landi. Af því varð ekki og þeir fengu samþykkta vernd í janúar síðastliðnum. Í kjölfarið var óskað eftir að þeir gætu sameinast fjölskyldum sínum hérlendis og fyrr í þessum mánuði varð af því, en fjölskyldur þeirra sluppu út af Gaza fyrir tilstilli Solaris-samtakanna.

Í umsögn dómnefndar um mynd Golla sem ákveðið var að verðlauna segir að við fyrstu sýn virðist hún einföld og kyrrlát. „Hún er þó afar táknræn og hlaðin tilfinningu. Myndin sýnir Yazan, ungan flóttamann frá Gaza, þar sem hann skreytir tímabundið athvarf sitt hér á landi með jólaljósum og fána heimalands síns. Myndin kallar fram tilfinningar á borð við hryggð og samkennd og kemur vel til skila stolti hans yfir uppruna sínum og heimili, heimili sem nú er glatað.“

Kristinn Magnússon hlýtur verðlaun fyrir fréttamynd ársins, en hún sýnir hina hliðina á einu stærsta fréttamáli ársins, jarðhræringunum á Reykjanesi. Í umsögn dómnefndar segir að myndin sé frá samverustund fyrir Grindvíkinga í Hallgrímskirkju. „Við sáum margar stórkostlegar myndir frá sjálfum eldunum og eyðileggingunni sem hræringarnar höfðu í för með sér, en sigurmyndin fangar með eftirminnilegum hætti mannlegu hliðina, hvernig samfélagið varð þéttara og fólk sýndi hvert öðru stuðning á erfiðum tíma.“

Fréttamynd ársinsMyndin er frá samverustund fyrir Grindvíkinga í Hallgrímskirkju.

Dómnefndarstörf fóru fram í byrjun febrúar en í ár skipuðu dómnefndina Árni Torfason, Hrund Þórsdóttir, Snorri Gunnarsson og Andrea Bruce sem var formaður dómnefndar. Andrea er stríðsfréttaljósmyndari frá Bandaríkjunum og hefur meðal annars unnið í Írak og Palestínu fyrir tímarit eins og The New York Times og National Geographic. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir myndir sínar. 

Sýning opin til 18. maí

Verðlaunin voru veitt á viðburði sem Blaðaljósmyndarafélag Íslands og Ljósmyndasafn Reykjavíkur stóðu fyrir í dag í safninu. Samhliða var opnuð sýningin „Myndir ársins 2023“ en á hana voru valdar 102 myndir frá 17 blaðaljósmyndurum úr fjölda innsendra mynda. Á sýningunni eru myndirnar í sex flokkum sem eru fréttamyndir, myndir úr daglegu lífi, íþróttamyndir, portrettmyndir, umhverfismyndir, og myndaraðir. Í ár veitti dómnefndin verðlaun fyrir fréttamynd ársins og eina mynd úr fyrrnefndum flokkum var valin mynd ársins.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri opnaði sýninguna og veitti verðlaunin. Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands ávarpaði einnig samkomuna.

Blaðaljósmyndarafélag Íslands var stofnað árið 1976 og starfar innan Blaðamannafélags Íslands. Sýningin Myndir ársins hefur verið haldin síðan 1979 og er ein fjölsóttasta ljósmyndasýningin landsins ár hvert.  Hægt að nálgast bók með öllum myndum sýningarinnar í safnbúð Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Sýningin verður opin í Ljósmyndasafni Reykjavíkur til 18. maí.

Kjósa
8
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár