Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Tveggja evra tjón á túni

Tveggja evra tjón á túni

Þingmenn þýsku vinstrihreyfingarinnar (die Linke) fóru fram á að grafirnar sem ristar voru í túnið við Reichstag á sunnudag, ásamt legsteinum, krossum og öðru, fengju að standa þar óskaddaðar sem mönun til þingsins, þar til horfið yrði með öllu frá ríkjandi fælingarstefnu í málefnum flóttafólks. Áður en það kom til álita voru ummerki um minningarreitinn hins vegar fjarlægð af fyrirtæki sem sér um viðhald fasteigna og lóða, í sátt, að virðist, við starfsfólk þinghússins.

Grafirnar á túninu voru um eitt hundrað. Þær voru hluti af vikulöngu verkefni þýsku samtakanna Miðstöð um pólitíska fegurð, sem var ætlað að auka sýnileika dauðsfalla flóttafólks á Miðjarðarhafi og beina sjónum að ábyrgð Evrópulanda á þeim. Verkefnið, Die toten kommen, eða Hin dauðu koma, fólst annars vegar í flutningi á líkum flóttafólks til Berlínar, þar sem þau voru greftruð með sæmd; hins vegar í því að grafir og legsteinar birtust á almannafæri í borginni, upp úr gangstéttum og víðar, til minningar um "óþekkta flóttamanninn". Aðgerðin á sunnudag var síðasti liðurinn í opinberu dagskránni.

Tjónið á túninu við Reichstag er metið á um tíu þúsund evrur. Það gerir tæpar tvær evrur á hvern þátttakanda í aðgerðinni í kostnað við að afmá ummerkin um hana.

Þá tóku 400 lögreglumenn þátt í að raska vinnufrið hópsins. Ásamt því að reisa girðingar sem var ætlað að hindra verknaðinn handtók lögreglan 91 manns fyrir ofantalin eignaspjöll á grassverðinum og fyrir að ryðjast inn á opinbert rými.

Tilkynnt hefur verið að túnið við Reichstag, sem hefur gegnt hlutverki almenningsgarðs frá því að þingið flutti þangað eftir sameiningu Þýskalands, verði nú lokað almenningi í það minnsta til loka júlí.

Ulla Jelpke, þingmaður die Linke, sagði að það væri bæði markvert og hrollvekjandi að einhverjir stjórnmálamenn og umsjónarmenn eigna hefðu meiri áhyggjur af grasflötinni við þingið en lífum flóttafólks.

Ofantalið er að mestu endursagt úr frétt sem birtist í dagblaðinu Tagesspiegel á mánudag. Í fréttinni kom ekki fram hvers vegna það orkar svona á mann að sjá blóm lagt á leiði eins þó að enginn liggi undir þúfunni, eða hvar mýkt þeirrar hreyfingar á uppruna sinn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu