Hamingjan er hringrás

„Ég myndi aldrei óska nokkrum manni að vera hamingjusamur til endaloka. Það er að segja að upplifa bara hamingju. Það að vera manneskja er miklu, miklu stærra en það,“ skrifar rithöfundurinn Ragnheiður Harpa Leifsdóttir.

Hamingjan er hringrás
ritstjorn@stundin.is

Á fyrstu dögum vetrar er kaldast. Við klæðum okkur í leðurjakkann eða haustfrakkann á leið út. Bölvum því að gleyma húfunni heima þegar við bíðum eftir strætó á Hofsvallagötu. Það er aldrei eins kalt og á haustin, sagði pabbi við mig einhvern tímann og ég tek undir þetta með honum. Við mannfólkið erum gleymin. Við gleymum því hvernig það er að vera ekki með kvef þegar við snýtum okkur í tíunda skiptið þennan tiltekna haustmorgun. Á hverju sumri, hverjum vetri kemur birtan og mykrið okkur á óvart. Er dimman skollin á? Það tekur tíma, stundum fáeina daga, til að venjast kertaljósi á kvöldin og þéttofnum ullartreflum, til að aðlagast tíðinni. 

Þessi hringrás er um leið festan í kaósnum. Við vitum að það kemur haust, vetur, vor og sumar. Eins eru sögur leið okkar til að teikna ósýnilegar línur í loftinu og þræða skilning á festi í óreiðunni sem lífið er. Sólin kemur upp á morgnana og hún hverfur bakvið fjöllin á kvöldin. Þetta vitum við þótt við vitum kannski ekkert annað. Hlátrasköllin í spörfuglunum kalla á að veturinn sé að nálgast þegar trén svigna undir rauðu berjunum og kuldinn á vinstri kinn í norðanáttinni er vísir um að norðurljós gætu sést þessa nótt. Hamingjan er eins. Hún verður ekki til í einrúmi og hún er ekki einsleit, heldur á stöðugri hreyfingu eins og stjörnurnar sem ferðast frá okkur, vatnið undir hrauninu og vindurinn sem er aldrei ákveðinn í hvaða átt hann stefnir. Hamingjan er jafnvægisleit, perlur í gömlu hálsmeni, órökréttar siglingaleiðir um nýjar en kunnuglegar lendur.

Of mikil áhersla á hamingjuna

Mér finnst of mikil áhersla á hamingjuna í kringum okkur. Að við eigum alltaf að vera hamingjusöm. Ég myndi aldrei óska nokkrum manni að vera hamingjusamur til endaloka. Það er að segja að upplifa bara hamingju. Það að vera manneskja er miklu, miklu stærra en það. Við búum yfir litrófi tilfinninga sem spanna sértækustu liti jarðar: djúpmosagrænan og fölbleikan (eins og havaírós ömmu þinnar), blábjartan sem sést aðeins á janúarmorgnum og dimmrauðan, eins og kok kattardýrs. Allt frá fæðingu erum við að kanna þessar tilfinningar, þetta dýpi sem það er að vera mannlegur og tengjast öðrum. Við fetum hamingjuríkar stundir, missi, þrautir og raunir og allt þetta færir okkur betri þekkingu á okkur sjálfum og umheiminum okkar. Við getum aðeins óskað okkur farsælt veganesti. Traust og tengingu. Að þekkja okkur sjálf og vita hvað veitir okkur sjálfum styrk. Það getur verið svo einstaklingsbundið því öll erum við ólík.

Þegar hamingjan er dulbúin á hátt sem gefur til kynna að þú verður að öðlast hana er það varasöm tálsýn. Hún birtist í auglýsingu um nýjan bíl eða sundfatalínu. Markaðsöflin lokka þig til sín með því að reyna að telja þér trú um að þú getir ekki verið hamingjusöm án þess að eignast gráan sófa eða verið með nokkurra sentimetra mittislínu. Við sjáum þetta líka á samfélagsmiðlum, þegar öll skjáskot af lífi einhvers eru hamingjan ein. Og allt í einu bliknar hversdagsleikinn í samanburði við einstaka móment sem við vitum samt ekkert hvernig var. Þegar hamingjan er notuð sem söluvara gleymist það að hún er til innra með okkur og verður alltaf til þar. 

Sagan af manninum í fjörunni

Einu sinni heyrði ég sögu af manni sem taldi að fjaran væri gjöfullegasti staðurinn. Þú stendur í fjörunni og finnur sandinn undir fótum þínum, lyktina af þangi, þara og saltið í sjónum á tungu þinni. Fyrir framan þig er hyldýpið: Hið ókannaða, djúp fullt af ófreskjum og sögum. Hyldýpið færir þér dýrmætar gjafir og þekkingu en farirðu of langt er hætta á að þú sökkvir og náir ekki aftur í land. Ef þú ferð of langt upp á land gleymirðu fjörunni, þanginu og djúpinu. Þá missir þú þennan hluta af þér sem er þér algjörlega lífsnauðsynlegur. Þessi saga hverfist um undirmeðvitundina og er gjarnan notuð þegar talað er um ímyndunaraflið og sköpunarkraftinn. 

„Hvar er fjaran þegar við erum heima hjá okkur að sjóða pasta?“

En hvernig pössum við upp á þetta brothætta jafnvægi? Hvar er fjaran þegar við erum heima hjá okkur að sjóða pasta? Ég get auðvitað aðeins talað út frá sjálfri mér. Það sem færir mér hamingjuna eru stundirnar sem verða til með fólkinu í kringum mig. 

Að muna eftir  moldinni

Að rækta garðinn sinn, sjálfan sig. Þetta hugtak er svo sérstakt. Ég fer að hugsa um stofublómin okkar með uppruna í eyðimörkinni sem finna norðankuldann við gluggakistuna og hita streyma frá ofninum fyrir neðan þau. Svo fallega absúrd eins og mér líður oft, í alls konar aðstæðum og það er gífurleg póesía í fáránleikanum. Og fyrst við erum komin þangað má alveg eins tala um moldina okkar, og mikilvægi þess að vökva og hlúa að gróðrinum sem býr fyrir innan og utan. Sjálf geri ég það með sundferðum, matarboðum með vinum, samtölum, söng. Ég nýt þess að njóta lista, ganga í alls konar veðrum og fara út á land. Að koma verkefnum mínum í farveg er mikilvægt fyrir mér en um leið slaka á. Ég þarf að vera í skýrum og heiðarlegum samskiptum og finna fyrir einhverju samhengi. En fyrst þarf grunnurinn að vera í lagi: vera við góða heilsu, búa við öryggi í heimili og friðsæld í landi og eiga í kærleiksríkum samböndum. Tilhlökkun skiptir mig líka máli, að geta hlakkað til einhvers sem fram undan er. Og þakklæti, það er hin eiginlega kvöldbæn. Þetta eru þau atriði sem skipta mig máli og fegurðin í þessu er að við erum öll ólík. Þetta finn ég að gefur mér fótfestu til að standa í fjörunni og kanna djúpið án þess að fara of langt. 

„Þakklæti, það er hin eiginlega kvöldbæn“

Að sættast við svikarann 

Svo er ég hluti af ljóðakollektívi sem kallar sig Svikaskáld. Við sameinuðumst undir þeim formerkjum að segja upp eitruðu sambandi við svikarann. Fyrsta bók okkar fjallaði um þetta efni: að líða eins og einhvern tímann hljóti að komast upp um að þú vitir ekkert hvað þú ert að gera. Svikarinn hvíslar í eyrað þitt að þú sért alveg glötuð og eigir ekkert erindi. Við þekkjum hann öll og tilfinningin hefur ýmis nöfn. Það stórkostlega við þessa tilfinningu er að hún er ofboðslega sammannleg því það veit í raun enginn hvað hann eða hún er að gera. Við erum flest að gera okkar besta. Svikarinn sem situr á öxlinni getur tekið á sig ýmsar myndir fái hann að ráða, þróast í kvíða eða ofboðsleg þyngsl. Við æfum okkur í að bjóða honum til borðs: Velkominn, kæri svikari, sestu hér og fáðu þér vatnslgas, kaffi eða kremkex. Í stað þess að afneita honum tökum við fagnandi á móti honum því hann er hluti af okkur sjálfum. Stundum er hann hamlandi, drífandi eða hreinlega ekki neitt, sötrar kaffið sitt og fer svo í göngutúr. Við gáfum út þriðju bókina okkar í haust, Nú sker ég netin mín. Yrkisefnin okkar hafa þróast og vaxið og við höldum áfram að skrifa og styðja hver aðra. Ég finn að þessi samtakamáttur og kraftur kollektívísins, sem hífur eina upp stökkvi hún frá borði vegna sjálfsefa, hefur hjálpað mér til muna, til að mæta svikaranum en um leið halda áfram að skrifa og geta vaxið saman í því. Í nóvember kemur út mín fyrsta ljóðabók, Sítrónur og náttmyrkur. Bók sem ég hef ekki þorað að senda frá mér fyrr en nú.

„Bók sem ég hef ekki þorað að senda frá mér fyrr en nú“

Um leið er efinn nauðsynlegur í allri sköpun, og af því ég trúi því að allir séu listamenn á sinn hátt, skapi, hvort sem það er að útbúa gómsæta kvöldmáltíð, prjóna peysu handa barnabarni eða hlúa að undurfallegum frágangi við bílasprautun, þá getur efinn verið okkur svo dýmætur. Hann má ekki taka yfir eða hverfa alveg heldur er þetta eins konar dans. Við skiptumst á spori, teljum einn, tveir, þrír. Hinn tekur við. Hlustum eftir trommuslættinum og lokataktinum í Abba-laginu. 

Að finna drifkraft í voninni

En hvernig höldum við í jafnvægið þegar dyrnar virðast vera að lokast? Nú stöndum við andspænis loftslagsvá sem mun koma til með að snerta alla sem við elskum. Við stöndum frammi fyrir stórum breytingum, fyrir baráttum um verndun náttúrunnar, umskiptum á hugsunargangi og lífsvenjum. Í þeirri baráttu er vonin bæði lykill og lyklaberi í myrkvuðu herbergi því í henni felst drifkraftur til að taka á móti og hrinda af stað. Von er drifkraftur sem stendur andspænis stöðnuninni. Til þess að við getum verið á þessum stað, tilbúin að taka á móti og standa í fæturna er mikilvægt að við hlúum að okkur um leið og gerum það sem veitir okkur þetta brothætta jafnvægi til að stíga ölduna, taka dansinn og grafa tærnar (alls ekki höfuðið) ofan í sandinn. 

Að sjá eldhnetti í dúnúlpum

Á fyrstu dögum vetrar smýgur kuldinn í gegnum allar dúnúlpur og upphitaða bíla. Hann læðist meðfram húsum eins og jólasveinn af gamla skólanum, tilbúinn að hrekkja vegfaranda með ísköldum blæstri beint í andlitið. Muniði eftir sögunni af sólinni og … var það vindurinn? Sagan er óljós minning úr æsku þegar sólin og ský eiga í keppni að fá mann sem gengur í skógi til að fara úr frakkanum. Vindurinn blæs og blæs og maðurinn vefur jakkanum þéttar að sér á meðan sólin sendir aðeins geisla sína til hans. Hann fer þá auðvitað úr jakkanum. Nú þegar sólin kveður norðanhvel jarðar í bili þá minnum við okkur á að við erum sólir í lífum hvert annars og okkar eigin. Það er forvitnileg mynd að sjá fyrir sér eldhnetti ganga niður Skólavörðustíg í kuldaskóm eða borða popp í bíó. En þannig er það samt. Eldhnettir í dúnúlpum sem muna eftir treflunum, veita hver öðrum yl, kærleik og kertaljós í komandi stormum, norðanhríð og blábjörtum janúarmorgnum. 

Tengdar greinar

Hamingjan

Fyllti upp í tómið með fullvissunni um eitthvað æðra

Fyllti upp í tómið með fullvissunni um eitthvað æðra

Hamingjan

Í Marrakesh í Marokkó býr Birta Árdal Nóra Bergsteinsdóttir ásamt eiginmanni og fjórum ungum dætrum. Hjónin eiga áhugaverða sögu saman en þau giftu sig áður en þau byrjuðu að vera saman. Áður en Birta flutti til Marokkó hafði hún reynt ýmislegt til að fylla í „tómið í brjóstinu“. Henni tókst það á endanum með því að taka nýja trú og gerast múslimi.

„Hamingjugaldurinn ku vera sá, að holuna skal fylla innan frá“

„Hamingjugaldurinn ku vera sá, að holuna skal fylla innan frá“

Hamingjan

Fyrir nokkrum árum rakst Héðinn Unnsteinsson á heilbrigðisreglur sem ein formæðra hans, Sigríður Jónsdóttir, hafði sett saman í aðdraganda flutninga sinna til Vesturheims. Fundurinn kom Héðni skemmtilega á óvart enda hefur hann í gegnum tíðina sjálfur notað hnitmiðuð orð og setningar, jafnvel ort kvæði, til að skilja og reyna að fanga hamingjuna. Hann á bæði heiðurinn af geðorðunum tíu sem margir hafa á ísskápnum og lífsorðunum fjórtán sem voru hans bjargráð á erfiðum tímum.

Erum við í himnaríki?

Ritstjórn

Erum við í himnaríki?

Hamingjan

Björgvin Páll Gústavsson veltir því fyrir sér af hverju við þurfum að verða fyrir stóráföllum til að læra að meta hversdagsleikann. Hann mælir með því að við hættum að leita hamingjunnar og förum að njóta lífsins. Af því að við getum gert nákvæmlega það sem við viljum, jafnvel þótt við áttum okkur ekki alltaf á því.

„Ég er mjög stolt af því hvert ég er komin“

„Ég er mjög stolt af því hvert ég er komin“

Hamingjan

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, lýsir því hvernig hún upplifði kvíða, ein í atvinnumennsku erlendis. Að lokum lenti hún á vegg og ákvað að leita sér hjálpar, sem skilaði sér ríkulega. Á ferlinum hefur hún tekist á við áskoranir, sem hafa gert hana að sterkari manneskju og hjálpað henni að finna hvað það er sem gerir hana hamingjusama.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Tvær aðferðir til að segja satt

Hermann Stefánsson

Tvær aðferðir til að segja satt

Sólveig Anna krefst viðræðna við Dag fyrir opnum tjöldum

Sólveig Anna krefst viðræðna við Dag fyrir opnum tjöldum

Ísland með lægsta hlutfall fanga í Evrópu

Ísland með lægsta hlutfall fanga í Evrópu

Skýringar Samherja stangast á við orð ríkissaksóknara Namibíu

Skýringar Samherja stangast á við orð ríkissaksóknara Namibíu

„Siðferðilegt drep“

Illugi Jökulsson

„Siðferðilegt drep“

Svanurinn

Svanurinn

Heimabarþjónar verða til í kokteilasmiðju

Heimabarþjónar verða til í kokteilasmiðju

Landið á milli heimanna: Víkingar, Tyrkjarán og uppruni Úkraínu

Landið á milli heimanna: Víkingar, Tyrkjarán og uppruni Úkraínu

Virðulegir menn á sjötugsaldri: Nixon, Trump o.fl.

Þorvaldur Gylfason

Virðulegir menn á sjötugsaldri: Nixon, Trump o.fl.

Fyllti upp í tómið með fullvissunni um eitthvað æðra

Fyllti upp í tómið með fullvissunni um eitthvað æðra

Hulda Vilhjálmsdóttir vann Tilberann 2019

Hulda Vilhjálmsdóttir vann Tilberann 2019

Ég er bara ruglaður af því ég trúi á ævintýrið

Ég er bara ruglaður af því ég trúi á ævintýrið