Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Spörum pening, greiðum námslán fyrirfram

Á kosningasvæði Pírata má finna ýmsar stefnur sem væri til mikils að koma í verk.

Ein þeirra er sú sem snýst um fjárhagslegan stuðning við námsmenn. Nám eru borgararéttindi og Píratar eru borgararéttindaflokkur. Frjálst samfélag byggist upp á því að fólk hafi tækifæri til að fara í nám. (Um þetta er varla deilt, en þess virði að nefna).

Píratar telja að við ættum að líta til Norðurlandanna sem fyrirmynda í stuðningi þeirra við námsmenn. En sérstaklega líst mér þó vel á eina klausuna í stefnu þeirra hvað varðar útgreiðslu námslána eða námsstyrkja:

„Framfærslan skal greidd fyrirfram og mánaðarlega.“

Þau sem komu að því að skrifa þessa stefnu eiga lof skilið. Því eitt það ópraktískasta við núverandi fyrirkomulag námslána á Íslandi er að námsmenn þurfa að taka lán hjá viðskiptabanka og síðan endurgreiða þeim að önn lokinni. Vaxtagreiðslurnar eru í sumum tilvikum upp á heilan mánuð í framfærslu.

Og það er sóun. Heimskuleg sóun, því markmið námslána er ekki að skapa fleiri viðskiptavini hjá Íslandsbanka heldur að gera fólki kleift að sinna námi án þess að hafa fjárhagslegar áhyggjur á meðan.

Tillögur núverandi menntamálaráðherra í þessum málum eru ekki til bóta. Heilt yfir litið auka þau vaxtabyrði námsmanna og takmarka möguleika fólks til að fara í nám eigi þau fjölskyldu til að sjá fyrir. (Svo ekki sé minnst á að útiloka fólk frá að fara í Doktorsnám . . . á tíma sem Ísland og heimurinn þarf fleira hámenntað fólk).

Ég set hér link á stefnuna sem um ræðir og hvet fólk til að kynna sér hvernig það geti haft áhrif.

Fjárhagslegur stuðningur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni