Lára Guðrún Jóhönnudóttir

Hvernig brjóstin hennar mömmu urðu „2000 vandinn“ minn

Krabbamein er ekki einstaklingssjúkdómur. Krabbamein breiðir sína ógnvekjandi hramma yfir alla fjölskyldumeðlimi, skrifar Lára Guðrún Jóhönnudóttir, sem missti móður sína árið 2002.

Lára Guðrún Jóhönnudóttir

Krabbamein er ekki einstaklingssjúkdómur. Krabbamein breiðir sína ógnvekjandi hramma yfir alla fjölskyldumeðlimi, skrifar Lára Guðrún Jóhönnudóttir, sem missti móður sína árið 2002.

Hvernig brjóstin hennar mömmu urðu „2000 vandinn“ minn

Árið 1999 útskrifaðist ég úr grunnskóla og lífið eins og ég þekkti það varð aldrei samt aftur. Þetta á svo sem við flesta unglinga því framhaldsskólaárin eru ógnvekjandi, spennandi, hlaðin hormónum, ræðukeppnum, félagslífi og svo staldra þeir stundum við og kíkja í skólabækur. En hjá mér breyttist veröldin mín úr því að vera saklaus, bláeygður, stórhuga grunnskólanemi í veröld sem krafðist þess að ég væri kokkur, móðir tveggja barna, hjúkrunarfræðingur, eina fyrirvinna heimilisins og umfram allt, 20 árum eldri en ég var í raun og veru. 

Ég og Hlín vinkona mín notuðum frasann „2000 vandinn“ yfir allt sem fór úrskeiðis það árið, hvort sem það voru strákavandamál, lélegar einkunnir, vinkonuvesen og þar fram eftir götunum. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að ég áttaði mig á því að minn raunverulegi 2000 vandi var ekki alvarleg kerfisbilun í hugbúnaði tölvunnar minnar, heldur kerfisbilun í grunnstoðum tilveru minnar. Þegar mamma mín fann hnút í brjóstinu rétt fyrir jólin 1999 varð hún hrædd. Hún átti þrjú börn á aldrinum 5 - 16 ára og var verulega þreytt einstæð útivinnandi móðir. Hræðsla hennar var ekki að ástæðulausu því æxlið sem var fjarlægt var 8 sentimetrar í þvermál, „aggresívt“, stökkbreytt meinvarp sem hafði þegar byrjað að dreifa sér um eitlakerfið. 

„Ég lá andvaka á nóttunni og horfði á hana sofa“

Við tók nýr kafli í lífinu okkar. Eftir að brjóstið var fjarlægt skall á flóðbylgja lyfjameðferða, geislameðferða, læknisheimsókna, sterameðferða og svo auðvitað tilheyrandi andvökunætur. Ég var farin að sofa mjög laust, með svefnherbergisdyrnar opnar svo ég gæti stokkið til mömmu og tæmt fyrir hana ælufötuna svo hún gæti kastað upp aftur stuttu síðar. Undir lokin var ég farin að sofa við hliðina á henni því ég var svo hrædd um að hún myndi deyja frá mér. Ég lá andvaka á nóttunni og horfði á hana sofa, rannsakaði hvern krók og kima á andlitinu hennar því ég vildi muna hvar hver einasta hrukka, fæðingarblettur og spékoppi væru staðsett. 

Með mömmu Hér er Lára Guðrún sex ára gömul með móður sinni.

Það var enginn annar til staðar. Við vorum bara ein, litla fjögurra manna fjölskyldan. Skóladagarnir urðu erfiðari, ég var svefnvana, kvíðin, átti erfitt með að einbeita mér en þrátt fyrir allt þá kunni ég vel við mig í skólanum, því þar var ég bara venjulegur unglingur sem gat látið sem mínar stærstu áhyggjur væru þær að peysan sem mig langaði í væri enn á útsölu og hvort að fagri drengurinn sem sat á borði nálægt mér í matsalnum myndi einhverntímann taka eftir mér. 

 Á þessum tíma var ég einnig í nánast fullri vinnu á veitingastað, starfsfólkið þar var hin fjölskyldan mín og þar gat ég líka flúið tilveru mína og látið eins og allt væri í himnalagi. Ég þurfti engu að síður að vinna mikið því mamma gat ekki unnið lengur og eins og gefur að skilja er ekki mikið um gefins peninga handa krabbameinssjúkum, einstæðum mæðrum í velferðarkerfinu okkar. Ég var orðin fyrirvinna heimilisins. 17 ára krakki sem bar ábyrgð fullorðinna. Það var ekki erfitt, það var eðlileg framvinda ferilsins, eitthvað sem maður gerir bara. Maður bara helvítis gerir það sem maður þarf að gera til að lifa. Til að aðrir geti lifað. 

„Krabbamein breiðir sína ógnvekjandi hramma yfir alla fjölskyldumeðlimi“

Mamma mín lést, fertug að aldri 5. júní árið 2002. Hún skildi eftir sig þrjú börn, 18 ára ungling, 10 ára fimleikastjörnu og 7 ára ljóshærðan og ljúfan dreng. Baráttu hennar lauk tæpu einu og hálfi ári eftir að stökkbreytta æxlið skaut rótum sínum í fjölskylduna. Krabbamein er ekki einstaklingssjúkdómur. Krabbamein breiðir sína ógnvekjandi hramma yfir alla fjölskyldumeðlimi. Oftast er það veiki einstaklingurinn sem verður að endingu sterkasti hlekkurinn í ferlinu. Því æðruleysið sem einkennir veika einstaklinginn er eitthvað sem hinir hraustu aðstandendur eiga erfitt með að tileinka sér. Hinir hraustu sitja eftir, með minningarnar um andvökunæturnar, ferðirnar á spítalann og upplifunina af því að sjá ástvininn hrörna og visna hratt eins og sumarplanta á haustdögum.   

Í október er árveknisherferð Krabbameinsfélagsins, í hinum bleika mánuði verður minningin um brjóstakrabbameinið hennar mömmu ljóslifandi, brjóstin hennar tvö sem við systkinin fengum næringu úr fyrstu tvö árin í lífi okkar urðu hennar banamein. Minningin um Jóhönnu er falleg og sterk, en ef hún hefði farið fyrr til læknis væri líkurnar á því að hún væri hér hjá mér núna í morgunkaffi að leika við barnabarnið sitt mun meiri.  

Við skulum því ekki gleyma að standa með þeim veiku og einnig þeim hraustu ástvinum sem sogast inní spíral krabbameinsins og umfram allt, farið í skoðun svo þið getið farið í morgunkaffi og leikið við barnabörnin ykkar. Ég veit að Jóhanna, mamma mín, óskar ykkur þess sama, hvar sem hún er stödd í dag, Jóhanna engill, eins og þriggja ára sonur minn kallar hana lifir áfram í börnum hennar og við höldum áfram, hraust en samt eilítið buguð á sálinni. Farið í skoðun!

Brjóstin hennar mömmu voru minn 2000 vandi. Minn 2000 vandi var raunverulegur. 

BarnshafandiJóhanna varð ólétt að Láru Guðrúnu 21 árs gömul. Fertug féll hún frá og lét eftir sig þrjú börn.

Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu Láru Guðrúnar þann 7. október 2011. Hann er endurbirtur hér í tilefni af Bleikum október. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Vill ekki tengja Landsréttarmálið við óeðlileg pólitísk afskipti

Vill ekki tengja Landsréttarmálið við óeðlileg pólitísk afskipti

Stjórnarmenn Samherja þöglir um vitneskju sína um mútugreiðslur

Stjórnarmenn Samherja þöglir um vitneskju sína um mútugreiðslur

Valdi Ísland sem sinn heimastað um andvökunótt

Valdi Ísland sem sinn heimastað um andvökunótt

Önd, paté og gott meðlæti um jólin

Önd, paté og gott meðlæti um jólin

Svo fokking andlegur

Símon Vestarr

Svo fokking andlegur

„Nú má jökullinn fara fyrir mér"

Hallgrímur Helgason

„Nú má jökullinn fara fyrir mér"

Allt í lagi að eiga heimili sem lítur ekki út eins heimili annarra

Allt í lagi að eiga heimili sem lítur ekki út eins heimili annarra

Hetjuleg hunangsveiði milli heimkynna

Lífsgildin

Hetjuleg hunangsveiði milli heimkynna

Hefnd Sigmundar

Hefnd Sigmundar

Ég safna fullt af drasli

Ég safna fullt af drasli

Andlegt líf á Íslandi

Bergsveinn Birgisson

Andlegt líf á Íslandi

Illa hönnuð fátækrahjálp

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Illa hönnuð fátækrahjálp