Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Með fullri virðingu fyrir snickers eplakökum

Með fullri virðingu fyrir snickers eplakökum

Menningargreinar.

Það má segja nokkra hluti um þær.
A. Plögg-viðtöl eru frekar leiðinleg lesning. Flestir listamenn lesa ekki einu sinni viðtöl við aðra listamenn. Þeir lesa viðtölin við sjálfa sig aftur og aftur. Þeir gerast ekki áskrifendur að menningartímaritum, kvarta bara yfir skorti á þeim.
B. Gagnrýni er þokkalega lesin. Slæm gagnrýni mjög vel lesin.
C. Ritdeilur eða átök ná stundum ágætis lesningu. Smá drama hjálpar. Ég tók sérstaklega eftir því þegar ég var að skrifa á Reykvélinni, lesningin var aldrei há nema þegar við vorum að takast á. Það er kannski þess vegna sem íþróttir eru vinsælar. (En gott að hafa í huga að það eru aldrei jafnmargir á íþróttaleikvangi þessa stundina og eru í leikhúsum.)
D. Menningargreinar almennt eru ekki mjög lesnar. Tant pis.

Samt tel ég að menningargreinar (og reyndar fréttaskýringar á atburðum erlendis og álíka greinar sem eru minna lesnar heldur en innanlands-stjórnmálaátök, slúður eða kattavídjó), séu til marks um metnað. Samfélag sem flokkar Snickers-eplaköku uppskriftir til menningarumfjöllunar eru samfélög sem hafa gefist upp á að vera alvöru samfélög. Þetta er týpan sem mætir í vinnuna í náttfötunum og er sama þótt hún sé rekin. Smá snobb er af hinu góða. Ekki of mikið. En smá sjálfsvirðing, hvernig væri það?

Þetta er auðvitað ósköp mikið væl. Uppskafningslegt væl jafnvel. En plís, ekki gefast upp. Ef Ísland væri að verða sjálfstæð þjóð núna myndi hún aldrei stofna þjóðleikhús, listasafn eða sendiráð. Ísland myndi reyndar ekki verða sjálfstæð þjóð núna. Við höfum ekki alveg metnaðinn í svoleiðis stórvirki lengur. 

Að þessu sögðu þá finnst mér bara greinin um sviðsstjórann á fiskistofu sem velti fyrir sér „fermingabróður“ ballettdansara á sviði skemmtileg. Hún fangar vissa púritaníska stemmingu í samfélaginu núna. Þetta heitir „typpi,“ segðu það bara andskotinn hafi það. Þetta er jafnþreytandi og þegar píkur eru kallaðar „lauf,“ „buddur“ eða „pjöllur.“ En greinin er sniðug. Það finnst mér mikilvægt. 

Kannski erum við of lítið land fyrir háfleygar pælingar, fagurfræðilegan debatt, eða álíka. Það þarf ekki að vera um ballett, Ísland er ekki með neina ballett-hefð, en getum við ekki að minnsta kosti þóst vera menningarlegri. Haft svona eins og eitt innskot við og við, kannski þýðingu af einhverri góðri erlendri grein sem við öll þykjumst lesa en flettum bara yfir á leiðinni að myndasögunni. Bara svo að þegar við erum öll dauð og þegar kemur að fornleifauppgreftrinum stóra þá haldi vélmennin sem grafa upp Reykjavík, Pompeii norðursins, undan þykku öskulagi Bláfjallaeldgossins árið 2204 að hér hafi verið eitthvað í líkingu við alvöru þjóð.

P.S. Endilega kíkið á Reykjavík Dansfestival. Ég nenni ekki að skrifa plögg-fréttatilkynningu, en er að sýna dansverk í Tjarnarbíó. Hér. Og hér. Þetta er voða alþjóðlegt, allt á ensku og svona, en ég hef ekki alveg metnaðinn í að þýða verkið á íslensku fyrir ykkur. What´s the point?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni