Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Norræn samtök heimilislækna fordæma skrif heimilislæknis

Siðanefnd Lækna­fé­lags Ís­lands hef­ur feng­ið ábend­ing­ar vegna niðr­andi um­mæla Guð­mund­ar Páls­son­ar heim­il­is­lækn­is á sam­fé­lags­miðl­um er varð­ar bæði kon­ur og að­ila í minni­hluta­hóp­um. Lækna­fé­lag­ið tek­ur ekki af­stöðu í ein­staka mál­um en sam­tök nor­rænna heim­il­is­lækna gera það hins veg­ar og hafa for­dæmt skrif Guð­mund­ar.

Norræn samtök heimilislækna fordæma skrif heimilislæknis
Guðmundur Pálsson Heimilislæknirinn Guðmundur Pálsson segir lækna mega segja allt, þar á meðal þau niðrandi ummæli sem Guðmundur hefur látið falla á samfélagsmiðlum í garð kvenna

Guðmundur Pálsson, sérfræðingur í heimilislækningum og starfandi heimilislæknir á heilsugæslu Grafarvogs, hefur tjáð sig með niðrandi hætti um konur síðastliðna daga á Facebook síðu sinni vegna þeirra umræðu sem hefur átt sér stað eftir að þolendur kynferðisofbeldis stigu fram og sögðu reynslusögur á samfélagsmiðlum og hófu þar með nýja bylgju af Metoo. Raunar nær afstaða hans til þessa málaflokks lengra aftur í tímann en ummæli hans í garð kvenna og minnihlutahópa ná yfir einhver ár.

Í samtali við Stundina segir Guðmundur að læknar megi tala um allt „bara ekki sjúklinga sína“ og þeir hafi fullan rétt til þess „eins og hver annar borgari“.  Stundin talaði einnig við konu sem ekki vill koma fram undir nafni en hún segist hafa skipt um heilsugæslu meðal annars vegna samskipta sinna við Guðmund, hún geti ekki treyst honum fyrir sér eða konum nálægt sér í ljósi slíkra ummæla. 

Læknafélag Íslands vill ekki taka afstöðu til einstakra mála þegar Stundin óskaði eftir viðbrögðum þess við ummælum Guðmundar. Jóhann Ágúst Sigurðsson, formaður Samtaka Norrænna heimilislækna, fordæmir hins vegar skrif Guðmundar og segir þau stangast á við grunngildi heimilislækna. 

Feminismi er nornakult

„Femínisminn er í raun nornakult, það eru ekki margir sem átta sig á því. Og ekki að undra því hann felur sig og dylur sig og fer í margs konar búninga. Til að halda honum við er talað um jafnrétti, fórnarlömb og nauðgunarkúltúr og feðraveldi. Alls ekki allar konur eru með á vagninum, það er misskilningur, heldur aðeins vonbrigða konur sem hafa orðið fyrir hnjaski ellegar treysta sér ekki í neitt samtal um neitt og vilja ráða öllu sjálfar - og beita valdi og stundum ósannindum til að ná því fram. Þetta hefur smitast út í stjórnmálin okkar heldur betur. Þessu fylgja lygar og vænisýki, fóstureyðingar, skilnaðaráróður, aðskilnaðar hyggja (á milli kynjanna, sem er orðið aðalefni frétta) hefndar hyggja (oft hlegið ef kona hefnir sýn, talið réttmætt) og margt í þá áttina. Þetta er andstætt kristinni trú og góðum lífsgildum, gegn fjölskyldu og börnum. Af hverju konur? Það er mjög erfitt að ,,lesa" þetta fyrirbæri rétt, ofbeldið er dulið, tilfinningalegt, andlegt - og menn hreinlega átta sig ekki. Svo eru margir afkimar, sumt er saklausara en annað. En fyrst og fremst er þetta reiði, kollektív yfirgengileg reiði,“ Það er meðal annars með þessum hætti sem Guðmundur kýs að tjá sig á samfélagsmiðlum.

Ummælin eru þó mun fleiri. 

Þann 13. maí birti hann færslu þess efnis að vinur hans hafi látið hann vita að hann væri að „ganga of nærri konum, óverðskuldað“. Hann taldi það vera rétt ályktað og langaði því að „bera í bætifláka,“ eins og hann orðaði það. „Öll þessi hvössu skrif mín tengdust örlögum Sölva sjónvarpsmanns sem fékk ófagran dóm götunnar og í því framhaldi af því skrifaði ég sísvona, mest til að verja borgaralegt siðað samfélag,“ skrifaði hann á Facebook síðu sína og lét svo ummælin um afstöðu sína fylgja með:

„Við eigum öll að taka afstöðu með SÖLVA en ekki gegn honum, á meðan ekkert er sannað, málið ekki enn tekið fyrir í rétti og dæmt. Hann er frjáls maður og saklaus þangað til hann er dæmdur. Þetta er rétt og siðlegt viðhorf. Það er meira að segja rétt þótt hann síðar reynist sekur.“

„Skrif og skoðanir Guðmundar Pálssonar stangast á við grunngildi heimilislækna“

Í kjölfarið sagði hann að það væri staðreynd að konur verði fyrir órétti og „það er sífellt á þær ráðist og þær verða oft illa úti. Karlar eru oft hömlulausir af kynfýsn, árásarhneigð og ofbeldi í garð kvenna og andskotinn laus í þeim efnum. Það er fáránlegt og gerir mann reiðan. Við sjálfir berum mikla ábyrgð á því að temja kyn okkar, vini okkar, syni okkar og vera harðir í horn að taka ef einhver ætlar að fara hegða sér eins og skepna við konu eða stúlku,“ skrifaði hann. En hann lét ekki þar við sitja því hann skrifaði fljótlega ummæli sjálfur undir færsluna til að útskýra afstöðu sína frekar:

„En það er líka eitthvað brenglað við það setja kynfrelsi kvenna/manna á svo háan stall og möguleika til að hafa mök við hvern sem þeim sýnist, með samþykki beggja. Maður getur ekki varist þeirri hugsun að þetta hafi afleiðingar - enda er það augljóslega hluti vandans. Að konan telji eðlilegt að kveikja elda karlmannsins og bjóða manninum hálfa leið eða lengra, bara til að slökkva svo eldinn ef henni sýnist svo. Jú, menn geta sagt - þarna á karlinn að hlíða og engar refjar! Já, og vissulega geta flestir karlmenn hamið sig - en augljóslega ekki allir. Sumir eru hreinlega brenglaðir á þessu sviði. Það sem ég er að hvetja til, er að konan gæti sín, kyneðlið er villidýrs eðli ef það fer af stað. Þetta hafa allar kynslóðir vitað. Því ekki að taka mark á því?“

„Alls ekki allar konur eru með á vagninum, það er misskilningur, heldur aðeins vonbrigða konur sem hafa orðið fyrir hnjaski ellegar treysta sér ekki í neitt samtal um neitt og vilja ráða öllu sjálfar - og beita valdi og stundum ósannindum til að ná því fram“

Svona væri lengi hægt að halda áfram og Guðmundur tekur ekki einungis afstöðu til þessarar umræðu heldur hefur hann einnig sitt að segja aðra minnihlutahópa eða hópa í viðkvæmri stöðu. Hér má til að mynda sjá afstöðu hans gagnvart útlendingum. 

„Af hverju eru fjölmiðlar ekki heiðarlegir gagnvart þeim sem tjá áhyggjur af fjölda útlendinga í landinu. Hver er ástæðan?“ spyr hann sig. 

„Ég get ekki treyst honum“

Kona sem Stundin ræddi við segist hafa þurft að skipta um heilsugæslu árið 2019 meðal annars vegna niðrandi ummæla Guðmundar í garð kvenna og vegna samskipta sem hún átti við hann sem notandi þjónustunnar á heilsugæslunni.

„Ég hef bæði fengið símatíma hjá honum og hitt á hann,“ segir konan en þegar hún sótti þjónustu sína í heilsugæslu Grafarvogs var hún ekki með fastan heimilislækni og hitti því fleiri en einn lækni með sín mál. Hún hafði fundið fyrir ákveðnum óþægindum í samskiptum við hann sem hún vissi ekki á þeim tíma hver þau voru nákvæmlega.

Eftir að hún fór að sjá hvernig Guðmundur tjáði sig opinberlega á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum ákvað hún að hún gæti ekki lengur leitað til hans. „Ég gat ekki lengur treyst honum, ég gat ekki treyst manni sem talar svona um konur og líka samkynhneigða. Áður en ég sá þetta upplifði ég alltaf að hann væri að tala við mig eins og barn og eftir að ég sá þetta hugsaði ég: auðvitað, hann lítur bara á mig sem barn,“ segir hún. 

Hún segir Guðmund tala á mjög niðrandi hátt um konur og samkynhneigða opinberlega og þess vegna myndi hún ekki treysta sér að leita til hans ef hún yrði fyrir ofbeldi. „Segjum að eitthvað myndi koma fyrir mig, ekki það að ég sé í slíkri hættu, en segjum að ég yrði fyrir heimilisofbeldi eða kynferðisofbeldi og læknir sem talar svona opinskátt um það að þetta sé konum að kenna sjálfar og þær þurfi að passa sig og skrifar til dæmis að það að taka einhvern hálstaki sé bara eðlilegt í samskiptum elskenda, ég get ekki treyst þannig manni til að sinna mér eða dóttur minni eða frænkum mínum eða einhverjum öðrum. Maður sem hefur talað eins og hann hefur talað svona um samkynhneigða og konur, ég treysti ekki svona manni,“ segir hún þá. 

Hún segist ekki vera sú eina sem hafi fært sig um heilsugæslu vegna Guðmundar. „Ég bý við hliðina á heilsugæslunni í Grafarvogi en vill samt ekki fara þangað. Hún hefur almennt mjög vont orð á sér. Ég hef heyrt í öðrum konum sem hafa fært sig vegna hans eða hafa óþægilegar sögur af honum,“ segir hún. 

Læknar mega tala um allt

Stundin bauð Guðmundi að svara og segja sína hlið af málinu. Hann segir að læknar megi tala um allt opinberlega fyrir utan sjúklinga sína. „Þeir tala og skrifa um allt mögulegt og það er söguleg hefð fyrir á meðal íslenskra lækna, Dæmin eru Vilmundur landlæknir, Ólafur Ólafsson og nýlegra dæmi Sveinn Rúnar Hauksson. Læknar tala á opinberum vettvangi eins og lögfræðingar og verkfræðingar. Þeir tala um sjúkdóma og fíknir, um lyf, um hjónabönd, um karla og konur, um heilbrigðismál, menntamál, stríð og frið, um Íslendingasögur, íslenskar hetjur og þjóðerni. Allt mögulegt. Og þeir hafa fullan rétt til þess eins og hver annar borgari,“ segir hann í samtali við Stundina. 

Aðspurður hvernig hann vilji svara því að kona hafi skipt um heilsugæslu meðal annars vegna ummæla hans á opinberum vettvangi segir hann að ekki sé óvenjulegt að sjúklingar skipti um lækni, oftast innan sömu stöðvar vegna ýmissa mála. „Oftast vegna þess að þeir fá ekki það sem þeir vilja, þeim finnst þeir mæta misskilningi eða er neitað um eitthvað til dæmis ávanalyf eða svefnlyf,“ segir hann. 

Hann heldur því fram að það sé einsdæmi að manneskja skipti um heilsugæslu eða lækni vegna þess að læknirinn sé einhverrar skoðunar. „Þarna finnst mér sjúklingur ganga of langt,“ segir hann. 

„Ég get ekki treyst þannig manni til að sinna mér eða dóttur minni eða frænkum mínum eða einhverjum öðrum“

Varðandi hlutverk sitt sem læknir segir hann þessar skoðanir hafa engin áhrif á samtöl sín við sjúklinga eða meðferðir varðandi þá. „Ég tek jafnt á móti öllum konum sem körlum, ungum sem gömlum, innlendum sem erlendum og ég veit ekki betur en að sjúklingarnir séu sérlega ánægðir. Ég vil taka það fram að það liggja engar kærur frammi um framkomu mína við sjúklinga svo það sé áréttað. Svo hér er augljóslega um árás að ræða undir beltisstað.“

Hann segir ennfremur að enginn ástæða sé til þess að hann feli skoðanir sínar, þær beinist ekki gegn neinni persónu heldur séu þær hugleiðingar sem eru opnar fyrir athugasemdum. „En hvað með mótbárur þá? Það má segja að maður sé svo heppinn að búa í landi með bæði málfrelsi og prentfrelsi,“ segir hann. 

Guðmundur fagnar því að umræða sé komin í gang vegna ummæla sinna.  „Við skulum aðeins vera róleg, því allir þola ekki andstæðar skoðanir. En það er ómetanlegt að fá þetta fram. Athugaðu að allar þessar skoðanir og hugleiðingar eru réttmætar í frjálsu þjóðfélagi, andstaða við fóstureyðingar einnig og veruleg veruleg illska út í feminisma, sem hefur margar skuggahliðar og eyðileggur líf margra kvenna, barna og karla.“

Læknafélagið tekur ekki afstöðu til skrifana

Stundin leitaði viðbragða Læknafélags Íslands við slíkum skrifum Guðmundar. Reynir Arngrímsson, formaður félagsins, sagði félagið ekki taka afstöðu er varðaði ummæli og framferði einstakra lækna en vísaði í færslu félagsins á Facebook er varðar tjáningu lækna á samfélagsmiðlum. 

Í færslu félagsins segir að „því má aldrei gleyma að færslur á samfélagsmiðlum geta haft afleiðingar fyrir lækna jafnt og aðra, bæði jákvæðar og neikvæðar. Vel undirbúin og fagleg þátttaka í samfélagsmiðlum getur verið árangursrík aðferð til að tengjast kollegum og upplýsa sjúklinga. Slíkar færslur geta aukið traust almennings á læknastéttinni. Með sama hætti þurfa læknar að vera meðvitaðir um það að framkoma þeirra á samfélagsmiðlum getur einnig haft neikvæð áhrif bæði á þá persónulega og traust almennings til lækna. Það sem læknir setur á samfélagsmiðla getur haft áhrif á orðspor viðkomandi bæði meðal sjúklinga og kollega.“

Textinn er fenginn úr leiðbeiningum félagsins um notkun félagsmanna á samfélagsmiðlum. Settar eru fram nokkrar leiðbeiningarreglur til félagsmanna um notkun samfélagsmiðla. Í reglu númer 3 er farið yfir að íhuga vel hvort skynsamlegt er að deila efni á samfélagsmiðlum og í henni segir: „Allir njóta tjáningarfrelsis og skoðanafrelsis en þessum mannréttindum eru takmörk sett. Meiðyrðalöggjöf nær til netsamskipta. Þess vegna er skynsamlegt að forðast athugasemdir um einstaklinga, félög eða stofnanir sem túlka má sem tilefnislaus eða óstaðfest og þar með mögulega meiðandi.“

Þá nær ein reglan eða sú áttunda utan um siðareglur Læknafélags Íslands og vakin er athygli á því að læknar hugi einnig að þeim í öllum samskiptum sínum á samfélagsmiðlum. Í meginreglum siðareglna segir að læknar skuli virða læknisstarfið og sýna ábyrgð í starfi og sýna vammleysi í líferni og starfi. 

Í fyrstu grein siðareglna lækna segir að lækni sé „ósæmandi að takast á hendur nokkra sýslu er skerðir sjálfstæði hans sem læknis og gæta heiðurs læknastéttarinnar jafnt í læknisstörfum sínum sem öðrum athöfnum.“  Í sömu grein kemur fram að „Læknir skal rækja starf sitt af vandvirkni og samviskusemi án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi áhrifa.“ Á þessum grundvelli og öðrum úrskurðar siðanefnd Læknafélags Íslands um brot á siðareglum lækna. Nýlega hefur læknir verið áminntur af nefndinni fyrir ummæli sín á samfélagsmiðlum og hefur Stundin óskað eftir þeim úrskurð frá félaginu. 

„Það sem ég er að hvetja til, er að konan gæti sín, kyneðlið er villidýrs eðli ef það fer af stað“

Í siðareglunum má finna kafla er varðar auglýsingar lækna, vefsíður og fjölmiðla. Í 17. grein siðareglna segir: „Lækni hlýðir að birta nýjungar í fræðigrein sinni með mikilli gát, hann skal gæta fyllstu varkárni í ummælum um fagleg mál og hann skal íhuga ábyrgð sína í því efni, hvort sem hann ræðir við einstakling eða á opinberum vettvangi. Enn fremur er komið inn á það í 19. Grein siðareglna að læknir skuli forðast ummæli sem geti skapað óþarfan eða óréttlætanlegan ótta við sjúkdóma eða órökstudda vantrú á læknisstarfi.

Í því samhengi má líta til ummæla Guðmundar um getnaðarvarnir: „Ung kona í blóma lífsins, segum 18-23 ára ákveður að bindast engum manni (ennþá) heldur fer hún út á lífið á eigin spítur, kaupir eða leigir íbúð og ferð að vinna eða í nám. Varla er neitt óeðlilegt við það? Reynslan sýnir að þessi sólóferð konunnar tekur kannski 10 ár, jafnvel 15 af dýrmætasta tíma hennar. Á þeim tíma er hún hugsanlega með hjálp pillunar í tengslum við nokkra menn en ákveður ekki með framhald, fjölskyldustofnun eða börn, sem gefur eins og flestir vita mesta gæfu og ekkert getur komið í staðinn fyrir, hvorki fyrir einstaklinginn eða samfélagið.“

Í annari færslu talar hann um að kynfræðsla dagsins í dag sé í röngum höndum. Fyrir það fyrsta kynnir hún börn fyrir „alls konar perversjónir“ og gefi „gulgrænt“ ljós á kynlíf fyrir hjónaband sem skaði konur mest. Í færslunni kemur hann inn á pilluna og segir hana ekki hafa aukaverkanir en kynlíf hafi þær. „Betra er að fá að þroskast í friði, einbeita sér að öðru og bíða.“ í þessum tveimur færslum gefur Guðmundur sig út fyrir að vera á móti getnaðarvarnapillunni og grefur þannig undan notkun hennar. 

Hverjum sem er er frjálst að leggja fram kvörtun eða ábendingu til siðanefndarinnar svo hún geti tekið afstöðu til hvers tilviks fyrir sig en að öðru leyti hefur félagið ekki frumkvæði að því að meta ummæli eða framferði lækna á opinberum vettvangi sem gætu á einn eða annan hátt varðað siðareglur félagsins. 

Samtök Norrænna heimilislækna fordæma skrifin

Jóhann Ágúst Sigurðsson, formaður Samtaka Norrænna heimilislækna eða Nordic Federation of General Practice, segir í samtali við Stundina að „skrif og skoðanir Guðmundar Pálssonar stangast á við grunngildi heimilislækna“. 

Í grunngildum heimilislækna segir Jóhann að tekið sé fram að „til þess að varðveita heilsu er mikilvægt að hver og einn njóti réttlætis og virðingar. Þar ber sérstaklega að taka tillit til ójafnvægis eða óréttlætis sem skapast geti vegna kynþáttar/hörundslitar, kyns, kynhegðunar, pólitískra skoðana, atvinnuleysis, trúarbragða, og svo framvegis. Í fyrrnefndum skrifum Guðmundar er vegið að þessum þáttum,“ segir Jóhann.

„Að konan telji eðlilegt að kveikja elda karlmannsins og bjóða manninum hálfa leið eða lengra, bara til að slökkva svo eldinn ef henni sýnist svo“

Þá segir hann að í sömu grein um grunngildin sé bent á að heimilislæknar telji það skyldu sína að tala um eða segja frá ef þeir verði varir við slíkt misrétti í starfi sínu og því telji hann sig vera í þeirri afstöðu að vekja athygli á þessu vandamáli. 

Jóhann segir að Guðmundur hafi tjáningarfrelsi eins og aðrir en það sé alltaf háð þeirri stöðu sem hver og einn sé í. „Þar eð skoðunin tengist oft ekki aðeins persónunni heldur einnig stöðu/fagstétt viðkomandi. Þannig getur til dæmis stjórnmálamaður í valdastöðu ekki tjáð sig um hvað sem er sem persóna, eða hegðað sér hvernig sem er sem persóna, samanber Trump. Læknir er einnig í svipaðri stöðu þar sem fólk getur verið háð honum eða henni vegna heilsu sinnar. Fólk er háð því að læknir sinni vandamálum þeirra óháð þeim þáttum sem ég nefndi hér að ofan. Umræða læknis á Facebook verður þannig bæði tengd persónunni og faginu sem slíku.“

Guðmundur segist spyrja sig hvort afstaða formanns Samtaka Norrænna heimilislækna sé persónulega gegn honum. „En ég veit að hann er á öndverðri pólitískri skoðun,“ segir hann um Jóhann og heldur síðan áfram: „Ekki skil ég þetta en veit að hann Jóhann vinur minn er afar mikið í pólitíska rétttrúnaðinum. Það er ekki gott að blanda því saman við lækningar.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Davíð kallar borgarstjórn bjálfa fyrir að taka niður styttuna af Séra Friðriki
2
FréttirSr. Friðrik og drengirnir

Dav­íð kall­ar borg­ar­stjórn bjálfa fyr­ir að taka nið­ur stytt­una af Séra Frið­riki

Rit­stjóri Morg­un­blaðs­ins seg­ir upp­lýs­ing­ar um að Séra Frið­rik Frið­riks­son, stofn­andi KFUM, hafi beitt fjöl­marga drengi kyn­ferð­is­legu áreiti og of­beldi vera „get­gát­ur eins manns“ eft­ir að „ímynd­un­ar­afl hans fór loks í gang eft­ir tæp 75 ár.“ Það að stytta af hon­um hafi ver­ið fjar­lægð sé merki um of­stæki þeirra sem noti hvert tæki­færi til að þykj­ast betra og pen­inga­laus­ara en ann­að fólk.
Steinunn Ólína segist ekki bjóða sig fram gegn Katrínu vegna persónulegrar óvildar
4
Fréttir

Stein­unn Ólína seg­ist ekki bjóða sig fram gegn Katrínu vegna per­sónu­legr­ar óvild­ar

Stein­unn Ólína Þor­steins­dótt­ir sagð­ist í Pressu fara fram fyr­ir hönd þeirra sem upp­lifa valda­leysi gagn­vart stjórn­völd­um. Taldi hún for­seta­kosn­ing­arn­ar vera af­ar póli­tísk­ar að þessu sinni. Þrátt fyr­ir gagn­rýni sína á rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur, ít­rek­aði Stein­unn að fram­boð henn­ar væri ekki vegna per­sónu­legra óvild­ar henn­ar í garð Katrínu.
Katrín telur sig ekki þurfa að svara spurningum um laxeldisfrumvarp
6
FréttirLaxeldi

Katrín tel­ur sig ekki þurfa að svara spurn­ing­um um lax­eld­is­frum­varp

Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­setafram­bjóð­andi og fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra þar til fyr­ir tæp­um mán­uði síð­an, tel­ur sig ekki þurfa að svara spurn­ing­um um mál sem hún kom að á Al­þingi sem enn eru í vinnslu þar. Í fyrsta skipti er for­setafram­bjóð­andi í þeirri stöðu að þurfa mögu­lega að sam­þykkja eða synja lög­um sem við­kom­andi kom að á þingi sem ráð­herra.
Formaður Sameykis sakaður um ógnarstjórn
7
Skýring

Formað­ur Sam­eyk­is sak­að­ur um ógn­ar­stjórn

Skrif­stofa Sam­eyk­is hef­ur und­an­far­ið ver­ið að glíma við ósætti á vinnu­staðn­um og slæm­an vinnu­anda. Sam­kvæmt ný­legri út­tekt sem gerð var á vinnu­staðn­um bend­ir ým­is­legt til að vand­ann megi rekja til fram­komu og stjórn­un­ar­hátta for­manns Sam­eyk­is, Þór­ar­ins Eyfjörð. Sjálf­ur seg­ist hann hafa tek­ið til sín eitt­hvað af þeirri gagn­rýni sem bein­ist gegn hon­um og að vinna við að bæta and­rúms­loft­ið á skrif­stof­unni sé vel á veg kom­inn.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Örlæti Haraldar kostar ríkissjóð yfir hálfan milljarð
4
Afhjúpun

Ör­læti Har­ald­ar kost­ar rík­is­sjóð yf­ir hálf­an millj­arð

Rík­is­sjóð­ur sit­ur uppi með yf­ir 500 millj­óna króna reikn­ing eft­ir að Har­ald­ur Johann­essen, fyrr­ver­andi rík­is­lög­reglu­stjóri, hækk­aði líf­eyr­is­rétt­indi út­val­inna und­ir­manna sinna um helm­ing, án þess að hafa til þess heim­ild. Þetta er nið­ur­staða meiri­hluta Hæsta­rétt­ar sem kall­ar verk Har­ald­ar „ör­læt­is­gjörn­ing“. Stór hluti þess­ara und­ir­manna Har­ald­ar skrif­aði und­ir op­in­bera stuðn­ings­yf­ir­lýs­ingu við hann stuttu síð­ar. Samn­ing­arn­ir standa samt því und­ir­menn­irn­ir vissu ekki bet­ur en að Har­ald­ur mætti gera þá. Um­mæli tveggja ráð­herra hafi styrkt þá trú þeirra.
Þórður Snær Júlíusson
8
Leiðari

Þórður Snær Júlíusson

Dýr­asta kosn­ingalof­orð Ís­lands­sög­unn­ar

Ár­ið 2003 lof­aði Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn 90 pró­sent lán­um til hús­næð­is­kaupa svo börn gætu flutt úr for­eldra­hús­um. Rík­is­ábyrgð var á fjár­mögn­un lán­anna. Nú, tveim­ur ára­tug­um síð­ar, stend­ur rík­is­sjóð­ur frammi fyr­ir því að vera að tapa að nokkr­um millj­örð­um króna á mán­uði vegna þess­ara lof­orða og það hef­ur aldrei ver­ið erf­ið­ara fyr­ir ungt fólk að kom­ast í eig­ið hús­næði.
Við hvaða götu býr Ragnar? Reykás
10
Helgi skoðar heiminn

Við hvaða götu býr Ragn­ar? Reykás

Sauð­kræk­ing­ur­inn Ragn­ar Páll Árna­son, sem starfar hjá Öss­uri, býr í ná­grenni höf­uð­stöðva fyr­ir­tæk­is­ins, við göt­una Reykás. Seg­ist ekki hafa ætl­að að ílengj­ast þar, en kann nú hvergi bet­ur við sig. Siggi Sig­ur­jóns, guð­fað­ir Ragn­ars Reykáss, kann vel að meta sög­una af „nafna“ sín­um. Hann á sjálf­ur pín­lega en um leið drep­fyndna sögu tengda göt­unni í Ár­bæn­um.

Mest lesið í mánuðinum

Læstur inni í íbúðinni sinni í fimmtán ár
1
ViðtalFatlað fólk beitt nauðung

Læst­ur inni í íbúð­inni sinni í fimmtán ár

Sveinn Bjarna­son bjó í fimmtán ár í læstri íbúð á veg­um Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar. Hann bank­aði oft ít­rek­að og grét áð­ur en starfs­fólk opn­aði fyr­ir hon­um. Móð­ir hans gerði end­ur­tekn­ar at­huga­semd­ir við að hann væri læst­ur inni og seg­ir son sinn hafa ver­ið van­rækt­an. Fyrr á þessu ári greip hún til þess ör­þrifa­ráðs að flytja hann bú­ferl­um í ann­an lands­hluta til að fá mann­sæm­andi að­bún­að fyr­ir hann. Mál Sveins varp­ar ljósi á al­var­leg­ar brota­lam­ir í þjón­ustu við fatl­að fólk á Ís­landi og sýn­ir hvernig mann­rétt­indi hafa ver­ið virt að vett­ugi ár­um sam­an.
Rúlletta Róberts og vitnisburðir starfsfólks: „Þetta er bara rosalega mikið álag“
3
ÚttektRóbert Wessman, Alvogen og Alvotech

Rúll­etta Ró­berts og vitn­is­burð­ir starfs­fólks: „Þetta er bara rosa­lega mik­ið álag“

Starfs­menn Al­votech lýsa vinnu­álag­inu sem ómann­eskju­legu og hafa leit­að til stétt­ar­fé­laga út af ógreiddri yf­ir­vinnu og fleiri mál­um. Vinnu­að­stæð­urn­ar hafa ver­ið svona út af því að Al­votech hef­ur unn­ið að því að fá mark­aðs­leyfi fyr­ir sam­heita­lyf Humira í Banda­ríkj­un­um. Fyr­ir­tæk­ið hef­ur veðj­að öllu á þetta lyf en sala á því hef­ur dreg­ist sam­an og sam­heita­lyfj­um þess hef­ur alls ekki geng­ið eins vel í Banda­ríkj­un­um og reikn­að var með.
Ákveðið að saksækja þrjá í Lindsor-málinu rúmum 15 árum síðar
7
Skýring

Ákveð­ið að sak­sækja þrjá í Lindsor-mál­inu rúm­um 15 ár­um síð­ar

Sama dag og Geir H. Haar­de flutti ræðu til þjóð­ar­inn­ar þar sem hann bað guð um að blessa Ís­land veitti Kaupþing af­l­ands­fé­lagi lán sem not­að var til að kaupa verð­lít­il skulda­bréf af starfs­mönn­um og vild­ar­við­skipta­vini bank­ans. Nú, 15 og hálfu ári eft­ir að lán­ið var veitt, stend­ur til að sak­sækja þrjá ein­stak­linga í Lúx­em­borg vegna þess.
Hjúkrunarheimilið Sóltún fékk 20 milljarða frá íslenska ríkinu
8
Fréttir

Hjúkr­un­ar­heim­il­ið Sól­tún fékk 20 millj­arða frá ís­lenska rík­inu

Frá ár­inu 2009 hef­ur hjúkr­un­ar­heim­il­ið Sól­tún feng­ið tæp­lega 20 millj­arða króna frá ís­lenskra rík­inu. Um 90 pró­sent af tekj­um Sól­túns koma frá rík­inu. Eig­end­urn­ir hafa tek­ið á þriðja millj­arð króna út úr rekstr­in­um með því að selja fast­eign­ir og lóð­ir og lækka hluta­fé fyr­ir­tæk­is­ins. All­ur rekst­ur­inn bygg­ir hins veg­ar á um­deild­um samn­ingi við ís­lenska rík­ið sem gerð­ur var ár­ið 2000.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár