Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Óhugnanlegt sjónarspil í Cleveland

Nú er landsfundi Repúblikana lokið og Donald Trump orðinn opinberlega fulltrúi flokksins. Ýmislegt stendur upp úr, t.d. ræða Ted Cruz mótframbjóðanda hans sem fór upp í pontu, hélt ræðu um frelsið og íhaldsöm gildi, en lýsti ekki yfir stuðningi við frambjóðanda flokksins. Hann var púaður niður af flokksmeðlimum sínum.

Þetta var dramatískt sjóv. Móðir hermanns sem lést við árás á sendiráð Bandaríkjanna í Líbýu steig á svið og ásakaði Hillary Clinton um að bera ábyrgð á morðinu. Síðan kyrjaði landsfundurinn „guilty, guilty“ og „lock her up“ þegar Chris Christie fylkisstjóri New Jersey hélt einhvers konar gerviréttarhöld yfir frambjóðanda Demókrata. Það var frekar óhugnanlegt sjónarspil. Orðræðan hjá bandaríska hægrinu er að nálgast einhvern suðupunkt, þar sem ofbeldi er dýrkað og dáð. Það er ekki langt síðan gerð var tilraun til að myrða þingkonuna Gabrielle Giffords fyrir að tala fyrir hertari byssulöggjöf, og miðað við fortíð Bandaríkjana er óhugnanlegt að heyra kjörna fulltrúa Repúblikana ásaka mótframbjóðanda um landráð.

Einn af ráðgjöfum Trump, Al Baldasaro sagði í viðtali á landsfundinum að Hillary ætti að stilla upp við vegg og skjóta í hausinn. Í landi þar sem forsetar hafa verið myrtir, Lincoln, Garfield, McKinley, Kennedy, svo ekki sé minnst á frambjóðendur eins og Robert Kennedy, eða leiðtoga, Martin Luther King, þá er slíkt hjal ekki bara ógeðfellt. Það er stórhættulegt.

Kjörnir fulltrúar og frambjóðendur verða að tala hreint út og skýrt, en einnig varlega. Þeir setja tóninn í samfélaginu. (Þess vegna vona ég t.d. að Píratar forðist að setja á lista fólk sem tjáir sig óvarlega, ekki bara af því það yrði notað gegn flokkinum í kosningabaráttu, heldur líka af því það er ekki sú tegund orðræðu sem maður vill gefa hátalara).

En hvað varðar Donald Trump og þessa félaga hans … þessi landsfundur sannfærði mig um að hann mætti undir engum kringumstæðum vinna. Ef Brexit veitti einhverjum rasistum hugrekki til að hafa í hótunum og jafnvel beita ofbeldi á götum Bretlands, ímyndið ykkur þá hvernig sigur Trumps í kosningum yrði túlkaður. Mörgum myndi finnast þeir skyndilega hafa fengið blessun samfélagsins fyrir sínum ofbeldisfantasíum. (Bara framboð Trumps hefur haft hræðilegar afleiðingar, sjá t.d. hér þegar stuðningsmenn hans kveiktu í útigangsmanni og hann afsakaði það með orðunum: „sumir stuðningsmanna minna eru ástríðufullir.“)

Í heild sinni spilaði landsfundur Repúblikana á einfaldar tilfinningar, ótta, óöryggi, reiði og hatur. Fá stefnumál voru kynnt og í öryggismálum virðist lausnin ávallt vera að sprengja meira. Þarna endurómaði meira af því sama, yfirheyra minnihlutahópa, skrásetja þá, reka þá úr landi og sprengja fólk í fjarlægum löndum í tætlur, þar til eyðimerkursandurinn glóir grænn og geislavirkur.

 

Ákaflega sorglegt, en kannski rökrétt afleiðing Bush-áranna?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni