Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þáttaskil, einhvern veginn, svo að …

Þáttaskil, einhvern veginn, svo að …

Ég átti samtal við gamlan vin á síðustu dögum, sem hafði orð á því hvað við virðumst öll óviðbúin atburði á við árásirnar í París, ófær um að hugsa hann til hlítar, um leið og öldugangurinn út frá atburðinum, viðbragðið, er enn sem komið er svo endurtekningarsamt að heita má endursýnt og þar með fyrirsjáanlegt. Bombum, bombum ekki, nóg komið af mannúð, lokið hliðunum, meiri mannúð, opnið hliðin. Helvítis Islam, helvítis trúarbrögð, helvítis Vesturlönd, við vopnuðum þá, það kemur málinu ekki við, og svo framvegis.

Það fólk sem hóf háskólanám nú í haust var flest að ljúka við annan vetur sinn í grunnskóla vorið 2003, þegar Bandaríkin réðust inn í Írak. Sjö, að verða átta. Shock and awe hét strategía bandarískra stjórnvalda: tætum og tryllum eða eitthvað í þá veru: rjúka inn, vera með læti, láta þeim bregða og ná yfirráðum í snarhasti. Sami vetur var enn að hörfa þegar Bandaríkin lýstu yfir að meiriháttar stríðsátökum í Írak væri lokið. Kannski héldu varkárir foreldrar fyrir augun á sömu krökkum, ellefu ára í jólafríi, undir árslok 2006, þegar sjónvarpsfréttir sýndu nokkra úlpuklædda menn draga Saddam Hussein í kjallarakompu og hengja hann. Síðan hafa íslensku ungmennin upplifað efnahagshrun, fermst í kreppu og lokið við stúdentspróf í AirBnB-góðæri. Þau hafa á tilfinningunni að það sé eitthvað verið að plata þau en eru sennilega of upptekin af námi til að komast að því hvernig. Allan þennan tíma, uppvaxtarár heillar kynslóðar, hefur það tekið Bandaríkin að gera sér grein fyrir að enn einu sinni hófu þau stríð án þess að ljúka því. Enginn sigur, aðeins fánar og fallnir menn.

Hversu vel því hefur verið miðlað til nýliðanna í samfélagi okkar á hvaða forsendum Ísland tók þátt í fylkingu hinna viljugu þjóða vorið vonda, það er óljóst. Engin rannsókn hefur enn farið fram á málinu, engin opinber niðurstaða fengist. Svo því sé þá samt haldið til haga: Ísland studdi innrásina í Írak í von um að Bandaríkjaher myndi launa landinu sýnda tryggð og hafa áfram herstöð og herþotur á Reykjanesi. Meirihluta Íslendinga var það ekki slíkt kappsmál. Raunar var stór hluti Íslendinga mjög andsnúinn þátttöku í innrásinni en slakar lýðræðishefðir reyndust Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni vel þegar þeir, sem forsætis- og utanríkisráðherra, lýstu yfir þátttöku Íslands, án þess að bera efnið undir þing og hætta með því á rökræður. – Vel og þó: fyrst kom í ljós, það sem blasti við mörgum frá upphafi, að forsendur innrásinnar voru lognar, Írak hafði ekki yfir gereyðingarvopnum að ráða. Skömmin er enn sem skuggi allra þeirra sem að stóðu. Og vorið 2006 var herstöðin á Reykjanesi lögð niður hvort eð er.

Hrottarnir

Þátttaka Íslendinga í innrásinni 2003 var ekki eingöngu, en þó fyrst og fremst, táknræn. Frammi fyrir þeirri stöðu að eftir mótmæli milljóna neituðu gamlir bandamenn að taka þátt í aðgerðinni, reiddu Bandaríkin sig hins vegar einmitt á slíkan stuðning: án þátttöku Frakklands eða Þýskalands tók Donald Rumsfeld, þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að tala um hina nýju Evrópu, jaðarlöndin sem væru miklu veigameiri bandamenn til framtíðar en hin gamla, úrelda þungamiðja álfunnar. Innihaldslausa smjaðrið gekk vel ofan í fyrrum Austantjaldslönd og nokkra sjálfstæða Íslendinga.

Kannski rek ég þetta núna vegna þess að það er auðveldara að greina skýra drætti í fortíðinni en nokkurri samtíð. Við göngum með þokuna í fangið. Þessi forsaga skiptir þó máli. Í fyrsta lagi vegna þess að engum dylst – meira að segja Bush feðgarnir hafa nú játast því – að innrásin átti stóran þátt í tilurð samtakanna ISIS eða ISIL eða DAESH. Talandi um þoku, við höfum ekki einu sinni sammælst um hvað skuli kalla þau. Ég mun nota Dæs það sem eftir er þessarar greinar.

Gerum ekki lítið úr hrottunum. Gerum ekki of mikið úr mætti þeirra – allt aðdráttarafl hryðjuverkahópa felst í slíkum ýkjum – en gerum ekki heldur lítið úr fólskunni að baki. Þeir eru alveg klikk. Markmið þeirra eru alveg jafn klikk og aðferðirnar. Ríkið sem þeir vilja reisa væri á friðartímum eitthvað í ætt við draumsýn hinnar píetísku Húsagatilskipunar sem tók gildi á Íslandi 1745. Ríki húsbóndavaldins. Hvað sem dæsistar skreyta sig með guðdómsrausi er okkar að meta þá á veraldlegum forsendum. Þankaveita að nafni Institute for Economics and Peace gaf nýverið út samantekt hryðjuverka sem framin voru í heiminum árið 2014. Það ár dóu alls 32.658 manns í viðurkenndum hryðjuverkaárásum. Það eru næstum tvöfalt fleiri en árið 2013. Helmingur allra árásanna var framinn ýmist af Dæs eða bandamönnum þeirra í Nígeríu, Boko Haram. Tæp áttatíu prósent fórnarlambanna voru drepin í fimm löndum: Afganistan, Írak, Nígeríu, Pakistan og Sýrlandi, þar af flest í Írak, þar sem tæplega tíu þúsund manns féllu fyrir hendi hryðjuverkamanna. Tæpur helmingur þeirra sem féllu í árásum Dæs voru óbreyttir borgarar. Aukning slíkra árása er ein helsta orsökin fyrir flótta þeirra milljóna sem nú leita verndar í öðrum löndum.

Merking fána

Um síðustu helgi stilltum við upp frönskum fánum til að votta Frökkum samúð og sýna þeim samstöðu. Óðar en þriggja daga þjóðarsorgin var hálfnuð umbreyttist merking fánans, þegar fyrstu fréttir bárust af loftárásum Frakka í Sýrlandi: tíu þotur, tuttugu sprengjur. Francois Hollande framlengdi neyðarástand í landinu til þriggja mánaða, lagði til stjórnarskrárbreytingar svo viðhalda megi því enn lengur, og lýsti yfir stríði. Merking þrílitsins varð skyndilega önnur. Nokkrum dögum síðar gerðu Rússar stærstu loftárás sína í Sýrlandi hingað til: fleiri þotur, fleiri sprengjur – alltaf og ævinlega hernaðarlega mikilvæg skotmörk, þar til rannsóknarblaðamenn grafa einn daginn, þá öllum að óvörum, upp staðreyndir um mannfall meðal óbreyttra borgara.

Upphaf „stríðsins gegn hryðjuverkum“ eða „stríðsins langa“ eins og Rumsfeld kallaði það stundum, skiptir máli til skilnings á framvindunni síðan þá. En það varðar okkur líka vegna þeirrar framvindu sem hefur ekki átt sér stað, vegna alls þess sem er fullkomlega samt við sig. Innrásin í Írak var seld þeim Evrópubúum sem vildu kaupa hana með gervihnattamyndum af gereyðingarvopnum sem aldrei voru til. Í Bandaríkjunum var innrásin aftur á móti auglýst sem hefndaraðgerð fyrir árásina á tvíburaturnana, sem Írak kom hvergi nærri. Turnarnir hrundu um það leyti sem núverandi fyrsta árs háskólanemar öxluðu sína fyrstu skólatösku, til móts við sex ára bekk. Herir eru búnir eins konar samúðarvirkjunum, túrbínum sem umbreyta mannlegri samkennd í hermdarverk. Eftir turnana, fyrir Írak, sprengdum við Afganistan í tætlur – Ísland studdi þá aðgerð líka, heimurinn myndi þá losna við helvítis talibanana. Einhvers staðar má fletta upp hvernig það gekk. Í Íraksstríðinu féllu að minnsta kosti um 110 þúsund óbreyttir borgarar en 26 þúsund í Afganistan, fram til þessa.

Endrum og eins hafa átökin borist þaðan hingað, til Madrid, London, og nú Parísar. Í hvert einasta sinn fer fram nákvæmlega sama samræðan: helvítis múslimar, helvítis trúarbrögð, helvítis öfgamenn, helvítis Vesturlönd, helvítis fasistar, helvítis íhald, helvítis frjálslyndi, helvítis vinstrið, helvítis nýlenduríkin, helvítis undanlátssemin, helvítis Schengen, helvítis Bush, helvítis Blair og helvítis innrásin.

Við sem vorum löngu búin með sex ára bekk þegar þessi átök hófust erum upp til hópa þreytt og lúin og lasleg og ráðvillt, orðlaus og hálfpartinn galin, gleymum því hvort stríðin eru búin eða ennþá í gangi, hver vann? Lauk ekki Íraksstríðinu þrisvar? Var Ísland með her eða hvað kölluðum við mennina í búningunum, með byssurnar? Og þessa sem fundu sinnepsgasið? Börðust þeir eða skutu þeir sig bara í fótinn og í hvoru landinu, aftur? Þegar okkur er sagt að nú, vegna Parísar, sé allt að breytast, rámar okkur í þegar allt var sagt breytast eftir 11. september 2001. – Er það sama þá að breytast, aftur? Og breytist það eins og það breyttist þá eða er það eitthvað allt annað allt sem breytist í þetta sinn og þá allt öðruvísi?

Nei, nær lagi virðist að skyndilega, eftir árásirnar í París, er nú allt nákvæmlega eins og það var. Jafnvel enn einsara. Enn einsara og það var en nokkru sinni fyrr. Allt gerist nú nákvæmlega í þeirri röð sem það hefur áður gerst. Svolítið hraðar í þetta sinn. Og með frönskum hreim. Allt eins, nema, raunar, hlutverkaskiptingin. Við leikum eftir sama handriti, en sósíalistinn Francois Hollande virðist skyndilega hafa verið skipaður í hlutverk íhaldsmannsins Bush, hinn geðþekki Obama í hlutverk ófúsa kanslarans Schröder, og svo framvegis, koll af kolli, allt að Ólafi Ragnari Grímssyni sem þessa dagana virðist ofleika hlutverk Davíðs Oddssonar.

Forsetarök

Við undirleik á sneriltrommu og hundaflautu hefur eins manns skrúðgangan sem við höfum fyrir forseta tekið til máls. Efsta stigið, sem hann hefur gegnum tíðina einkum beitt til að lýsa sérstöðu Íslands meðal þjóðanna, dregur hann nú fram til að marka sérstöðu þessa tímapunktar meðal annarra tímapunkta og sérstöðu Dæs meðal annarra ógna. Daginn eftir árásirnar sagðist forsetinn, í viðtali við RÚV, hafa „verið þeirrar skoðunar í allmörg ár að þessi ógn sem kennd er við hið öfgafulla Islam sé mesta ógn okkar tíma. Og hún eigi sér mjög djúpstæðar rætur og eðli hennar sé á þann veg að engar venjulegar aðferðir duga til þess að brjóta hana á bak aftur.“

Á meðal hverra fimmtíu sem fallið hafa í hryðjuverkaárásum á þessari öld er aðeins einn Vesturlandabúi. Ef mælt er frá árinu 2002, það er eftir árásina á tvíburaturnana, er hlutfallið eitt fórnarlamb af hverjum tvö hundruð. Meirihluti hryðjuverka í Evrópu sprettur úr ómenningarhefð Evrópu sjálfrar og er framinn af hávestrænni, fasískri sannfæringu, af hægriöfgamönnum, þjóðernissinnum og öðrum yfirburðasinnum. Breivik.

Skyldi einhver halda, í ljósi þessa, að viðbragð forsetans nú á laugardag hafi stafað af stundargeðshræringu, ítrekaði hann afstöðu sína í viðtali við þáttastjórnendur Bylgjunnar, þremur dögum síðar. Erum við að horfa á breytt landslag í Evrópu, spurðu þeir Ólaf sem svaraði já, en hvörfin séu þó enn veigameiri en svo: „Við erum að horfa á breytt landslag á veraldarvísu. Þó vissulega hafi verið hörmulegir atburðir og árásir á venjulega borgara víða um heim, í Mið-Austurlöndum, á undanförnum árum og annars staðar, þá einhvern veginn felur þessi árás, eðli hennar og umfang í sér, að það hafa orðið þáttaskil. Það eru ekki aðeins örlög þessa unga fólks sem við höfum nú verið að kynnast í frásögnum og myndum síðustu daga – að þorri þeirra sem létu lífið voru ungt fólk í blóma lífsins að njóta lífsins, menningar og lista og góðra stunda með vinum sínum á veitingahúsi – þá erum við líka að sjá, núna í framhaldinu, að forseti Frakklands, Francois Hollande, hefur ákveðið að leita eftir víðtæku samstarfi við Bandaríkin og Rússland, þrátt fyrir ágreining á öðrum sviðum, og efna til víðtækrar samstöðu gegn þessari nýju ógn. Og það var einmitt það sem ég nefndi í fyrstu viðbrögðum mínum við þessum atburðum, að nú yrðu hinar helstu þjóðir, forystuþjóðir í veröldinni, að ýta til hliðar ágreiningi um önnur efni og sameinast í baráttu gegn þessari atlögu að vestrænni siðmenningu og hinu siðmenntaða samfélagi um allan heim.“

Hvers vegna? Jú, vígamenn Dæs, sem forsetinn kallar „Ríki Islams“, vilja „útrýma“ siðmenningu okkar. Þess vegna þurfum við að „tortíma“ þeim.

„Svo að“

Þegar ritmálsmiðlar vitna í viðtöl velja þeir yfirleitt skýrustu klausurnar en skilja tafsið eftir. Þetta er skiljanlegt, því rausið, hikið, leitin sem fer fram þegar við tölum, fálmandi, myndi reyna á þolinmæði lesenda, yfirleitt án nokkurs ávinnings. En tafsið getur verið upplýsandi. Útvarpsmaður spurði forsetann hvort markmið okkar ætti að vera að tortíma „Ríki Islams“. Svar forsetans var orðrétt á þessa leið: „Ja, tortíma Ríki Islams, Islams, á þann hátt að þessi öfl sem hafa aðgang að fjármagni, vopnum, hafa lagt undir sig stór landsvæði í Mið-Austurlöndum, eru með markvissar aðgerðir vítt og breitt um heim til þess að endurnýja sínar raðir – ég hlustaði í gær á ungan mann frá Kasakstan sem lýsti því hvernig fulltrúar ríkis Islams koma til hans heimalands og bjóða ungum karlmönnum gull og græna skóga, ef þeir vilja koma og gerast vígamenn í ríki Islams – þessi samtök eru að afla sér nýrra liðsmanna, nýrra vígamanna, ekki bara í Bretlandi og Frakklandi og í Evrópu heldur líka í löndum eins og Kasakstan og innan Rússlands – þeim hefur tekist að fá þúsundir Rússa til þess að gangast til liðs við þessar vígasveitir – svo að við höfum aldrei horft framan í aðferðir af þessu tagi.“

„Svo að“. Þar lauk svari forsetans. Þegar Þýskaland þjarmaði mest að Grikklandi í skuldaviðræðum fyrr á árinu lét franski leikstjórinn Jean-Luc Godard hafa eftir sér að heimurinn ætti að virða skuld sína við Grikkland fyrir merkingu hugtaksins „therefore“, sem Aristóteles hefði greint og gefið kynslóðunum í arf. Þess vegna, þar af leiðir. Svo að. Ef Angela Merkel væri látin greiða Grikklandi höfundargjald í hvert sinn sem hún notaði hugtakið yrðu löndin kvitt á örskotsstundu. Forseti Íslands virðist hins vegar, að þessu leyti, alveg skuldlaus við Grikki. Orðalagið „svo að“ gefur til kynna röksemdafærslu, en hún er ekki þarna. Það er ekkert nýtt við að stríðsaðilar sækist eftir málaliðum. Orðalagið „tortíma á þann hátt að …“ gefur ennfremur til kynna að forsetinn ætli að segja eitthvað um þá merkingu sem hann leggi í orðið tortíma, en hann gerir það ekki. Þetta er bara raus. En rausið er ekki áhrifalaust. Sá sem slær um sig með gífuryrðum og talar af yfirborðsfullvissu þegar aðra setur hljóða hefur aðdráttarafl.

Úlfarnir

Þegar ég var yngri fannst mér óhugsandi að lifa gegnum tímabil á við síðari heimsstyrjöldina, stríð sem varði í sex ár. Nú eru komin tólf ár síðan Bandaríkin réðust inn í Írak, bráðum þrettán. Heil ný kynslóð hefur aldrei vanist hugmyndinni um friðartíma – hafa ekki þá hugmynd sem viðmið til að mæla samtíma sinn út frá.  „Einhvern veginn“ felur árásin í París í sér þáttaskil segir forseti Íslands án þess að eiga orð um hvernig eða hvers vegna, nema að fórnarlömbin voru ungt fólk sem naut menningar og lista. Þessi skýring stenst þá aðeins ef við hin höfum hingað til gætt þess að drepa bara barbara.

Fyrir ellefu árum, í desember 2004, birti Morgunblaðið grein eftir Viðar Hreinsson sem bar titilinn „Gegn staðföstum ofbeldisvilja“. Greinin var skrifuð til að kynna fjársöfnun fyrir auglýsingu sem birt var í New York Times og tilkynnti umheiminum að aðeins tveir menn hefðu tekið ákvörðun um þátttöku Íslands í innrásinni í Írak, hún væri „ekki í okkar nafni“. „Þeir sem bera ábyrgð á hinum staðfasta ofbeldisvilja að baki innrásinni í Írak hafa eyðilagt það sem kannski var verðmætara en flest annað í fari okkar og orðstír,“ skrifar Viðar og vitnar í kvæði eftir Stephan G., ort í tilefni af fyrri heimsstyrjöld: „Sigruð þjóð, sem lofað er að lifa / lifir til að hefna – því að valdið / fellur æ á sínum eigin sigrum / samt að lokum. Þeir eru hefndargjafir.“

Er hann þá loks kominn fram, óvinurinn sem Vesturlönd hefur dreymt um og barist við frá upphafi aldarinnar? Hefnd er þó ekki sjálfvirkt ferli. Dæsliðar eru ábyrgir fyrir eigin ódæðum, hvað sem forsögunni líður. Við verðum ábyrg fyrir hvaða viðbragði sem við kjósum að veita. Meiri mannúð, sögðu allir eftir að hvítur maður framdi hryðjuverk í Noregi. Meira lýðræði, meiri mannúð. Það hljómaði vel, sem nýtt viðmið, en heyrist ekki jafn hátt í þetta sinn. Enn sem komið er heyrist fátt, fyrir sírenunum sem væla alltaf úlfur, úlfur. Þýðir úlfur, úlfur nákvæmlega það sama nú og það þýddi síðast og þarsíðast og þarþarsíðast: hirtu ekki um rök eða staðreyndir, sekt og sakleysi, betri framtíðir eða verri, nú skal slátrað – og kjóstu mig svo? Orðin eru öll svo þykk, ég sé það ekki enn.

Ég heyri bara að einhvern veginn séu þetta þáttaskil svo að. Hugsanlega er helsta skylda okkar að hlusta gætilega, þessa dagana, eftir allri notkun orðanna „svo að“. Og þar af leiðir, þess vegna og þannig að. Þrátt fyrir allt birtust árásirnar í París okkur sem fjarstæðukenndar. Ómögulegar. Það er heimskulegt en satt. Og þegar það ómögulega gerist virðist um stundarsakir allt mögulegt. Óvandaðir stjórnmálamenn sæta færis til að fylla okkur af þvaðri, einmitt þá, óðar en við náum aftur áttum. Búmm, svo að rattatt. Rattattatt svo að búmm búmm búmm.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni