Börn berjast fyrir jörðinni: „Miklu mikilvægara en að fá skróp“

Skipuleggjendur mótmæla ungs fólks og barna gegn manngerðri hamfarahlýnun jarðar vilja að stjórnvöld lýsi yfir neyðarástandi og hrindi af stað róttækum breytingum.

Börn berjast fyrir jörðinni: „Miklu mikilvægara en að fá skróp“
alma@stundin.is

Boðað er til alheimsverkfalls fyrir loftslagið í annað sinn í dag. Í fyrsta alheimsverkfallinu 24. mars mótmæltu 1,6 milljónir manna aðgerðarleysi í loftslagsmálum í yfir 2.000 borgum og bæjum í 125 löndum.

Greta Thunberg mætir í sitt fertugasta loftslagsverkfall í dag, 24. maí, en yfirstandandi hrina loftslagsverkfalla kom til vegna hennar hvatningar. Greta fór í sitt fyrsta loftslagsverkfall fyrir utan þinghús Svía 20. ágúst í fyrra. Foreldrar hennar reyndu að tala hana af því, bekkjarfélagar hennar neituðu að fara með henni. Fólk sem gekk fram hjá henni leit hana vorkunnaraugum, 15 ára stelpuna sem sat ein og mótmælti með skilti sem á stóð „skolstrejk för klimatet“, eða skólaverkfall fyrir loftslagið.

Það hefði ekki getað gert sér í hugarlund að stúlkan sem það gekk fram hjá myndi átta mánuðum síðar vera andlit vonar, staðfestu og breytinga um heim allan. Greta Thunberg er andlit alþjóðlegrar hreyfingar barna sem krefjast aðgerða og framtíðar. Hreyfingin Skólaverkfall fyrir loftslaginu er ein stærstu umhverfismótmæli sem heimurinn hefur séð.

Samsæriskenningar um Gretu

Eftir að Greta hlaut athygli umheimsins fyrir aðgerðir sínar spruttu upp samsæriskenningar á vafasömum fréttasíðum, þar sem hún var meðal annars sögð handbendi auðmannsins George Soros. Fjallað hefur verið um Gretu með þessum hætti á ýmsum áróðurssíðum og jaðarfréttasíðum. Einnig hefur verið fjallað um hana hérlendis, en á fréttasíðu Útvarps sögu var sagt að samtök fjármögnuð af Soros stæðu á bakvið „loftslags-Grétu“, að ESB hylli „grátandi Grétu“ og í nafnlausri grein í Viðskiptablaðinu var hún sökuð um „óskhyggju“ og „áróður“ og sagt að „umhverfisöfgahópar“ hefðu fengið hana til liðs við sig vegna þess að hún væri „einhverft barn“.

Greta ThunbergÁkvað að fara í skólaverkfall í þágu þess að bjarga loftslagi jarðar.

Greta svaraði samsæriskenningum í færslu á Instagram á dögunum þar sem hún lýsti því hvernig það var hennar eigin ákvörðun, en ekki annarra, að hefja mótmæli gegn manngerðum loftslagsbreytingum og aðgerðarleysis vegna þeirra.

Íslensk börn mótmæla

Á Austurvelli safnast íslensk börn saman hvern einasta föstudag klukkan 12, til að standa með Gretu, sjálfum sér og jörðinni.

Það var Landssamband íslenskra stúdenta í samvinnu við Stúdentaráð Háskóla Íslands, Unga umhverfissinna og Félag íslenskra framhaldsskólanema sem stóðu að fyrsta verkfallinu hér á landi. „Við tókum okkur saman, LÍS og Stúdentaráð, settum okkur í samband við Félag íslenskra framhaldsskólanema og Unga umhverfissinna. Við gerðum Facebook-viðburð, skelltum í skiltagerð og létum vaða. Svo mættu krakkarnir,“ segir Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, forseti LÍS. Elsa María, ásamt Jónu Þóreyju Pétursdóttur, forseta Stúdentaráðs, Sigurði Lofti Thorlacius, ritara Ungra umhverfissinna, Eyrúnu Didziokas, 15 ára nema í Álfhólsskóla, og Eiði Breka Bjarkarsyni, 12 ára nemanda í Melaskóla, settust niður með blaðamanni Stundarinnar til að ræða loftslagsverkföll, framtíðarsýn, ótta og vonir.

Framtíðin í húfi

Mest hafa 2.000 manns mætt í skólaverkfall á Austurvelli en 100 mættu á það fyrsta. Sigurður segir verkföllin vera til þess að krefja stjórnvöld í hverju landi fyrir sig um að ráðast í frekari aðgerðir í loftslagsmálum. Með verkföllunum segir hann að krakkar sýni í verki að þeim sé ekki sama um loftslagsvána sem nú ríkir og að málefnið sé þeim mikilvægt. Eyrún tekur undir það með honum og bætir við: „Þetta er mikilvæg leið fyrir okkur sem erum börn, sem hafa ekki kosningarétt og þess vegna engin pólitísk völd til að hafa áhrif, áhrif á framtíðina okkar. Þetta er okkar framtíð.“

„Þetta er okkar framtíð.“

Elsa telur börn falla í bakgrunn í samfélagslegri umræðu. „Á loftslagsmótmælunum hafa börnin tækifæri til að nota sína lýðræðislegu rödd. Á mótmælunum fá þau tækifæri til að láta taka sig alvarlega, þau fá tækifæri til að varpa ljósi á að váin muni hafa mest áhrif á þau, á þeirra kynslóð, ekki kynslóðina sem tekur allar ákvarðanirnar.“

Fullorðna fólkið bregst misjafnlega við

Eldri kynslóðin, foreldrar þeirra, kennarar og ættingjar, hafa brugðist við aðgerðum þeirra með mismunandi hætti. „Það eru skiptar skoðanir á þessu í kringum mig. Ég á tvær mömmur, önnur þeirra er mjög fylgin þessu en hin ekki. Ég held að fullorðna fólkið geri sér ekki almennilega grein fyrir því að okkur er alvara með þetta en það eru þau sem taka þetta ekki nógu alvarlega,“ segir Eyrún.

Jóna tekur undir og skýrir frá því að í samtölum sem hún hefur átt við krakka sem mæta á mótmælin hafi ýmislegt komið í ljós. „Ég hef heyrt af kennurum sem taka því sem persónulegri árás að krakkarnir skrópi í skólanum. Ég hef líka heyrt um kennara sem taka fyrir það þegar börn í kennslustundum biðja um að fá að ræða loftslagsmál og segja þeim að vera bara bjartsýn. Svona er umræðan í sumum skólum.“

Í skólanum hjá Eyrúnu er ímynd þeirra sem skrópa slæm og mætingin á mótmælin því dræm. „Í mínum skóla er léleg mæting og hefur alltaf verið. Það er vegna þess að það er svo slæm ímynd tengd því að skrópa. Það skiptir svo miklu máli hvernig kennarar og foreldrar tala um þetta, það sem þau segja hefur áhrif á okkur. Ég veit um nokkra krakka sem vilja mæta en vilja ekki fara á móti fullorðna fólkinu. En mér finnst að krakkarnir ættu að skrópa, þeir þurfa að átta sig á því hvað er í húfi. Það að mæta á þetta verkfall er miklu mikilvægara í stóra samhenginu en að fá skróp. Ef við gerum ekkert í loftslagsmálum verður menntunin einskis virði.“

Skráðu þig inn til að lesa

Þú færð 4 greinar fríar í mánuði. Þú hefur síðan val um að styrkja óháða blaðamennsku með áskrift á hagstæðu verði, frá aðeins 1.690 krónum á mánuði. Leiðbeiningar má nálgast á stundin.is/leidbeiningar.
Tengdar greinar

Hamfarahlýnun

Mikill meirihluti Íslendinga hefur áhyggjur af hlýnun jarðar

Mikill meirihluti Íslendinga hefur áhyggjur af hlýnun jarðar

Hamfarahlýnun

Konur, ungt fólk, lífeyrisþegar og íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa mestar áhyggjur af hlýnun jarðar, samkvæmt könnun MMR. Stuðningsfólk Miðflokksins hefur ólík viðhorf til málsins.

Framkvæmdastýra Landverndar: Draga þarf úr niðurgreiðslum til kjötframleiðslu

Framkvæmdastýra Landverndar: Draga þarf úr niðurgreiðslum til kjötframleiðslu

Hamfarahlýnun

Koma verður á kerfi til að draga úr neyslu á kjöti, segir Auður Önnu Magnúsdóttir. Umgengnin við auðlindirnar verður orðinn takmarkandi þáttur í fæðuframleiðslu löngu áður en fólksfjöldinn verður það.

Ríkið setur meira fjármagn í stækkun flugvallar heldur en í aðgerðir gegn loftslagsvandanum

Ríkið setur meira fjármagn í stækkun flugvallar heldur en í aðgerðir gegn loftslagsvandanum

Hamfarahlýnun

Ríkisfyrirtækið Isavia mun líklega trappa niður uppbyggingaráform á Keflavíkurflugvelli í ljósi samdráttar í ferðaþjónustu. Engu að síður er útlit fyrir að miklu meira fé verði varið til stækkunar flugvallarins, til að standa undir aukinni flugumferð til og frá Íslandi, heldur en í loftslagsáætlun stjórnvalda og framkvæmd hennar.

Græni draumurinn: „Við höfum enga aðra valkosti“

Græni draumurinn: „Við höfum enga aðra valkosti“

Hamfarahlýnun

Samfélagssáttmáli Alexöndru Ocasio-Cortez um aðgerðir í loftslagsmálum, að ráðist verði í aðgerðir gegn fátækt samhliða róttækum aðgerðum gegn loftlagsbreytingum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Pillan og neikvæð áhrif hennar

Pillan og neikvæð áhrif hennar

Ísland tengt við mútugreiðslur og peningaþvætti

Ísland tengt við mútugreiðslur og peningaþvætti

Að auka streitu foreldra og barna

Svala Jónsdóttir

Að auka streitu foreldra og barna

Sóley og Hildur halda vinnuhelgi fyrir róttækar konur

Sóley og Hildur halda vinnuhelgi fyrir róttækar konur

Óhagstæð lög og stefna stjórnvalda hindrar innflytjendur á vinnumarkaði

Óhagstæð lög og stefna stjórnvalda hindrar innflytjendur á vinnumarkaði

Hálendisþjóðgarður í allra þágu: Höfum ekki asklok fyrir himin

Margrét Hallgrímsdóttir

Hálendisþjóðgarður í allra þágu: Höfum ekki asklok fyrir himin

Styttri opnunartími eða styttri vinnuvika?

Ritstjórn

Styttri opnunartími eða styttri vinnuvika?

Gróðureldarnir í Ástralíu aðeins upphafið að vandanum

Gróðureldarnir í Ástralíu aðeins upphafið að vandanum

Spyr hvort takmarka eigi sölu á orkudrykkjum

Spyr hvort takmarka eigi sölu á orkudrykkjum

Átta handteknir við Héðinshúsið og níu leiddir af vinnustað

Átta handteknir við Héðinshúsið og níu leiddir af vinnustað

Samfarir kóngs og drottningar

Illugi Jökulsson

Samfarir kóngs og drottningar

Stór lögregluaðgerð við byggingu hótels: Starfsmenn fluttir burt með lögreglu

Stór lögregluaðgerð við byggingu hótels: Starfsmenn fluttir burt með lögreglu