Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þetta reddast, en ekki á Íslandi

Þetta reddast, en ekki á Íslandi

Viðkvæðið „þetta reddast“ hefur átt drjúgan þátt í sjálfsmynd Íslendinga á síðustu árum. Að nálgun landsmanna á vandamál eða fyrirstöður einkennist af því hugarfari að ekki þurfi að sjá þau öll fyrir, heldur megi leysa þau í þeirri röð sem þau berast, er notað ýmist til hróss eða lasts, túlkað sem æðruleysi eða fyrirhyggjuleysi eftir tilefni – og skapi.

En nú virðist tímabært að viðurkenna að landið hefur verið svipt þessum sjálfveitta titli. Mörgum, ef ekki hreinlega öllum, á óvart rændu Þjóðverjar titlinum.

Í dag, föstudag, reddaði BVG, Strætó Berlínarborgar, lest og þremur strætisvögnum til að flytja 460 flóttamenn á Ólympíuleikvanginn vestast í borginni. Fólkið var nýkomið frá Bæjaralandi, með lest sem Die Bahn lagði til. Tvær íþróttahallir við Ólympíuleikvanginn hafa verið fylltar með eitt þúsund beddum, þar sem aðkomufólk fær gistingu til bráðabirgða. Þetta er ekki varanleg lausn, en ábreiðurnar eru í sængurverum og allir hafa kodda.

Já, þetta er leikvöllurinn sem var reistur fyrir Ólympíuleikana 1936, og ætlaður í þágu annarra sjónarmiða en manngæsku. Og nei, þýskir fjölmiðlar hafa lítið staldrað við sögulega samhengið, enda offramboð á hverjum degi af brýnni hliðum málsins. Í ágúst komu 21 þúsund flóttamenn til borgarinnar eða ferðuðust gegnum hana. Það sem af er september, sjö þúsund.

Eftir að tilkynna að Sýrlendingum yrði hvorki vísað aftur til Sýrlands né þriðja lands, hvar sem þeir kæmu við á leið til Þýskalands – og eftir að fallast á að þá megi vænta 800 þúsund nýrra íbúa í Þýskalandi á árinu – hefur Angela Merkel fyrirsjáanlega sætt gagnrýni, meðal annars innan hennar eigin flokks, CDU, sem er einhvers konar ígildi Sjálfstæðisflokksins. Gagnrýnin hefur ekki síst snúist um samráð, skort á samráði, hún hafi ekki rætt við alla sem málið varðaði, einkum ráðamenn í þeim sambandslöndum Þýskalands þar sem flóttafólks er nú að vænta. Þeirri gagnrýni svaraði hún með orðunum: „Þar sem margir segja að þeir hafi verið blekktir, hunsaðir, þeim komið á óvart: til eru aðstæður þar sem verður að taka ákvörðun. Ég gat ekki beðið í tólf tíma og velt vöngum.“

Þegar kröfur heyrast um að Þýskaland setji einhver efri mörk á fjölda flóttafólks sem landið mun taka við hefur Merkel svarað: „Grundvallarréttur þeirra sem sæta pólitískum ofsóknum til hælis á sér engin efri mörk – það á líka við um flóttafólk sem kemur til okkar úr víti borgarastyrjaldar.“

Fyrir slíkar yfirlýsingar sætir kanslarinn auðvitað enn frekari gagnrýni og er þá fleira dregið til: sjálfsmyndir, selfies, sem flóttamenn hafa tekið af sér með kanslaranum hafa farið sem eldur í sinu um heiminn, svo að ofsóttir og hrjáðir ferðast nú skyndilega, mótmæla og leggja fram kröfur með myndir af Angelu Merkel í höndunum, eins og af dýrlingi. Þegar Merkel er gagnrýnd fyrir léttúð og fyrirhyggjuleysi, að senda frá sér viðlíka skilaboð, hefur hún svarað: „Ef við eigum nú að taka að biðjast afsökunar á því að sýna vinahót í neyðarástandi, þá er þetta ekki mitt land.“

Þýskaland hefur tekið upp landamæravörslu á ný, og þannig sagt tímabundið skilið við Schengen samkomulagið. Það er ekki til að afturkalla yfirlýsingar kanslarans, segja fulltrúar stjórnvalda, heldur til að taka á móti flóttafólki með röð og reglu, gera það vel.

Þessi stýrða opnun landamæranna er ítrekað borin saman við samruna Austur- og Vestur-Þýskalands að umfangi og hefur kallað yfir kanslarann gagnrýni, efasemdir, ótta og blákalda andúð. Öllu því svarar Merkel með einu endurteknu leiðarstefi: „Wir schaffen es.“ Við reddum þessu. Nú síðast heyrðist viðkvæðið þegar kanslarinn hitti kollega sinn í Austurríki, sósíal-demókratann Werner Faymann, sem lofaði hana fyrir að hika ekki í málinu. „Ich sage das wieder und wieder: Wir können das schaffen und wir schafffen es,“ sagði Merkel við blaðamenn: „Ég segi það æ ofan í æ: við getum reddað þessu og við munum redda þessu.“

Hvað þetta kemur á óvart, öllum þeim sem þekkja Merkel ef til vill fyrst og fremst af Grikklandskrísunni, þarf ekki að fjölyrða um hér og nú. Mótsagnirnar munu sjálfsagt rata í ótal greiningar – og sagnfræðirit, þegar þar að kemur. Var einhver tiltekinn vendipunktur í afstöðu Merkels, annar en fólksfjöldinn sjálfur og hörmungar stríðsins? Riðu mótmælaaðgerðir baggamuninn eða fundurinn við unglingsstúlku frá Palestínu um mitt sumar? Er ef til vill engin mótsögn milli efnahagslegrar hörku og samúðar með stríðshrjáðum? Hvað sem því líður birtist Þýskalandskanslari nú sem stærri persóna, pólitískt og sögulega, en leit út fyrir um hríð.

Það var 24. ágúst sem heyrðist frá Þýskalandi að Dyflinnar-reglugerðinni frægu, þeirri sem heimilar endursendingu flóttafólks til fyrsta viðkomulands í Evrópu, yrði ekki lengur beitt gegn Sýrlendingum sem kæmu til Þýskalands. Sex dögum síðar kallaði Eygló Harðardóttir eftir sjálfboðaliðum á Íslandi, til að koma mætti til móts við fleira flóttafólk. Tilboð bárust svo eftir var tekið á alþjóðavettvangi. Af stað með ykkur, sögðu þúsundir Íslendinga, við erum tilbúin. Sigmundur Davíð, forsætisráðherra, tók sér fleiri tíma en tólf til að hugsa málið. Loks í þessari viku sagði hann að ákvörðunar um stefnu íslenskra stjórnvalda mætti vænta nú í dag, föstudag. Þá eru ein fimmtíu tólf klukkustunda dægur liðin frá því Þýskaland brást við.

Seinni hluta dags skellti Sigmundur í eina Facebook færslu um Icesave. Því góður orðstír deyr aldregi þeim er hefur orð á honum sjálfur, nógu oft, hátt og snjallt.

Svo Icesave, já. Það má minnast Íslendinga fyrir Icesave deiluna. En heiðursnafnbótina „Þetta reddast“ – landið á ekki lengur tilkall til hennar. Þýskaland hrifsaði þann titil þegar raunverulega reið á. Það ríkir fögnuður í reddingunum, þar sem heimamenn redda rútum og lestum, gistiplássi og nauðsynjavarningi fyrir langþreytt aðkomufólk. Þreyta, ringulreið og verðskulduð sæla.

Forsætisráðherra Íslands, hann hugsar sig um í tólf tíma til.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu