Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Gamla símaskráin

Gamla símaskráin

Það er alveg svolítið skemmtilegt að Brynjar Níelsson skuli líkja nýju stjórnarskránni við nýja símaskrá – afstaða hans er jú svolítið eins og að allir ættu áfram að nota símaskrá frá síðustu öld af því hún hafi dugað honum sjálfum ágætlega hingað til og um hana ríkt svo góð sátt á sínum tíma.

Krúttleg sem sú týpa getur verið, þá hefði Brynjar sjálfsagt gott af því að líta öðru hverju upp úr skruddunni sinni ástkæru og horfast í augu við nútímann. Þá gætu föðurlegar umvandanir hans til ungs fólks sem talar fyrir lýðræði og stjórnmálaumbótum jafnvel haft eitthvað gildi.

En ef við flettum aðeins upp í 21. öldinni þá uppgötvum við meðal annars eftirfarandi:

Stjórnlagaráði voru fjórir lögfræðingar og þrír stjórnmálafræðingar – fleiri lögfræðingar voru þeim að sjálfsögðu til ráðgjafar í ferlinu.

*Megingagnrýni Feneyjanefndarinnar á efni nýju stjórnarskrárinnar sneri að því að kerfi með forseta, þing, ríkisstjórn og möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu gæti verið flókið. Eina stóra breytingin í þeim efnum frá núverandi stjórnskipan er í raun sú síðastnefnda og hana segist meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn styðja.

*Þjóðaratkvæðagreiðslur sem ekki eru lagalega bindandi eru samt þjóðaratkvæðagreiðslur. Ef Brynjar trúir því ekki getur hann horft á hringavitlausu undanfarinna fjögurra ára í breskum stjórnmálum, vegna hinnar ráðgefandi Brexit þjóðaratkvæðagreiðslu.

*Þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslum – bæði sögulega á Íslandi sem og erlendis – er að jafnaði talsvert minni en í þingkosningum. Skoðanakönnun framkvæmd á sama tíma og þjóðaratkvæðagreiðslan gaf hins vegar nákvæmlega sömu niðurstöður – 66% aðspurða vildu leggja tillögurnar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Endurteknar skoðanakannanir síðan þá hafa sömuleiðis alltaf sýnt að meirihluti Íslendinga telur mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá – síðast 52% aðspurðra – borið saman við 26% sem töldu það lítilvægt - í október síðastliðnum. Rökræðukönnun á vegum stjórnvalda sýndi sömuleiðis að meirihluti svarenda studdi hérumbil allar helstu breytingar sem Stjórnlagaráð lagði til og að sá stuðningur jókst við upplýsta umræðu.

Það er því fráleitt að líta svo á að tillögur Stjórnlagaráðs njóti ekki stuðnings þjóðarinnar.

*Deila má um eðlilegasta orðalagið í umræðum um kvótakerfið en engu að síður er auðlindarenta ‚hagnaður‘ af nýtingu auðlindar, þó svo það sé annað hugtak en bókfærður hagnaður fyrirtækja eftir kostnað. Stjórnvöld geta vissulega ákveðið veiðigjald en það sem nýja stjórnarskráin gerir er að taka af vafa um að kvóti sé nýtingarréttur en ekki endanlegur eignaréttur og gera kröfu um „fullt gjald“ (eða „eðlilegt gjald“) fyrir afnot af þeirri auðlind. Án þess ákvæðis hafa tímabundin stjórnvöld svigrúm til þess að beinlínis fella niður veiðigjöld – svo ekki sé talað um að halda þeim alltof lágum.

Aðra – öllu uppbyggilegri – gagnrýni á málflutning stjórnarskrársinna birti Jóhann Óli Eiðsson síðan nýverið, með ákalli um að staðreyndir ráði för í umræðunni. Það er hægt að taka undir það ákall og ábendingar um að sumar fullyrðingarnar sem hafa verið settar fram til stuðnings nýrri stjórnarskrá hafa gengið heldur langt, en það er líka mikilvægt að halda ofangreindum sem og neðangreindum staðreyndum til haga:

*Eftir að Stjórnlagaráð skilaði tillögu sinni fóru stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd (SEN) Alþingis og lögfræðingahópur á vegum hennar vandlega yfir tillöguna og lagfærðu að verulegu leyti orðalag það sem Lögmannafélag Íslands og Feneyjanefndin gerðu athugasemdir við að væri of loðið eða óskýrt. Þau frumvörp sem þingflokkar Pírata og Samfylkingar hafa lagt fram um nýja stjórnarskrá undanfarin ár hafa byggt á allri þeirri vinnu og samþykkt stefna Pírata er að vinna miðað við þá tillögu frekar en upphaflega tillögu Stjórnlagaráðs – í samræmi við fyrirmæli þjóðarinnar fyrir rétt tæpum átta árum, um að Alþingi skyldi leggja fram frumvarp á grundvelli þeirrar tillögu. Því er gagnrýni LMFÍ og Feneyjanefndarinnar á óljóst orðalag bókstaflega úrelt, vegna þess að það vísar í eldri útgáfu frumvarpsins og inniheldur ábendingar sem síðan hefur verið brugðist skipulega við.

*Þó er auðvitað sjálfsagt að benda á ef eitthvað athugavert eða loðið stendur enn eftir. Í því samhengi spyr Jóhann út í ákvæði um mannlega reisn: „Hvaða skyldur skapar ákvæðið ríkinu? Hvaða réttindi býr það borgurunum? Einhver? Engin?“. Þarna svarar Jóhann sjálfum sér aðeins of fljótt, vegna þess að slík ákvæði (e. human dignity) eru mjög algeng í stjórnarskrám og um þýðingu þeirra hafa sérfræðingar einmitt mikið skrifað.

*Um 80% af texta núgildandi stjórnarskrár eru vissulega í nýju stjórnarskránni þar sem hún byggir á grunni þess stjórnarfars sem við þekkjum en þar hefur ýmislegt mikilvægt verið uppfært og skýrt – og fjölmörgum mjög mikilvægum ákvæðum bætt við. Það felst engin þversögn í því að telja hvoru tveggja jákvætt. Aftur hefur verið brugðist rækilega við almennum vangaveltum um hugsanlega réttaróvissu í lagfæringum lögfræðingahóps og meðferð Alþingis.

Því ber samt að fagna að yngri efasemdarmenn skuli amk. vísa í rétta útgáfu frumvarpsins í gagnrýni sinni og taka eitthvað mið af því sem gerst hefur undanfarin átta ár, því þessi umræða þarfnast þess svo sannarlega að komast aðeins upp úr margtættu gulu síðunum sem Brynjar og kollegar hans vilja halda henni í.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu