Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Upplýsingafundur Almannavarna: „Svo mikið kjaftæði að ég trúi því varla að við skulum þurfa að fást við þetta“

Hundruð beiðna um und­an­þág­ur frá sótt­varn­ar­regl­um hafa borist síð­ust daga. Víð­ir Reyn­is­son yf­ir­lög­reglu­þjónn hvatti fólk til að sækja ekki um und­an­þág­ur nema lífs­nauð­syn­legt væri á upp­lýs­inga­fundi Al­manna­varna nú fyrr í dag. Þá hef­ur starfs­fólk versl­ana set­ið und­ir dóna­skap og hót­un­um þeg­ar það reyn­ir að fram­fylgja grímu­skyldu að sögn Víð­is, sem var öskureið­ur vegna þessa.

Hundruð undanþágubeiðna hafa borist frá þeim sóttvarnarreglum sem settar voru síðasta laugardag. Bara síðastliðinn laugardag voru undanþágubeiðnir 300 talsins. Mikilvægt er að fólk leiti ekki eftir undanþágum nema að lífsnauðsynlegt sé, sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi almannavarna í dag. Augljóst var að þungt var í Víði vegna þessa og hvatti hann fólk til að láta af þessu. Allir þyrftu að draga sig inn í skelina og láta lítið fyrir sér fara næstu tvær vikurnar til að ná tökum á Covis-19 faraldrinum. „Það er komið að ögurstundu núna,“ sagði Víðir.

Kórónaveirufaraldurinn er ekki í veldisvexti hér á landi líkt og er að gerast í víðast hvar í nágrannalöndunum. Þar eru sjúkrahúspláss að fyllast og erfiðleikar þess vegna orðnir alvarlegir. Allt þarf að gera til að koma í veg fyrir að faraldurinn komist í veldisvöxt, sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á fundinum. 

26 innanlandsmit greindust í gær, þar af voru 10 ekki í sóttkví. Einn lést í gær á Landspítala af völdum kórónaveirunnar og var sá á níræðisaldri. 16 manns hafa látist af völdum sjúkdómsins, þar af 6 í þeirri bylgju sem nú stendur yfir.

72 eru nú inniliggjandi á sjúkrahúsi og þar af 3 á gjörgæslu. Í máli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítala, kom fram að ástandið á gjörgæslu væri mjög þungt núna því auk þessara þriggja sem glíma við Covid-19 væri fjöldi manns þar inniliggjandi af öðrum orsökum. Staðan á Landspítala væri mjög þung og álag þar verulegt. 

2.023 eru nú í sóttkví og sagði Þórólfur hægt að búast við því að einhverjir úr þeim hópi myndu greinast með veiruna. 1.448 eru í skimunarsóttkví eftir komu til landsins. Sex smit greindust á landamærunum í gær. 905 manns eru nú í einagrun, smituð af Covid-19.

Alma Möller landlæknir greindi frá því að smit hefðu verið að greinast í nokkuð miklu mæli á Norðurlandi síðustu daga og nú væru um 100 manns smitaðir þar. Fjórir af þeim sem inniliggjandi eru á sjúkrahúsi vegna Covid-19 eru inniliggjandi á Sjúkrahúsinu á Akureyri og var það fært á hættustig síðastiðinn laugardag. 

„Þetta er svo mikið kjaftæði að ég trúi því varla að við skulum þurfa að fást við þetta núna“

Hafi þungt verið í Víði þegar hann ræddi um undanþágubeiðnir þá var hann beinlínis reiður þegar hann lýsti því að starfsfólk verslana hefði orðið fyrir aðkasti, þurft að þola ókurteisi, dónaskap og hótanir og allt að því ofbeldi um helgina þegar starfsfólkið minnti viðskiptavini á að grímuskylda væri í gildi í verslunum. „Þetta er svo mikið kjaftæði að ég trúi því varla að við skulum þurfa að fást við þetta núna,“ sagði Víðir og var allt annað en sáttur við hegðun fólks. 

Páll sagði að um 140 manns hefður greinst í hópsmitinu sem tengist Landkotsspítala, þar af um 100 starfsmenn og sjúklingar. Starfsfólk Landakots hefði unnið kraftaverk við að endurskipuleggja starf spítalans. Þórólfur sagðist vonast til að með þeim hertu aðgerðum sem nú væru í gildi myndum við ekki sjá frekari hópsýkingar. 

Í máli Þórólfs kom einnig fram að ekkert nýtt væri að frétta af bóluefni en sóttvarnarlæknir væri þegar farinn af stað með vinnu svo hægt yrði að bólusetja fljótt og örugglega þegar að öruggt og virkt bóluefni kæmi fram. Vonaðist hann til að það gæti orðið fljótlega á nýju ári. 

Þórólfur sagðist gera sér grein fyrir að komin væri þreyta í marga vegna ástandsins og þær hertu aðgerðir sem nú væru í gildi myndu auka á þær. Það væri hins vegar afara miklvægt að við stæðum nú saman sem þjóð og gættum að sóttvörnum, aðgerðirnar væru til þess gerðar að ná að slá á faraldurinn og vonaðist hann til þess að þær færu að bíta fljótt. Þá yrði hægt að fara að slaka á þeim og aflétta einhverjum af þessum hertu reglum eftir tvær vikur en það yrði að fara hægt í þeim efnum. Með samstilltu átaki tækist okkur að ná tökum á ástandinu og þá yrði vonandi hægt að halda upp á aðventuna og jólin með minni takmörkunum. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Covid-19

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu