Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Gjöfin

Gjöfin

Gjafir eru svolítið merkileg fyrirbæri. Aðrir hafa skrifað um þær af meira viti en ég mun gera núna. Og af meiri heilindum, ef það er tækt orð um nokkurn hlut. Ég er nískur og gleyminn, eigingjarn og hirðulaus. En gjafirnar sem ég hef ekki gefið, þær naga mig lengur og verr en gjafirnar sem ég hef ekki þegið. Kannski er sælt að gefa, en það er að minnsta kosti áreiðanlega vansælt að gera það ekki.

Til að gjöf sé gjöf þarf hugurinn að baki að vera án tilætlunar. Sá sem gefur gjöf getur til dæmis ekki sagt, um leið og hann réttir hana frá sér: „æ sér gjöf til gjalda“ - hann getur ekki krafist endurgjalds, ekki einu sinni ýjað að því. Helst má hann ekki einu sinni láta sér detta neitt endurgjald í hug. Þess vegna þarf að plokka verðmiðann af jólabókinni jafnvel þó að maður rífi þar með ljótan blett á kápuna. Gjöf sem er gefin í von um endurgjald er ekki gjöf heldur viðskiptatilboð.

Sá sem þiggur gjöf upplifir samt sem áður skuldbindingu við móttökuna. Og raunar því aðeins að gefandinn krefjist einskis á móti. Gjöfin þarf í þeim skilningi að heppnast, að á henni hvíli ekki neinn baggi, engin krafa, sem gæti gert hana að falskri gjöf. Þetta er jafn falleg þverstæða og hún er hversdagsleg: aðeins ef gefandinn ætlast ekki til neins á móti felur móttaka gjafarinnar í sér skuldbindingu um, í það minnsta möguleikann á, gjöf til gjalda.

Þú hefur náð sambandi

Hverjum er þá þiggjandinn skuldbundinn? Einhvern veginn virðist hann skuldbundinn gefandanum, en þó ekki beint. Ekki eins og við gerð viðskiptasamnings. Eftir móttöku gjafarinnar er ekki hægt að segja að þiggjandinn skuldi beinlínis gefandanum eitt eða neitt. Gefandinn hefur enga skuld að innheimta. Hvort sem er að borga fyrir gjöf í reiðufé eða rukka mann um slíka greiðslu er brandari – hátterni sem myndi bara sjást meðal karaktera í kómedíu.

Frekar en að standa í skuld við tiltekna persónu, gefandann, stendur þiggjandi gjafar í skuld við –hvern? Hefð, ef til vill, sem hefur gildi án þess að hún sé færð í orð. Siðalögmál er annað freistandi hugtak, en þar verður vandinn að þetta lögmál er ekki hægt að orða jafn afdráttarlaust og önnur, í það minnsta þarf að gera það af mikilli varkárni til að ekki festist skyndilega verðmiði á allar gjafir heimsins. Þú þarft ekki að gefa neitt til baka. Alls ekki. En ef þú gerir það ekki …

Siðalögmálið, eða hvaða óformlega embætti sem á það inni að maður svari, fyrr eða síðar, gjöf með gjöf, það er þolinmótt og setur ekki skilafrest. Fyrr eða síðar gengur þetta óefnislega yfirvald engu að síður að skuldinni. Þrátt fyrir ógreinileikann fer það með svo svakalegar valdheimildir að það tekur vinabönd, fjölskyldubönd og jafnvel heilan samfélagsvefnað að veði. Án þess að vera beinlínis til gengur þetta embætti fyrr eða síðar að veðinu. Og hefur til þess fullt umboð – þú færð ekki rönd við reist þegar það mætir með fulltrúa sýslumanns og lætur greipar sópa heima hjá þér.

Þessi embættistuska getur ekki bara rofið vensl milli fólks, þegar gjafalögmálið er rofið, heldur getur það umbreytt venslunum: ef gjafir ganga langalengi aðeins í aðra átt á milli vina, þá kemur að því fyrr eða síðar að vinaböndin breytast í valdatengsl: sígefandinn verður einhvers konar lénsherra og síþiggjandinn að leiguliða. Að öðrum kosti lýkur sambandi þeirra og báðir standa eftir snauðari, þó fyrst og fremst þiggjandinn.

Takmarkalaus gjafmildi hernaðarbandalaga

Ef heilt samfélag vill gefa öðru samfélagi eitthvað, þá getur það ekki spurt um umbun á móti. Krefjist það umbunar er gjöfin ekki lengur gjöf. Viðskiptasamkomulagið sem í staðinn verður til getur reynst ábatasamt, en það skapar ekki jafn varanleg tengsl milli samfélaganna og annars hefðu myndast.

Ísland innheimti til að mynda aldrei leigu fyrir afnot erlendra herja af landnæði. Enga greiðslu – greiðarnir sem landið þáði fyrir aðstöðuna voru aldrei færðir til bókar sem slíkir, en verða seint fulltaldir. Hæst ber samstöðu, í það minnsta undanlátssemi, við kröfur Íslands um margþúsundföldun efnahagslögsögu sinnar á hafi. Herlaust land ræður engu svæði nema aðrir samþykki þau yfirráð. Láti því svæðið eftir. Með öðrum orðum: gefi það.

Í grundvallaratriðum er þetta regla, ekki undantekning, innan hernaðarbandalaga: ríki innan þeirra iðka ótæpilega gjafmildi hvert við annað, og aldrei meiri en þegar til átaka kemur. Þegar Bush vildi ráðast inn í Írak bað hann Blair að vera með. Blair sagði já og lagði, þegar upp er staðið, 8 milljarða punda í hernaðinn. Á móti um þúsund milljörðum dollara Bandaríkjanna er breska framlagið auðvitað smámunir, rétt einn fimmti af íslenska bankahruninu – en það sem Bretar gáfu, það gáfu þeir. Þeir seldu ekki opinskátt þjónustu sína, ekki frekar en Ísland, Póland, Tékkland eða aðrir stórhuga þátttakendur. Í Írak gáfum við öll.

Gerðum við ráð fyrir einhverju í staðinn? Já, og fórum í fýlu út í Bandaríkin þegar við fengum það ekki. Stendur þessi tilætlun einhvers staðar berum orðum í opinberum skjölum? Nei, enda hefði það eyðilagt gjöfina eins og hver annar óforskammaður verðmiði.

Óstaðfestur orðrómur um kristnihald

Ef hernaðarbandalög þvers og kruss um heiminn grundvallast á samskotum þátttakenda, ef ríki iðka takmarkalausa gjafmildi við að efla hvert annað til fjöldamorða, svo skömm þykir að því að skorast undan en sómi að því að leggja til eftir getu, hvers vegna hefur gjöfin ekki haslað sér völl meðal ríkja þegar kemur að björgunaraðgerðum?

Hvernig getur það gerst að Norður-Evrópuríki hafi til þessa mestanpart sagt „tough luck“ við þau Suður-Evrópuríki sem bera hitann og þungann af komu flóttafólks til álfunnar? Að Suður-Evrópuríki segi „tough luck“ við jafn margt flóttafólk og raunin er? Hvernig getur það hugsast að Jósef og María banki daglega í þúsundatali upp á í löndum sem hreykja sér af kristnum menningararfi, og það sé í alvöru skammarlaus valkostur að segja „tough luck“ við þau – því minni skömm, virðist stundum, sem ráðamenn telja sig kristnari?

Ef eitthvað er töff við kristni, er það gjöfin sem lykilatriði og hreyfiafl: sú hugmynd að innheimtumaður innheimtumannanna, skapari heimsins og einræðisalmætti, hafi eftir öll bræðisköstin afráðið að rukka aðeins sjálfan sig, gefið sjálfan sig upp í alla heilu skuldina. Skuldir okkar fyrir allt heila klabbið séu þar með þegar afskrifaðar.

Auðvitað er catch í þessari afskrift. Við skuldum hana ekki. En við erum skuldbundin af henni. Það sem þú gefur mínum minnsta bróður eða systur, sagði almættið, það gefurðu mér. Þú þarft ekki að gefa neitt á móti. En ef þú gefur ekki … Þannig verður skuldbinding gjafarinnar keðjuverkandi, eins og kjarnorkusprengja á röngunni. Eða, öllu heldur, á réttunni. Þetta er, hefur mér skilist, pælingin.

Að því er ég best þekki til erum við í reynd nísk, löt, gleymin, hirðulaus og nautnafús. Bregðumst og bregðumst – mismikið, auðvitað – en við bregðumst og bregðumst og bregðumst. Svo birtast aðstæður sem krefja okkur. Kalla svo hátt og snjallt að skömmin af því að svara ekki verður eiginlega óbærileg.

Undir rifi hverju

En ekki í dag, til allrar hamingju.

Víst getum við ennþá baðað okkur við strendur Miðjarðarhafsins, ef við gætum þess að synda ekki á dauðu börnin. Stendur ekki ritað: Ef þú gerir sandkastala en við hlið þér tekur náungi þinn dauðum manni gröf með berum höndum skaltu lána honum aðra plastskóflu þína?

Flutningabílar ætlaðir kjúklingaáleggi en fylltir með líkum fólks eru enn fátíðir á leið um Alpana og vel innsiglaðir.

Ljósmynd: Lindsey Hilsum, vegfarandi um austurrísku Alpana.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni