Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Eyjur

Eyjur

Nú er ég ekki með höfundarverk Hannesar Hólmsteins við höndina en ég man, fyrir um tuttugu árum síðan, hvað honum og lærisveinum hans varð tíðrætt um eyjur.

Afstöðu sína til fóstureyðinga, sem hann sagðist mótfallinn, skýrði Hannes með skírskotun til eyju: ef þér hefur skolað á land á eyðieyju og þangað ber síðan annan mann, þá er alveg sama hversu takmörkuð landgæðin eru, vistirnar á eyjunni eða aðrar aðstæður: þú kastar hinum ekki aftur í sjóinn. Þegar til kastanna kemur virðast einmitt þeir sem þannig skreyta einkamál annarra með dæmisögum, svo betur megi ráðskast með þau, flestum fúsari að kasta því raunverulega fólki, sem ber að ströndum raunverulegra landa, aftur í raunverulegan sjó, jafnvel þegar feykinóg er raunverulega til að bíta og brenna. 

Dósir? Ég er einmitt með opnara!

Eyjur frjálshyggjumanna voru oftar en ekki eyðieyjur. Í annarri dæmisögu urðu tveir menn skipreka á eyðieyju. Annar er svo heppinn að hafa með sér dósamat en engan dósaopnara. Hinn er þá einmitt með dósaopnara en engan mat. Sögunni var ætlað að varpa ljósi á ágæti viðskipta: frekar en að annar ræni hinn gera þeir með sér samkomulag um að skiptast á þessum gæðum. Annar fær að nota hnífinn, hinn fær að borða.

Auðvitað er miklu betra að báðir mennirnir borði en að annar drepi hinn og sitji svo einn að veitingunum. Mannfræðingar hefðu þó líklega sitthvað að athuga við þá hugmynd að strandaglóparnir hljóti að gera með sér samning af þessum toga: ef—þá. Það tilheyrir upprunagoðsögn kapítalismans að fólk hafi gert með sér svona ef—þá samninga löngu áður en peningar komu til sögunnar – ef þú færir mér tuttugu egg þá læt ég þig fá eitt par af sandölum. Peningar hafi síðan orðið til að liðka fyrir viðskiptunum, því þann sem átti eggin vantaði ekki alltaf sandala og öfugt. Tilfellið er hins vegar að engin heimild virðist um að í nokkru samfélagi hafi slík viðskipti verið til siðs fyrir tilkomu peninga. Aldrei, neins staðar.

Fyrir tilkomu peninga eru hins vegar ótal heimildir um gjafahagkerfi, eins og tíðkuðust á landnámsöld á Íslandi. Æ sér gjöf til gjalda – gjafirnar voru ekki ókeypis í þeim skilningi að þú þiggir og sért þar með laus allra mála. Þvert á móti sköpuðu gjafir svo ægilega skuldbindingu þess sem þáði við þann sem gaf, að Egill Skallagrímsson renndi einu sinni á eftir manni sem skildi eftir gjöf heima hjá honum, til að drepa hann frekar en þiggja. Gjöfin var skjöldur sem maðurinn hafði þegið af jarli nokkrum, mikið bling-bling: „var hann hin mesta gersemi; hann var skrifaður fornsögum, en allt milli skriftanna voru lagðar yfir spengur af gulli, og settur steinum“. – „Gefi hann allra manna armastur!“ æpti Egill upp yfir sig við heimkomuna. „Ætlar hann, að eg skyli þar vaka yfir og yrkja um skjöld hans? Nú takið hest minn. Skal eg ríða eftir honum og drepa hann.“ Maðurinn komst undan – og fyrst Agli tókst ekki að drepa hann fyrir gjöfina, urðu þeir vinir og „héldu vináttu sinni, meðan þeir lifðu báðir“.

Frestun vantrúar

Egill var auðvitað skapbráður maður. En gjafir – þær eru ekki einfaldar. Þær skapa tengsl. Og skyldu. Það er hins vegar ekki skýrt hver skyldan er. Í gjafahagkerfum gilda ekki samasemmerki peningahagkerfisins heldur eins konar meira-en-regla – til að halda jafningjatengslum við þann sem gefur þér gjöf gefur þú, einhvern daginn, fyrr en síðar, aðra gjöf, veigameiri. Það þarf þá ekki að vera enn svakalegri skjöldur – það getur verið liðveisla í átökum, veisla eða eitthvað allt annað. En það verður, í hugum gefanda, þiggjanda og samfélagsins sem þeir tilheyra. eitthvað meira.

Takist það ekki – þiggirðu aðeins en gefir ekki til baka – þá ert þú sem þiggjandi orðinn undir gefandann settur. Þannig myndast lénsveldi og sá sem gefur ekkert gefur að lokum allt, geldur með lífi sínu, sjálfræðinu – hann starfar, að óbreyttu, í þágu höfðingjans alla tíð, eða svo lengi sem engin mannfræðileg stórtíðindi verða. 

Mönnunum á eyðieyjunni, þessum með dósirnar og dósaopnarann, tekst vonandi að gera með sér eitthvert samkomulag. Nái andleg tilvist og vitsmunaleg geta þeirra út fyrir þær stofnanir og hefðir sem þeir hafa þá hrakist frá mun samkomulagið hins vegar áreiðanlega ekki líta út eins og peningahagkerfi. Eins og þú veist, auðvitað. Ef við reynum að sjá þá fyrir okkur í samningaviðræðum, prúttandi um hversu margar dósir annar greiðir hinum fyrir hversu mikil afnot af dósaopnaranum, erum við þegar farin að yrkja í hefð Luis Buñuel. Við þurfum að útiloka alla reynslu okkar af mannlegum samvistum til að þykja slíkur díll sennilegt viðbragð við óvæntri dvöl á eyðieyju. Suspension of disbelief heitir það í frásagnarlistum. Köllum það frestun vantrúar.

Fjárhælisleitendur

Og nú, þegar tími dæmisagnanna er liðinn, því innrætingin tókst, rúm kynslóð ólst upp við þetta bull, þá spretta eyjurnar fram á ný – nú raunveruleikamegin. Þær eru ekki lengur eyðieyjur, þær eru aflandseyjur, þar er kannski ekki margt að finna, en þar er þó alltaf banki.

Áður en íslensku bankarnir duttu í sjóinn var hugmyndin sú að gera Ísland sjálft að aflandseyju. Stjórnvöld lýstu því yfir sem markmiði og unnu að því af nokkru kappi, að Ísland yrði jafn eftirsóknarverður staður til að stinga fé undan augliti annarra og Tortóla er í dag. Ráðamenn notuðu auðvitað ekki orðið aflandseyja heldur „fjármálamiðstöð“. Hannes Hólmsteinn lýsir markmiðinu og leiðinni í bókinni „Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi?“ sem kom út árið 2002, og í greinum sem hann birti sama ár: fella niður suma skatta, lækka aðra, og „setja lög um þagnarskyldu banka og annarra fjármálastofnana nema gegn dómsúrskurði“.

Hannes vísaði til greinar sem Mikael M. Karlsson heimspekingur birti í tímaritinu Vísbending árið 1987, og segir Mikael hafa verið fyrstan til að vekja máls á þessum kosti fyrir Ísland. Fyrirbærið sem við köllum nú aflandseyjur og skattaskjól, en Hannes og hægristjórnirnar fyrir hrun nefndu fjármálamiðstöðvar, kallaði Mikael í árdaga íslenska draumsins fjárhæli.

Í greininni „Fjárhæli víða um heim“ telur Mikael upp Mön, Ermasundseyjar, Kýpur, Bermúda-, Barbados-, Montserrat-, St. Vincent-, Antigua- Vanuatu- og Caymaneyjar, Bahamaeyjar, Hollensku Antillaeyjar og Jómfrúreyjar, sem Tortóla tilheyrir, meðal fjárhæla í heiminum, ásamt Lúxemburg og handfylli annarra staða utan eyja. „Eins og sjá má,“ segir hann svo, „eru það einkum smáþjóðir, flestar reyndar eyþjóðir, sem veita fjárhælisþjónustu. Margir þeirra staða sem nefndir voru hér að ofan eru fámennari en Ísland, og sums staðar er mannfjöldi jafnvel minni en í Kópavogi. Hvers vegna ætli svo margar smáþjóðir veiti þessa þjónustu?“ spyr Mikael loks og svarar, um leið og hann telur upp hugsanlega kosti Íslands til slíkrar starfsemi.

Fyrsti kosturinn, í knappri upptalningu Mikaels, er „friður“, að stjórnmálaástand á Íslandi er traust. Hannes tengir síðar friðinn líka við landfræðilega kosti: að minni líkur eru á styrjöldum á eyju en meginlandi. Annar kostur er „kunnugleiki“, þriðji „norrænt þjóðerni“, sem þykir traustvekjandi „af einhverjum undarlegum ástæðum, sem Norðurlandabúar skilja manna síst“, segir Mikael, fjórði málakunnátta. Fimmti og síðasti kosturinn í upptalningu Mikaels er þögnin: „Víst er að þeir sem nota fjárhæli vilja ógjarnan hafa hátt um það. Þeir vilja gjarnan skipta við fjárhæli sem hafa ekki hátt um þá starfsemi. … Ísland væri ekki áberandi fjárhæli sem byrjandi á þessu sviði og gæti forðast umtal …“

Slippin' & slidin'

Haustið 2008 urður rekstrarforsendur Íslands sem fjárhælis fyrir nokkru tjóni. Draumurinn um að peningar leituðu hælis í landinu, án fólks, rann út í sandinn. Að sinni. Næstskásti kostur hefur þá orðið ofan á í bili: fyrst peningarnir koma ekki einir og óstuddir hvetjum við nú fólk til að ferðast til landsins með þeim og skilja þá þar eftir. Eins og í Vegas, já, og þó sennilega með enn minni tilkostnaði – það þarf ekki einu sinni að setja upp klósett.

Þeir heimamenn sem eiga alvöru pening, sinn eigin erlenda gjaldeyri, leita hins vegar hælis fyrir hann annars staðar. 

Mig hefur langað að víkja að eyjusögum frjálshyggjumanna aftur með einhverjum hætti. Ég veit enn ekki alveg hvernig. Til að segja þær og hlusta á þær og láta eins og þær feli í sér þekkingu þarf maður að leggja sig eftir að gleyma svo mörgu. Maður þarf til dæmis að gleyma því að landsvæðið sem við köllum Ísland er, í bókstaflegum skilningi, eyja og ef við værum þar ekki væri hún eyðieyja. Þannig svörum við því dag frá degi, með öllum okkar verkum, hvað við gerum, í raun og veru, ef við erum strandaglópar á eyðieyju. Í fyrsta lagi köstum við alvöru fólki, tugum, jafnvel hundruðum árlega, sem þar leita hælis, beinustu leið aftur í sjóinn. Og þetta með dósaopnarana … það er flókið.

Það er ekki beinlínis að við höfum trúað því að á eyjunni okkar væri allt með felldu. Að allir tækju þar þátt í sama hagkerfi á sömu forsendum, hver með sinn dósaopnara eða dós af gúllasi. En saman höfum við nú samt frestað vantrúnni í sjö, átta ár, til að hlusta á sætari sögur. Svona eins og gaurinn í þessu lagi hér fyrir neðan. Hann var búinn að vita þetta lengi. Þú varst alltaf eitthvað að laumupokast. En hann verður ekki ginningarfíflið þitt lengur. Little Richard syngur það brosandi reiður, því hann er að breyta. Þér er hollast að gefast upp.

Við þurfum að klára að breyta. Engin eyja er til. Hrunið er ólokið verk.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni