Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta

Ás­geir Guð­munds­son fór sem sjálf­boða­liði til Súða­vík­ur eft­ir að snjóflóð féll yf­ir byggð­ina. Hann skrif­aði end­ur­minn­ing­ar sín­ar 10 ár­um síð­ar en hef­ur aldrei birt þær fyrr en nú. Við­kvæm­ir eða þeir sem eiga um sárt að binda eru var­að­ir við lestr­in­um.

16 janúar 1995.

Ég vaknaði til að fara í vinnu frá Ísafirði til Bolungarvíkur.

Það hafði spáð vondu veðri kvöldinu áður svo ég hafði fært bílinn minn út næstu götu til að ég þyrfti ekki að moka mig fram.

Veðrið var ekki gott en það var vinnudagur svo ég klæddi mig vel og fór út.

Maður sá ekki svo mikið fyrir veðrinu en þeir voru jú vanir að opna vegina. Bíllinn startaði og þá var bara að keyra af stað 100 metra. Þetta gekk 200 m, ég kom fram að norðurtanganum og þar var snjóveggur sirka tveir metrar. Nei, þetta var ekkert vit, maður þurfti að kanna þetta aðeins betur svo ég sneri heim.

Ásgeir GuðmundssonSkrifar um lífsreynslu sína við björgunarstarf í Súðavík.

Ég hringdi í Vegagerðina og spurði hvort það yrði opnað en þeir sögðu að það væri beðið átekta. Það var lítið við því að gera.

Ég lagði á kolaeldavélina sem var ennþá með glóð frá kvöldinu áður. Kjallari fullur af kolum síðan 19 hundruð og eitthvað og eldavélin klár. Því ekki að taka þetta í notkun þegar viðrar svona? Það var jú ekki alltaf rafmagn þegar veðrið lét svona.

Ég lagðist í sófann með lopapeysuna á mér og hafði útvarpið á. Ég hlýt að hafa dottað, það var orðið svo heitt að svitinn lak næstum af mér.

Svo heyrðist í útvarpinu að það hafði fallið snjóflóð í Súðavík. Hvað er að gerast? Var þetta fólk sem ég þekkti? Og smátt og smátt rann það upp fyrir mér hvað var að gerast.

Ég vissi hvað snjóflóð væri og hafði gert frá síðustu árum og mínum uppvexti á Hrauni á Ingjaldssandi við Önundarfjörð. Svitinn varð kaldur og ég skalf af tilhugsuninni um þetta.

En það var ekki svo mikið sem maður gat gert hérna. Ég vissi að þeir sem ég hafði áður verið með í björgunarsveitinni voru örugglega farnir inneftir, svo ég sat bara þarna og hlustaði á útvarpið.

Svo kom tilkynning í útvarpinu um að þeir sem gætu komið og hjálpað til væru beðnir um að koma niður á slökkvistöð.

Ég hafði verið með áður svo það var ekki nein spurning um annað en að fara.

Ég vakti konuna og sagði henni hvað hefði  gerst og hvort það væri ekki í lagi að ég færi. Hún þekkti mig og vissi að það væri ekki hægt að stoppa mig.

Hvernig verður þetta?

Ég gerði mig kláran með vettlinga og sokka til skiptanna. Skórnir mínir voru ekki svo góðir, en ég hugsaði með mér að það yrði ekki svo mikið um göngu. Ég smurði mér nesti þar sem ég vissi að það gæti verið lítið um mat til að byrja með.

Ég lagði af stað gangandi niður að slökkvistöð. Það var orðið bjart og veðrið hafði versnað, eða það virtist hafa versnað. Það var eiginlega ekki mögulegt að sjá fram fyrir sig. En það er ekki svo erfitt að labba á milli húsa hér þar sem maður þekkir allt.

Allt var hvítt og maður sá að það hafði komið mikill snjór. Ég var spenntur og skalf smá inni í mér, hugsaði mikið um hvað myndi nú ske og hvernig þetta yrði.

Þegar ég kom inn á slökkvistöðina voru mörg andlit sem ég þekkti. Allir sátu þar og voru frekar þungir á svip. Ég gekk og registerti mig og var sagt að bíða þar til það yrði farið með okkur á bát inn í Súðavík.

Biðin í slökkvistöðinni var löng og við urðum bara fleiri og fleiri þar og að lokum kom það sem við allir biðum eftir. Ég labbaði saman með fleirum niður í Sundahöfn og þar beið togari eftir okkur. Ég veit ekki hvað það voru margir um borð, en það var þrungin stemning. Við komum okkur á millidekkið og svo vorum við lagðir af stað.

Sjóferðin

Við flestir sem vorum þar vorum ekki sjóvanir og sjórinn tók meira og meira í bátinn.

Mér leið ekki vel. Fiskikassarnir köstuðust veggja á milli og við þurftum að passa okkur á þeim. Maður sá þegar báturinn lagði til hliðar að sjórinn náði upp að kýraugunum. Það var bara að halda sér. Ég er að venju mjög sjóveikur en ekki í dag.

Spennan var mikil og maður hugsaði: Komust við inneftir? Maður getur ekki gert sér grein fyrir því hvað skipið þolir, lifir maður þessa sjóferð af? Margar hugsanir vakna og maður sá á öðrum að það var ekki bara ég sem hugsaði svona.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár