Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Vorum við Rick-rolluð af Trump?

Það er ekkert óvanalegt við að makar frambjóðenda haldi ræðu á landsfundum stjórnmálaflokka í Bandaríkjunum. Á landsfundi Demókrata verður viðsnúningur því þá verður fyrrum forsetafrú í framboði og fyrrum forseti í maka-hlutverkinu, en hjá Repúblikönum í gær var það með hefðbundnara sniði þegar Melanie Trump steig upp í pontu.

Hún talaði um góðmennsku, styrkleika og frábæra persónu eiginmanns síns, Donald Trump. Og síðan smá fagurgali um hvernig menn geti náð langt með því að vinna hörðum höndum, eins og eiginmaður hennar átti víst að hafa gert. 

Nema einmitt þegar talið barst að gildismati Trump og hvernig hann hafði yfirstigið mikla erfiðleika þá gerðist svolítið óvænt. Melanie Trump fór nánast orðrétt með tvær málsgreinar úr ræðu sem Michelle Obama núverandi forsetafrú Bandaríkjanna fór með árið 2008. Ritstuldur segja sumir, en það verður samt að segjast eins og er, flestar ræðurnar eru keimlíkar og innihalda sömu frasa og sömu orð hvort sem er. En vafalaust héldu Melanie og ræðuhöfundar hennar að þau gætu komist upp með að afrita orð frá ræðuhöfundi sem hefur unnið fyrir bæði Obama og Clinton.

Annað sem fólk klóraði sér í kollinum yfir var tilvitnun hennar í Rick Astley, mér fannst það lúmskt sniðugt þótt það sé auðvitað bjánalegt líka eins og allt sem viðkemur Trump. Þökk sé Melanie vitum við þó að:

„He is never gonna give you up, he is never gonna let you down,“ (sjá hér, ekki Rick-roll, ég lofa), og það er gott að vita.

Minnir mig svolítið á þegar forsetaframbjóðandinn Herman Cain vitnaði í Pokemon í ræðu árið 2012:

Life can be a challenge. Life can seem impossible. It´s never easy when there´s so much on the line. But you and I can make a difference. There´s a mission for you and me ... just look inside and you will find what you can do. 

Þeir leyna á sig í poppkúltúr tilvísunum, Repúblikanar ... 

En síðar brást Herman Cain reiður við þegar hann var spurður út í meintan áhuga sinn á Pokemon. Sagðist ekki vita hvaðan textinn hefði komið, bara fundist hann viðeigandi.

Þeir kunna kannski ekki á google, Repúblikanar ...

Annars er fátt að frétta af landsfundinum nema að hann sé frekar tómlegur, furðutómlegur, og að Mitt Romney frambjóðandi þeirra árið 2012 sé í hótelherbergi í nágrenninu að bíða og vonast eftir valdaránstilraun.

Vonum að það fari betur en í Tyrklandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni