Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Klofna repúblikanar?

Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum (svo við ruglum honum ekki óvart saman við hina nýstofnuðu Repúblikana í Frakklandi ;) ), gæti klofnað. Slíkt hefur gerst áður og mun gerast fyrr eða síðar ef eitthvað er að marka söguna. En í ár virðist það einstaklega mögulegt.

Ástæðan er Donald Trump, hin rökrétta og kannski óumflýjanlega afleiðing Suður-strategíu Nixons, hin eini sanni arftaki George Wallace. En við komum að því síðar. Ráðstefnan í Cleveland er að fara að hefjast og það vantar marga stóra leikendur úr Repúblikana-flokkinum:

1. Bush fjölskylduna vantar. Það er kannski ekki skrítið enda hefur ekki verið hlýtt á milli þeirra og Trump. Donald Trump hefur réttilega gagnrýnt Íraksstríðið og það var kostulegt að fylgjast með Jeb Bush reyna að svara fyrir sig. Hann gat ekki annað en játað að stríðið væri tómt klúður en um leið og hann viðurkenndi hið augljósa hló Trump að honum að sakaði hann um að svíkja bróður sinn.

En Bush fjölskyldan mætir ekki til Cleveland. Einu tveir núlifandi fyrrum forsetar Repúblikana mæta ekki á landsfund. 

2. Síðustu tvo forsetaframbjóðendur Repúblikana vantar. Trump var að vísu búinn að móðga John McCain þegar hann sagði að hann væri engin hetja því sannar hetjur létu ekki góma sig. (Já, hann kenndi John McCain um að hafa verið pyntaður í fangelsi í N-Víetnam.) Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður Suður Karólínu mætir heldur ekki sem kemur lítið á óvart því hann er nánasti bandamaður McCain og einn harðasti gagnrýnandi Trumps.

Það kemur lítið á óvart að Mitt Romney hafi ekki mætt. Hann er búinn að túra um landið haldandi ræður gegn Trump og fjölmiðlamenn eiga auðvelt með að finna tilvitnanir í hann gegn Trump. Hér er t.d. ein:

„Trump er loddari og orð hans eru jafn lítils virði og gráða í Trump-University.“ (CNN)

3. Þingmenn Repúblikana sem vantar:
Jeff Flake frá Arizona mætir ekki. (Þar með vantar báða öldungardeildarþingmenn Arizona, því John McCain er hinn. Það er mjög athyglisvert í ljósi þess að stóri veggurinn sem Donald Trump hyggst byggja við landamæri Mexíkó myndi skapa mörg störf í þeirra fylki og mun hafa talsverð áhrif á fylkið). 
Öldungardeildarþingkonan Kelly Ayotte frá New Hampshire mætir ekki. Kemur á óvart því Trump vann New Hampshire býsna vel.

Richard Burr, öldungardeildarþingmaður frá N-Karólínu mætir heldur ekki. Ron Johnson frá Wisconsin heldur ekki. Dean Heller frá Nevada vantar líka. 
Marco Rubio sem barðist gegn Trump í prófkjörinu segist einnig of upptekin af framboði sínu í Flórída til að mæta. Hann er öldungadeildarþingmaður þar, og Flórída er lykilfylki í baráttu Repúblikana og Demókrata um völdin (Munið Bush-Gore).

4. Fylkisstjórar

Fylkisstjórann John Kasich frá Ohio vantar líka. Það er líka lykilríki í valdabaráttunni og Kasich var síðasti mótframbjóðandi Trump til að draga sig úr framboði. Fylkisstjórann í New Mexico Susanna Martinez vantar, sömuleiðis Nikki Haley frá Suður Karólínu. Mest kemur þó á óvart að fyrrum fylkisstjóri Alaska og varaforsetaframbjóðandinn Sarah Palin kemur ekki, en hún hefur verið frekar höll undir Trump ef eitthvað er. (Að sögn Trump er það þó af því Alaska er svo langt í burtu).

 

Menn myndu klóra sér á hausnum ef Davíð Oddsson, Þorsteinn Pálsson, Geir Haarde og fimm núverandi þingmenn myndi vanta á landsfund Sjálfstæðisflokksins. Menn myndu gera ráð fyrir að einhverjir væru gengnir í Viðreisn. (Og ég geri reyndar ráð fyrir því að einhverjar fleiri kanónur muni bætast við í Viðreisn í þessum mánuði, án þess að það komi þessum pistli við).

Hvenær var svipað ástand uppi í Bandarískum stjórnmálum?

Mér detta þrjú tilvik í hug.

Theodore Roosevelt 1912, George Wallace 1968 og Ross Perot 1992.

Og ég spái því núna að Gary Johnson fyrrum fylkisstjóri New Mexico nái að rjúfa 15% múrinn og komast í sjónvarpskappræðurnar með Hillary og Donald.

En hvað er svipað:

Roosevelt var aðalhetja róttæklinga meðal Repúblikana árið 1900. Hann vildi brjóta upp bankana (svipað og Sanders) og lét flokksforystuna heyra það. Hann varð þó ekki forsetaefni flokksins heldur William McKinley. McKinley gerði hann varaforsetaefni sitt til að friðþægja helstu vinstrisinna innan flokksins og vann síðan kosningarnar. Sennilega hefði Roosevelt glatað vinsældum sínum og gleymst ef McKinley hefði lifað lengur. Ekkert hefði verið gert í bönkunum á hans kjörtímabili og William Jenning Bryans myndi vinna næstu kosningar með popúlískum Demókrötum ...

En sagan fór ekki þannig. Anarkisti skaut McKinley stuttu eftir kjör hans og Roosevelt varð forseti. Hann fékk þá að gera það sem hann hafði talað fyrir, stofna þjóðgarða eins og Yellowstone, brjóta upp Morgan Stanley og Rockefeller veldið. Hann hætti sem forseti 1908 og studdi Wiliam Howard Taft.

Það var svolítið sem hann sá síðar eftir. Taft var mun íhaldssamari og hugnaðist stóru bönkunum fullmikið að mati Roosevelts. Svo árið 1912 stofnaði hann nýjan flokk og klauf Repúblikana. Þar með endaði „the gilded age“, vinstrisinnar yfirgáfu Repúblikana sem fóru til hægri, Demókratar tóku völdin tímabundið og áttu síðar eftir að verða stóri vinstriflokkurinn (the progressive era var enn ekki lokið).

George Wallace er allt öðruvísi týpa en Roosevelt. Þessi fyrrum fylkisstjóri Alabama var popúlisti og vinstrisinni (hlynntur öflugu velferðarkerfi og verkalýðsfélögum) en mikill rasisti. Þegar Demókratar gerðust hlynntur jöfnum réttindum fyrir svarta borgara líka fór Wallace í framboð gegn forsetaefni síns eigin flokks. Honum gekk vel í suðurríkjunum þar sem hann talaði ekki bara gegn því að svartir fengju að vera í sömu skólum og hvítir og vinna við hlið þeirra á vinnustöðum eða sitja við hlið þeirra börum, heldur líka gegn „elítunni.“

Margt af því sem Wallace talaði fyrir endurómar enn í bandarískri pólitík og víðar. Vantraust hans á sérfræðingum og menntafólki, vantraust hans á ríkinu og embættismönnum, gerði hann vinsælan og fylgismenn Wallace skiluðu sér á endanum inn í Repúblikanaflokkinn þar sem Nixon tók vel á móti þeim.

Wallace og Trump minna um margt á hvorn annan. En í raun talar annar hver stjórnmálamaður í dag um hina skuggalegu „elítu“ og hvað fólkið sé þreytt á sérfræðingum.

Ef popúlismi Wallace er einn af hugmyndafræðilegum forfeðrum Trumpisma, þá má segja að Ross Perot sé það líka. Perot bauð sig fram gegn George Bush eldri og Bill Clinton 1992. Clinton vann og varð forseti, en Perot gekk býsna vel framan af án þess að hafa flokksmaskínu að baki sér. (Í staðinn hafði hann bara glás af milljörðum).

Auðkýfingurinn frá Texas fékk 19% í kosningunum og hefði getað fengið mun meira ef hann hefði ekki dregið framboð sitt til baka um sumarið til þess eins að skipta um skoðun þegar nær dróg hausti. Þessi 19% eru ótrúleg miðað við að auðkýfingurinn sneri aftur í október, sama mánuð og kosningarnar voru haldnar og hafði því ekki haldið gangandi kosningabaráttu eins og hinir frambjóðendurnir.

Perot líkt og Trump talaði gegn alþjóðlegum viðskiptasamningum. Nafta og TPP eru reyndar einn helsti veikleiki Hillary, því samdráttur iðnaðarstarfa í Bandaríkjunum hefur valdið mikilli reiði meðal verkamanna sem áður voru hefðbundnir kjósendur demókrata en kjósa nú yfirleitt Repúblikana (eða bara alls ekki). Það er mjög lýsandi að Pennsylvanía, sem áður var tryggt bakland Demókrata gæti endað á því að styðja Trump.

Ef Ross Perot hefði verið aðeins minna geggjaður hefði hann vel getað unnið. Líkt og Trump naut hann mikils stuðnings meðal ómenntaðra, hvítra karlmanna sem voru reiðir út í „elítu“ en studdu samt milljarðamæring. (Helstu rökin voru þau að milljarðamæringurinn kynni að skapa störf, og það er lykillinn að vinsældum beggja: „störf og skorturinn á þeim).

 

Verður bandaríski tvíflokkurinn að fjórflokki?

 

Ef Repúblikanar klofna þá verður það ekki týpa eins og Roosevelt, Perot eða Wallace. Trump er nú þegar and-elítu frambjóðandinn líkt og þeir voru.

Í þetta sinn verður það „elítan“, þ.e.a.s. hálaunaði sérfræðingurinn sem vill lægri skatta en líka aukið frjálslyndi. Síðastliðin ár og áratugi hefur verið erfitt fyrir frjálshyggjusinnann sem vill lægri skatta að réttlæta fyrir sér kosningabandalag sem gengur út á að höfða til ýmist strangtrúaðra eða rasista, og boða stefnu sem gengur út á kristilega löggjöf. 

Gary Johnson og Libertarian flokkurinn bjóða þeim ákveðna leið út. Þessi jaðarflokkur boðar lágmarksríki en er raunverulega frjálslyndur, ekki andvígur innflytjendum, ekki andvígur samkynhneigð og ekki hlynntur skerðingu borgararéttinda.

Mögulega mun græningjum, (Green Party) einnig ganga ágætlega. Ég tel þó ekki að þau muni rjúfa 10% mörkin neinstaðar nema mögulega í öruggum demókratafylkjum eins og Washington, Oregon, eða Kalíforníu. Hver veit, þessar kosningar gætu samt vel verið kosningarnar þar sem Bandaríska flokkakerfið fer tímabundið úr tvíflokkakerfi yfir í fjórflokkinn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni