Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Bjarni, Guðlaugur og Birgir sátu þrjú þúsund sinnum hjá

Bjarni, Guðlaugur og Birgir sátu þrjú þúsund sinnum hjá

Eitt af því sem skrímsladeild íhaldsins í íslenskum stjórnmálum hefur þótt hvað mikilvægast að verja fjármunum sínum í, er að dreifa út þeim rógi að Píratar séu málefnalaus flokkur, að þingmenn flokksins sitji bara alltaf hjá í atkvæðagreiðslum á Alþingi og hafi í raun enga afstöðu til mikilvægra mála.

Þetta náði hvað bestri dreifingu með pistli á heimasíðu hirðarinnar, www.andriki.is, með fyrirsögninni "Sátu þrjúþúsund sinnum hjá – gagnrýna aðra þingmenn fyrir vinnubrögð"; þar sem teknar voru saman hjásetur þriggja þingmanna Pírata á heilu kjörtímabili í stjórnarandstöðu og komist að því að þær væru rúmlega þrjú þúsund talsins - sem þótti mikið hneyksli. Spyr Björn Bjarnason síðan á þeim grunni:

"Finnst einhverjum líklegt að flokkur með þessa þingsögu láti stranda á málefnum við stjórnarmyndun?"

Þessi áróður hefur náð ágætri dreifingu, þar sem auðvitað vilja kjósendur almennt að þingmenn hafi afstöðu til mála og vinni vinnuna sína - og þær tölur sem nefndar eru hljóma frekar sláandi þegar þær eru teknar úr samhengi.

Það hefur kannski ekki verið bent nógu vel á það hingað til, hversu gróflega þessar tölur eru í raun teknar úr samhengi.

Samhengið er það að þingmenn greiða þúsundir atkvæða á hverju kjörtímabili, langfæstar þeirra snúast um stór eða umdeild mál og það er hefð fyrir því að stjórnarandstaða sitji hjá frekar en greiði atkvæði gegn viðameiri málunum.

Til að skýra betur hversu gróflega villandi þessar ásakanir eru, ákvað ég að fara á vefinn thingmenn.is og skoða hversu oft þrír af helstu forystumönnum Sjálfstæðisflokksins sátu hjá í atkvæðagreiðslum á þingi - Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Birgir Ármannsson - síðast þegar þeir voru í stjórnarandstöðu.

Niðurstöðurnar eru þær að á kjörtímabilinu 2009-2013 sat Bjarni hjá 893 sinnum, Guðlaugur Þór 991 sinni og Birgir 1114 sinnum: Samtals 2998 hjásetur þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins á einu kjörtímabili.

Ef mér leyfist að námunda þá upp um heila tvo, þá er niðurstaðan semsagt sú að þeir sátu þrjú þúsund sinnum hjá á einu kjörtímabili - sama tala og var slegið upp sem hneykslismáli, í umræðu um fjölda hjásetna jafnmargra þingmanna Pírata á einu kjörtímabili í stjórnarandstöðu (2013-2016).

Það er vissulega rétt að ónámundaðar voru hjásetur Pírata fleiri (3.471 vs. 2998) og kjörtímabilið var styttra, sérstaklega í tilviki Jóns Þórs. Enda hafa Píratar alltaf útskýrt að við leggjum mikla áherslu á það að taka upplýsta afstöðu til mála, fylgja ekki flokksgröfum og leiðtogum í atkvæðagreiðslum og að hjáseta getur verið mjög málefnaleg afstaða. 

Sérstaklega á þetta við ef þingmenn hafa ekki nægar upplýsingar til að taka afstöðu til mála sem þröngvað er í gegn með hraði, t.d. ef þeir hafa 3 fulltrúa til að manna 9 þingnefndir sem fjalla gjarnan um stór mál á sama tíma. Í ljósi þess að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins var 16 manna hópur tímabilið 2009-2013 og forysta þeirra hefur þvert á móti marglýst skömm sinni á hjásetum, þá er í rauninni alveg lygilegt að munurinn sé ekki meiri.

Enda hefur gagnrýnin ekki snúið að því að 3400 hjásetur sé meira en 3000 hjásetur, o nei. Nú leyfi ég mér að vitna í áðurnefnda grein af vefnum andriki.is:

"Auðvitað kemur það fyrir að þingmenn eru ósáttir við eitt atriði í lagafrumvarpi og vilja ekki styðja það og heldur ekki greiða atkvæði gegn frumvarpinu í heild. En hjáseta í mörg hundruð eða yfir þúsund málum er af allt öðrum toga.

Hinar 1.112 hjásetur Helga Hrafns þýða að nokkrum sinnum á hverjum þingfundardegi vissi hann einfaldlega ekki hvort hann væri með eða á móti málum sem voru til umfjöllunar í þinginu. Hann hafði bara ekki hugmynd um hvað var í gangi."

Þessi orð verða óneitanlega frekar fyndin, þegar í ljós kemur að dýrlegir leiðtogar andríkismanna hafa sjálfir setið hjá í mörg hundruð og yfir þúsund málum á þingi á einu kjörtímabili. Og að Birgir Ármannsson sat 1.114 sinnum hjá á því kjörtímabili, oftar en Helgi Hrafn þegar hann var í stjórnarandstöðu, sem Andríki sagði vera til marks um að "Hann hafði bara ekki hugmynd um hvað var í gangi."

Spyr ég því hina nafnlausu hermenn hjáseturéttlætis á andriki.is til baka: Hverjir þurfa nú helst að skammast sín fyrir vinnubrögðin?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu