Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Blekking Geirs

Blekking Geirs

Fyrir réttum tíu árum síðan mætti Geir Hilmar Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í sjónvarp allra landsmanna og tilkynnti okkur að íslenska bankakerfið væri ekki lengur sjálfbært; íslenska ríkið þyrfti að taka bankana yfir með neyðarlögum til að koma í veg fyrir að þjóðarbúið myndi "sogast með bönkunum í brimrótið, og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot." Kvöldið áður hafði hann sagt í viðtali að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur.

Tíu árum síðar mætti hann í viðtal á sömu sjónvarpsstöð til að kvarta undan því að hann hefði verið blekktur. Og látinn sæta einhverri ábyrgð - eða svona þannig lagað.

Í tilefni af afmæli hrunsins sem kallaði einhverjar mestu samfélagslegu hamfarir síðustu alda yfir þjóðina, með þeim afleiðingum að fjölmargir Íslendingar misstu vinnuna og aleiguna, helmingur fyrirtækja varð tæknilega gjaldþrota, krónan kolféll, þjóðin varð að athlægi á alþjóðavísu og hérumbil allt traust og festa í samfélaginu glataðist um langa hríð.

Í tilefni af því tók Ríkisútvarpið viðtal við forsætisráðherrann og formann flokksins sem leiddi okkur að þessum ósköpum. Fulltrúi RÚV byrjaði viðtalið á því að fullyrða ranglega að Geir hefði bara verið dæmdur í Landsdómi "fyrir að halda ekki fundargerðir". Þetta sagði fréttamaðurinn um eftirfarandi dómsorð Landsdóms (bls. 383):

"Sú háttsemi ákærða að láta farast fyrir að hlíta fyrirmælum 17. gr. stjórnarskrárinnar um að halda ráðherrafundi um þau mikilvægu stjórnarmálefni, sem lýst hefur verið hér að framan, varð ekki eingöngu til þess að brotin væri formregla, heldur stuðlaði hún að því að ekki var á vettvangi ríkisstjórnarinnar mörkuð pólitísk stefna til að takast á við þann mikla vanda, sem ákærða hlaut að vera ljós í febrúar 2008. Ef slík stefna hefði verið mörkuð og henni síðan fylgt eftir á skipulegan hátt, þar á meðal af Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, má leiða að því rök að draga hefði mátt úr því tjóni, sem hlaust af falli bankanna í byrjun október 2008. Enn fremur er líklegt að stjórnvöld hefðu þá verið betur undir það búin að taka afstöðu til beiðni Glitnis banka hf. um fjárhagsaðstoð í lok september 2008 þannig að greiða hefði mátt úr vanda þess banka á yfirvegaðri hátt en gert var. "

Geir var semsagt ekki dæmdur fyrir að halda ekki fundargerðir, heldur fyrir að marka ekki pólitíska stefnu um viðbrögð við vandanum, sem hefði getað dregið verulega úr tjóni hrunsins. Þetta kom hvergi fram í viðtalinu.

En auðvitað tók Geir undir þessa glötuðu söguskýringu. Hann bætti um betur og hélt því fram að í rauninni hefði Landsdómur hreinsað hann af ásökunum Rannsóknarnefndar Alþingis, og að málið hefði allt saman bara verið hefndarför gamalla pólitískra andstæðinga hans, sem voru ekki nógu sanngjarnir og réttsýnir. Við þá söguskoðun gerði fulltrúi RÚV engar athugasemdir.

Í raun var ekkert meira komið inn á mistök og vanrækslu Geirs í þessu 40 mínútna viðtali nema til þess að spyrja hvers vegna Geir hefði ekki svarað gagnrýninni meira? Svona eins og það hafi verið svo auðvelt að leiðrétta ásakanirnar að það hafi eiginlega verið undarlega stórmannlegt af Geir að svara þeim ekki meira en hann gerði.

Geir notaði nú samt tækifærið til að útskýra fyrir okkur hinum hvernig tíu ár af umhugsun og sældarlífi í sendiráði Íslands í Washington hafa ekki nægt honum til þess að upphugsa nokkuð sem hann hefði getað gert betur í aðdraganda hrunsins.

Ekkert sem hefði getað gefið honum til kynna að nokkuð væri á seyði í bönkunum - þeir sögðu jú sjálfir í ársreikningum sínum að allt væri í góðu, og það var skrifað upp á þessa reikninga af "fínustu endurskoðunarskrifstofum". Nú, hvaða forsætisráðherra myndi ekki láta sér það nægja?

Alveg sama þó bankarnir hafi þurrausið lánalínur í Evrópu árið 2006 og í Bandaríkjunum ári síðar - og þó seðlabankastjórar og ráðherrar þar hafi fyrir löngu gert sér grein fyrir því að íslenska bankakerfið stefndi í gjaldþrot, eins og seðlabankastjórinn sem tók við eftir fylleríið vitnaði um í nýlegu viðtali við Stundina.

Hvernig gat það komið Geir við, að Seðlabankinn skyldi á hans vakt lána bönkunum yfir 500 milljarða á nokkurra mánaða bili, eftir að þeir höfðu brennt allar brýr að baki sér í evrópskum og bandarískum bönkum? Eða að um 300 milljörðum af þeirri upphæð hafi verið sturtað í bankana gegn snargölnum og verðlausum ástarbréfum sem bankarnir gáfu út hver fyrir aðra, þó slíkt hafi hvergi annars staðar tíðkast? Eða að Seðlabankinn skyldi lána Kaupþingi nánast allan gjaldeyrisvaraforðann sinn, um 78 milljarða, þremur dögum fyrir fall bankans?

Ekkert af þessu virðist Geir hafa séð nokkuð athugavert við, hvað þá að það hafi verið ástæða til að kalla saman ríkisstjórn og marka einhverja stefnu um viðbragðsáætlun. Bankarnir höfðu jú svo fínar endurskoðunarskrifstofur. En eins og Svein Harald Øygard sagði í áðurnefndu viðtali:

"Þrátt fyrir að vera háðir seðlabönkum héldu þeir áfram að auka lánveitingar, sérstaklega til alþjóðlegra eignarhaldsfélaga eigenda sinna. Eins og að reykja á leið í hjartauppskurð. Allir bankamenn mundu segja að það sé óviðeigandi að vaxa með fjármagni seðlabanka og enn verra að fjármagna eigendur bankanna[...] Jafnvel í lok 2007 þá var fjármögnunarkostnaður bankanna ósjálfbær. Þar af leiðandi varð fjármögnunin sífellt skammsýnari. Lán Seðlabankans til bankanna fóru úr 50 milljörðum króna í 520 milljarða síðasta árið. Þeir ráku bankana á reikningi Seðlabankans og það er engin leið til að reka banka. Allir aðrir sáu það. Alþjóðlegir aðilar sáu það og í hvert sinn sem reynt var að ræða þetta mættu þeir afneitun[...] Yfirvöld nýttu ekki aðstöðu sína sem fjármögnunaraðili bankanna til að setja skilyrði  fyrir lánunum, eins og þau hefðu átt að gera. Viðtölin sem ég tók vegna bókarinnar staðfesta að það hefði verið eðlileg hegðun á alþjóðavísu. Allt þetta gerðist fyrir október 2008.“

Ekkert af þessu kom fram í viðtalinu langa, sem snerist að mestu um það hvernig Geir hafi liðið og hvort hann sé nokkuð enn reiður út í okkur hin fyrir að hafa reynt að láta hann sæta einhverri lágmarksábyrgð? Með því að veita honum sendiherrastöðu í Washington, altso.

Svo vel gengur þeim að endurskrifa söguna að forystumenn hinna ýmsustu flokka vilja að þingið og þjóðin biðji grey Geir afsökunar á þessum ósköpum öllum. "Helvítis fokking fokk" verði strokað út og "Hey, sorrýmeðmig" skrifað yfir.

Ekki meir. Þeir rændu okkur aleigunum, traustinu og stoltinu fyrir tíu árum síðan. Leyfum þeim ekki að ræna okkur sögunni líka.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu