Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Nýr dagur hinna dauðu

Nýr dagur hinna dauðu
Nú á sunnudag fór fram athöfn á grasflötinni milli byggingar þýska þingsins, Reichstag, og kanslarahallarinnar: leikhúslistahópur, samtökin Miðstöð um pólitíska fegurð, boðaði til samkomu þar sem þetta svæði yrði gert að minningarreit um „óþekkta flóttamanninn“. Þetta var síðasti dagur vikulangrar dagskrár þar sem farið höfðu fram raunverulegar útfarir, samkvæmt óskum og trú hins greftraða hverju sinni, samhliða því að strangt til tekið líklausar grafir og legsteinar birtust óvænt við götur, torg og gangstéttir í Berlín og víðar um Þýskaland.
 
Áætlunin eða dagskráin bar yfirskriftina Die Toten Kommen – hin dauðu koma.
 

„EKKI vera skapandi, EKKI taka neina ábyrgð“

 
Fyrir sunnudag höfðu yfirvöld lagt hart að samtökunum að afturkalla aðgerðina á lóðum þingsins og kanslarans: þar yrði enginn minningarreitur, fólki yrði ekki heimilt að hefja slíkar framkvæmdir þar. Um hádegisbil á sunnudeginum sendi fegurðarmiðstöðin því frá sér svohljóðandi tilkynningu, í grófri þýðingu: „Vinsamlegast athugið að Kanslaraembættið er að reyna að hindra byggingu minningarreitsins „til óþekktu innflytjendanna“ með öllum tiltækum ráðum. Við fordæmum alvarlega þetta grófa sjónarspil ríkisvalds og afskipti af listrænu frelsi. Við hvetjum ykkur því til að koma ekki með neina eftirfarandi hluti: ENGA viðarkrossa, ENGAR líkkistur, ENGAR líkkistulegar hirslur, ENGAR gröfur, ENGAR skóflur, EKKERT hraðþornandi sement eða loftbora. Án allrar kaldhæðni biðjum við ykkur að gera ekkert af eftirfarandi: EKKI taka kistur að kanslarabyggingunni! EKKI sýna neins konar óhlýðni, EKKI vera skapandi, EKKI taka neina ábyrgð og EKKI UNDIR NEINUM KRINGUMSTÆÐUM setja upp grafreiti í opinberu rými eða á lóðinni fyrir framan þýska þingið.
 
Látið undan og takið þátt í þessari „göngu hinna óákveðnu“ í samræmi við nýtt skipulag ríkisvaldsins.“
 

„EKKI fara inn fyrir girðinguna“

 
Samkvæmt opinberum tölum tóku á sjötta þúsund manns þátt í aðgerðinni. Hún hófst með göngu frá Neue Wache, byggingu sem stendur við Unter den Linden í miðri Berlín og hýsir minnisvarða um fórnarlömb stríðsátaka og einræðis. Þegar gangan kom að áfangastað hafði lögregla girt af alla lóðina við Reichstag með vírneti, og þannig lokað svæði sem annars er opið almenningi. Allir þátttakendur stóðu hljóði hjá þegar líkkistur voru bornar gegnum hópinn og lagðar niður á gangstétt, við skilti sem tilkynnti um hinar fyrirhuguðu en óleyfðu framkvæmdir að minningarreit.
 
Lögregluvakt var nokkur, eins og alltaf þegar mótmælt er í borginni. Sekúndum, kannski mínútum eftir að líkkisturnar höfðu verið bornar á áfangastað var þögnin rofin: þeir sem næstir stóðu girðingunni tóku hana einfaldlega niður og sprettu úr spori inn á lokaða svæðið. Þeir sem á eftir komu hikuðu örlítið í fyrstu skrefunum, lögreglan þusti inn á völlinn í eltingaleik, skipuleggjendur kölluðu í hátalara: Við viljum biðja ykkur að fara ekki inn fyrir girðinguna – þá litu sumir við, brostu, hlógu, áttuðu sig og héldu áfram inn fyrir girðinguna. Eftir örstutta stund voru þessar þúsundir á vellinum augljóslega fleiri en svo að lögreglan gæti snúið þeim við án verulegs ofbeldis.
 
Eftir litla stund í viðbót hófust framkvæmdir við minningarreitinn, að mestu leyti í friði fyrir lögreglu. Ótal hælar, skóflur, skeiðar, lófar, spýtur og spjöld, ásamt blómum, krossum og tússpennum, umbreyttu svæðinu á innan við klukkustund.
 
Myndir og umræður um þennan viðburð og aðra tengda má finna á twitter undir merkinu #dietotenkommen.
 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni