Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Enn um ábyrgðarleysi

Enn um ábyrgðarleysi

Það hefur verið frekar ömurlegt að lesa málflutning manna eins og Geirs H. Haarde, Ögmundar Jónassonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um ósigur þess fyrstnefnda fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE). Um að hann hafi sko í rauninni unnið og þetta hafi augljóslega verið pólitísk réttarhöld á flokkspólitískum forsendum og svo framvegis...

Staðreyndin er sú að Geir var dæmdur fyrir brot gegn stjórnarskrá. Ákvæði um ábyrgð ráðherra í stjórnarskrá og lögum um ráðherraábyrgð eru ekki séríslensk og þau eru ekki að ástæðulausu. Ef stjórnarskráin okkar væri ekki svona úrelt - nánast algjörlega úr samhengi við stjórnkerfið sem við búum við - þá hefði hún kannski getað tryggt þessa ábyrgð enn betur.

Slík ákvæði um hlutverk, skyldur og ábyrgð ráðherra eru nauðsynleg vegna þess að ráðherradómur er ekki bara pólitísk staða, heldur æðsta embætti stjórnsýslu landsins. Því embætti fylgir mikil ábyrgð - ekki bara pólitísk, heldur lagaleg - og þannig á það að vera. Völdum eiga að fylgja ábyrgð. Sannarlega þarf að endurskoða nákvæmt fyrirkomulag og ferli Landsdóms, eins og gert er með nýju stjórnarskránni, en þetta var ferlið sem var í boði og það bar að nota.

Sakfelling landsdóms og nýjasti ósigur Geirs fyrir MDE staðfestir að þetta voru ekki pólitísk réttarhöld, heldur braut hann gegn lagalegri ábyrgð sinni sem ráðherra. Sú ábyrgð var fyrir hendi þegar hann tók við embætti og hefur ekkert með pólitískar skoðanir hans eða stefnu að gera.

Það er ekki í lagi að valdhafar brjóti lög eða stjórnarskrá, jafnvel þó svo ákveðinn minnihluti kjósenda sé til í að kvitta upp á það. 

Þannig virka réttarríki ekki.

Að þetta vanheilaga bandalag valdapólitíkusa af ýmsum endum litrófsins skuli telja það svona mikla fásinnu að ráðherrar geti þurft að sæta lagalegri ábyrgð fyrir embættisverk sín, opinberar það fullkomlega ábyrgðarlausa viðhorf sem stjórnmálamenn gamla Íslands hafa til meðferðar ríkisvalds, sem við verðum að vaxa upp úr.

Von­andi get­ur náðst víðtæk samstaða á Íslandi um þetta grund­vall­ar­atriði.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu