Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Það sem ég næ ekki við íslenzka hægrið

Það sem ég næ ekki við íslenzka hægrið

Það sem ég næ ekki við íslenzka hægrið.

Nú er ég ekki hægrisinnaður. En ég get alveg skilið lógíkina að baki barnalegri heimsmynd ný-frjálshyggjunnar (sem var sköpuð af lobbýistum eftirstríðsáranna í samstarfi við austurríska sérvitringa.) Ég átta mig líka alveg á því hvaða frumstæði ótti drífur áfram íhaldssemi. Við finnum stundum fyrir honum en látum fæst stjórnast af honum. Suma hluti á ég þó erfitt að átta mig á hvaðan koma og hvers vegna íslenzkir hægrimenn elska þá svona mikið.

 

1. Ísrael.
Þegar Ísrael fremur stríðsglæpi með því að nota sprengjur á bannlista sameinuðu þjóðanna eða toppa svívirðuna sem er sextíu ára hernám Palestínu með einhverju ógeði, þá fyllast u.þ.b. 90% Íslendinga vorkunn gagnvart palesínumönnum þótt þeir kannski styðji ekki öll hryðjuverk framin í nafni þeirra.

En af einhverjum ástæðum eru alltaf einhverjir sjálfstæðismenn sem finna sig knúna til að verja Ísrael. (Sami impúls og kannski fékk Margréti Thatcher til að kalla Nelson Mandela hryðjuverkamann). Stundum eru þetta ofsatrúaðir blaðamenn af viðskiptablaðinu, stundum bloggarar hjá mogganum, en alltaf er einhver sem nennir að verja ódæðisverkin sama hvað. Hvorug hliðin er sérlega hægrisinnuð eða sósíalísk (ef eitthvað er þá sprettur hugsjónin að baki Ísrael frekar upp úr sósíalisma en Palestína). Því er erfitt að skilja nákvæmlega hvað drífur áfram stuðning við Ísrael. Tengslin við Bandaríkin? Er þetta trúarlegt kannski eins og hjá apokalýpska bandaríska hægrinu? Eða er þetta hefð frá tímum Thor Thors í sameinuðu þjóðunum? Ég næ því ekki.

2. Þjóðkirkjan.
Hvers vegna í ósköpunum hægrimenn slá skjaldborg í kringum stærsta ríkisbatterý Íslandssögunnar er mér ráðgáta. Stundum kemur einhver þvæla um afar einhliða kaupsamning á kirkjujörðum (sem margar voru fengnar með vafasömum hætti til að byrja með), en yfirleitt fáar raunverulegar röksemdafærslur. Þjóðkirkjan sjálf heldur því fram að hún sé í einhverju limbói, hún er gjörsamlega aðskilin frá ríkinu og með algjört samvizkufrelsi nema í lok mánaðar þegar prestar þurfa launatékkann. Þá snýr kirkjan til baka og kvartar yfir skertum fjárlögum á þessari grunnsamfélagsþjónustu. (Restin af mánuðinum rukka þeir samt fyrir jarðarfarir, giftingar og skírnir líkt og hver annar Mammonsþjónn sem ekki dugar helmingi hærri grunnlaun en læknar fá). Ég skil af hverju íhaldzmenn ættu að styðja kirkjuna en það er erfiðara að átta sig á því hvað frjálshyggjumenn fá úr því. Líkast til eru þeir frekar pirraðir á miklum stuðningi hægrisins við þjóðkirkjuna, en það hefur alla vega enn ekki orðið að neinu úrslita-atriði fyrir þá.

3. Húmor Davíðs Oddssonar.
Ég fæddist á Íslandi árið 1984 þegar Dabbi var borgarstjóri. Svo varð hann forsætisráðherra. Einhvern tímann um það leiti sem ég var tíu ára heyrði ég að hann væri mikill húmoristi. Í þá daga átti ég erfitt með greina muninn á honum og Erni Árnasyni, sem mér fannst nokkuð fyndinn, en með auknum þroska tók ég að greina spaugstofu-karakterinn frá ráðherranum mér til mikilla vonbrigða. Enn þann dag í dag er ég að bíða eftir því að Davíð segi eitthvað fyndið enda halda sjálfstæðismenn því enn þá fram að hann sé mikill húmoristi. Alltaf samt þegar ég sé hann þá kemur það mér á óvart hvað hann virðist lítill og bitur, maðurinn sem eitt sinn var alvaldur yfir Íslandi.

Einu sinni þegar ég vann í 10/11 á Hjarðarhaga afgreiddi ég hann (Melabúðin var lokuð um þetta leyti kvölds). Gamli karlinn kom inn og ráfaði um búðina í fimm mínútur, mér og drengnum sem var á sömu vakt til undrunar. Búðin var yfirleitt tóm og þeir sem komu inn og gripu gosdrykk eða stoðmjólk náðu yfirleitt í það sem þeim vantaði á hálfri mínútu. Sá gamli ráfaði um frekar ráðvilltur og ég gekk að honum og velti fyrir mér hvort ég ætti að segja eitthvað við manninn sem rústaði Íslandi. Ári áður hafði ég barið á dyr seðlabankans og krafist afsagnar hans. En hann afvopnaði mig algjörlega þegar hann horfði á mig stórum og skelfdum augum gamalmennis sem virðist ekki almennilega átta sig á hvar það sé statt og ávarpaði: „Ungi maður, gætir þú bent mér á hvar brauðið er?“

Síðan þá hef ég ekki getað verið reiður út í manninn sem gaf burtu gjaldeyrisvaraforða landsins án þess að taka veð hjá Kaupþingi, klúðraði einkavæðingu bankanna, studdi Íraksstríðið, drap lífríki Lagarfljóts og er núna að eitra þjóðfélagsumræðu Íslands með ritstjórnargreinum sem hann þorir ekki einu sinni að skrifa undir nafni. Því líf hans er án vafa fullt af eftirsjá og biturleika (þeir partar sem hann man eftir og ég er ekki sannfærður um að hann muni neitt sérstaklega skýrt, því brauðið í 10/11 er ekki einn af þeim hlutum sem sæmilega skýr kollur finnur ekki). Fátt hugsa ég að hann sjái meira eftir en að fara í lögfræðina og leiðast út í sjálfstæðisflokkinn.

Sumir segja að hann sé góður penni. Það hefur líka farið framhjá mér, en jafnvel versti rithöfundur eða leikari Íslands hefði átt meira fullnægjandi líf en maðurinn sem kunni ekki að hætta á toppnum.

4. Aftur Davíð Oddsson -Trigger warning (flettið yfir á 5.)
Nei ég bara næ því ekki í alvörunni. Partý hjá Berlusconi er örugglega sjúklega skemmtilegt þótt hann sé gjörspilltur og vanhæfur barnaperri. Hvernig haldið þið að partý séu heima Davíð Oddssyni? Við værum ekki einu sinni búnir að opna viskýflöskuna og strax værum við byrjuð að væla yfir óréttlæti heimsins, hvað allir væru vondir við okkur, samsærið stóra sem Jón Ásgeir væri að leiða bakvið tjöldin. Daginn eftir vaknarðu með verstu timburmenn í sögu heimsins, með óljósar minningar af því að hafa farið í sleik við Hannes Hólmstein á bak við sófa. Annað hvort það eða þú rankar við þig í sófanum með Ísland í aldanna rás í fanginu 1900-1950 á blaðsíðunni sem fjallar um Hannes Hafstein og rámar eitthvað í því að hafa sofnað með einhvern hvíslandi í eyru þín: „Davíð er Hafsteinn sinnar kynslóðar! Davíð er Hafsteinn sinnar kynslóðar,“ í eyrunum. Þú áttar þig ekki alveg á merkingu orðanna en læðist út skömmustuleg á svip. Þér líður eins og þér hafi verið nauðgað en veist að það þjónar engum tilgangi að kæra.

5.
Árni Johnsen. Hanna Birna. Illugi.
Það er stundum sagt að vinstri menn séu kettir og hægri menn hundar. Ég er hundamaður enda kann ég að meta tryggð, en upp að vissu marki. Sjálfstæðismenn halda að flokkur þeirra sé eina von Íslands, leiðarljós sem öðrum beri að fylgja og að nái aðrir flokkar völdum muni hörmungar hellast yfir þjóðina. Þess vegna botna ég ekki í því hvers vegna þeir sætti sig við að hafa myllusteina um hálsinn sem draga þá til botns í fylgiskönnunum. Dæmdur þjófur, augljós lygari, ráðherra í boði Orku ehf. Er það þetta sem þeir halda að muni hífa ykkur upp í þrjátíu prósent fylgi?
Auðvitað ætti ég ekki að kvarta en … ég bara skil ekki.

6.
Engeyjarættin.
Sjálfstæðisflokkurinn er í grunninn eitt af fjölskyldufyrirtækjum Engeyjarættarinnar og það sem meðlimum hennar vantar í viðskiptaviti bæta þeir upp pólitískum bitlingum. Það hefur reynst ættinni vel en flokkinum illa. Það hefur gert hægrið að brandara í íslenskri pólitík. Og gerir það að verkum að öll einkavæðing er tortryggð (enda virðast ríkiseignir alltaf seljast undir markaðsverði til ættingja). En eins og fyrr sagði, ég ætti auðvitað ekki að kvarta yfir því sem heldur fylginu niðri … ég bara skil ekki.

7.
Af hverju Fálki? Haförninn er miklu stærri. Hver svo sem hefur séð bílaflotann í kringum landsfundina veit að menn eru að bæta upp fyrir eitthvað.

8.
Af hverju hatar hægrið RÚV svona mikið?
Í blogginu: Það sem ég skil ekki við íslenska vinstrið, velti ég því fyrir mér hvað gerði RÚV vinstri mönnum svona ástkært. Ef eitthvað er þá ættu sjálfstæðis og framsóknarmenn að elska RÚV því fréttamenn og spyrlar leiðrétta aldrei delluna í kosningaloforðum þeirra, og flokkarnir fá mun meiri umfjöllun en fylgi þeirra gefur tilefni til. Í fréttatímum fengu Sigmundur Davíð og Bjarni Ben að halda einræður á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. En þetta er svipað heilkenni og hrjáir repúblikana í Bandaríkjunum (Fox News eða morgunblaðið+Bingamiðlarnir) eru svo froðufellandi óðir að tiltölulega hægrisinnaðir fréttamiðlar á borð við Fréttablaðið og RÚV virðast örgustu sósíalistar í samanburði.

9.
Landbúnaðarkerfið. Ok. Það eru til sjálfstæðismenn sem vilja breyta því svo þetta skrifast að miklu leyti yfir á framsókn. Það er synd að samfylking og sjálfstæðisflokkur hafi myndað stjórn svo stuttu fyrir hrun, það var í stutta stund sjéns á smávegis breytingum á þessu rán-rán-rándýra og óhagkvæma kerfi. (Sem gerir bændum enga greiða heldur festir þá í vistarbandi). Hvað erum við að spá í að leyfa MS að drepa alla nýsköpun í mjólkuriðnaði enn þá? Ég skil að það geti verið hagkvæmt að gerilsneyða mjólkina alla á sama stað, en hvers vegna leyfum við MS að búa til þessa gúmmíosta og viðbjóðslega ís? Frjálsan markað takk.

10.
Niðurgreiðsla ríkisins á orkukostnað þungaiðnaðar. Hannes Hólmsteinn kallaði Kárahnjúkavirkjun Stalínisma og biluð klukka hefur rétt fyrir sér tvisvar á dag.

11.
Tómas Guðmundsson og Einar Ben.
Allir vita að sjálfstæðismenn lesa ekki ljóð. Þess vegna verður alltaf pínulítið vandræðalegt þegar þeir vilja reisa styttur af einhverju skáldi. Skáld sem voru ekki einu sinni meðal þeirra bestu á sínum tíma.

12.
Íslenska krónan.
Já, ég veit að þetta hentar sumum sjávarútvegsfyrirtækjum að geta borgað fólki laun í verðlausri mynt en greitt sér arð í alvöru mynt. En hversu lengi getum við haldið áfram svona? Grunnvextir í evrópulöndunum eru 1% eða lægra. Húsnæðið á Íslandi er fáránlega dýrt en til að lýsa húsnæðislánum dugar ekki einu sinni orðið „fáránlegt.“ Þetta vita Bjarni Ben og Illugi Gunnars sem skrifuðu grein saman um ágæti þess að skipta um mynt stuttu fyrir hrun. En núna segja þeir ekki orð enda hræddir við fyndnasta mann Íslands, Davíð Oddsson.

13.
Ég verð að stoppa einhvers staðar. Ég er ekki einu sinni byrjaður að tala um Sigmund Davíð svo ég verð að spyrja: Hvað kom fyrir? Hvað varð um skipulagsfræðinginn viðkunnalega sem talaði um gömul hús í miðbænum, var hann alltaf svona klikkaður? Þetta verða alveg tíu punktar í viðbót ef ég á að bæta framsókn inn, en látum duga í bili. Ég er að fara að æfa dansverk sem sýnt verður í Tjarnarbíó næsta Föstudag. Ég er ekki á neinum listamannalaunum, svo hægrimenn hafa enga afsökun til að mæta ekki.

P.S.
Hvað er málið með Zetuna? Íslenzka og verzlun eru skrifuð með S-i alveg síðan 1974. Er þetta kynslóðatengt eða er þetta af því það var vinstrisinni sem breytti þessu? Af hverju nota ungir sjálfstæðismenn stundum zetu? 

Uppfært 6. júní 2018:
Jordan Peterson. Af hverju eruð þið allir með hann á heilanum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu