Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Það sem ég næ ekki við íslenska vinstrið

Það sem ég næ ekki við íslenska vinstrið

Það sem ég skil ekki við íslenska vinstrið.


Fólk er alltaf að berja á íslenska vinstrinu. Það er ljótt að sparka í liggjandi mann og ég vil það ekki. Ef geirfuglinn myndi mæta aftur á svæðið myndi einungis fábjáni skjóta hann, við hin myndum fagna því að eitt eintak hefði fyrir kraftaverk lifað af uppi á hálendinu. Því miður er geirfuglinn dauður og það var fábjáni úr Vestmannaeyjum sem traðkaði á seinasta dýrinu. Leyfum því vinstrinu að vera og dafna aftur. Í raun erum við flest vinstrisinnuð, Ísland er sennilega eina landið í heiminum þar sem 90% íbúa myndu teljast sósíaldemókratar en einungis 2% gangast við því að það væri skoðun þeirra.
 

Sjálfur er ég hófsamur vinstrimaður. Ef einhver græðir meira en milljarð ætti að taka afganginn af eigum hans eignarnámi því enginn hefur þörf á svona miklum pening. Hann ætti frekar að fara í rekstur á heilbrigðisþjónustu heldur en fimmta húsið með þyrlupallinum. Milljarður er mjög hófsöm upphæð. Róttæklingur myndi tala um hreinar eignir fram yfir hundrað milljónir eða jafnvel lægri upphæð.

 

Að því sögðu eru fullt af hlutum í meginstraum vinstrisins sem ég keppist við að skilja en á erfitt með. Hér er smá listi.

 

1. ÁTVR
Ég næ ekki hvað sé svona merkilegt við þessa stofnun. Í prinsippinu skil ég að óhollar vörur eins og tóbak og áfengi ættu að greiða fyrir þann skaða sem þær valda okkur með ríflegu skattaframlagi til heilbrigðiskerfisins. En þegar við beinlínis töpum á rekstri búðanna sjálfra klóra ég mér í hausnum yfir hvernig það sé hægt. Það væri næstum eins og ef einhver væri að reka bensínstöðva-keðju með einokunarstöðu í landi þar sem allir keyra á bíl, en tækist að rústa fjölskyldufyrirtækinu engu að síður. En á Andverðleika-eyjunni er svo sem ekkert því til fyrirstöðu að manni takist það, toppi það síðan með því að gera stærsta tryggingafyrirtæki landsins gjaldþrota með spilavítabraski í Macau (sem maður hefur engan skilning á), kosti íslenska ríkið 12 milljarða björgunarpakka og verði svo fjármálaráðherra eftir á.


Aftur að ÁTVR. Ég næ því ekki. Drykkjuvenjur Íslendinga eru óhollar og það er sama þótt fólk bendi á að lítrafjöldinn sé lægri en í Frakklandi eða Ítalíu. Ég sé ekki sótölvaða Frakka og Ítala úti um allt í viðkomandi löndum, ég sé fólk sem fær sér glas með matinum í hádeginu og svo annað glas með kvöldmatinum. Þegar ég býð frönskum vinum í heimapartý kemur fólk með tvo bjóra eða kannski eina vínflösku til að deila, sambærilegt partý á Íslandi þýðir að fólk mætir stundum með heila kassa. Það er af því að á Íslandi hömstrum við áfengi. Áfengismenning okkar er stórhættuleg og hún orsakast af ÁTVR og sköpuðum skorti.
Svo bætist við að þegar einungis ein búð má selja jafnvinsæla vöru þá skekkist öll verslun á landinu fyrir vikið. Í staðinn fyrir að kaupmaðurinn á horninu geti átt auðveldara með rekstur þegar hann selur eina kippu af bjór eða vínflösku handa fólksins sem gleymdi að kaupa fyrir matarboðið eru þess í stað örfáir stórir verslunarkjarnar sem myndast í kringum ÁTVR verslanir. Ef svo vínbúðin ákveður af einhverjum ástæðum að yfirgefa miðstöðina þá umbreytist hún fljót í draugaborg. Ef þið trúið mér ekki þá kíkið bara við í Fjörðinn í Hafnarfirði.
(Stundum rekst ég á fólk sem vill halda ÁTVR, ekki af því það dragi úr drykkju eða sé hagkvæmt, heldur af því það tryggir að þeirra mati gott úrval af áfengi … mér finnst það hæpið að ríkið standi fyrir því að tryggja úrval af einhverju sem það þykist vera að takmarka neyslu á. Hvort sem ríkið eykur úrval eða ekki þá finnst mér það varla vera í þess verkahring).

2. RÚV
Ef einhver kæmi til mín og segði að í dag hefði verið ákveðið að láta útsvarið renna beint í framleiðslu á íslensku efni í stað milligöngumanns myndi ég ekki panikka. Ef efnið væri annað hvort sýnt svo á skjá einum, stöð 2 eða dreift ókeypis á netinu væri ég bara nokkuð kátur með þróunina. RÚV hefur ef eitthvað er haldið aftur af þróun íslensks sjónvarpsefnis. Allar ferskar nýjungar hafa komið frá öðrum stöðvum. RÚV er líklegra til að stela vinsælu efni heldur en að skapa það sjálft, flaggskip stofnunarinnar voru lengi vel Silfur Egils og Spaugstofan (þættir sem urðu til annars staðar). Svona efni er gripið og síðan haldið í öndunarvél langt fram yfir eðlilegan líftíma. (En verði einhverjar dagskrárbreytingar trompast grái herinn í hollvinafélaginu sem vill hafa allt eins og þegar það var ungt. Sjálfum þykir mér alveg vænt um X-ið 9.77 en ég ætlast ekki samt til þess að komandi kynslóðir haldi því gangandi fyrir mína sök).
Ef við skoðum DR í samanburði þá sjáum við að nýjar þáttaraðir koma á þriggja ára fresti en vinsælir sjónvarpsþættir fá ekki endurnýjun eftir þriðju seríu. Eitthvað er DR að gera rétt svo mikið er víst.

Það væri kannski helst söknuður af fréttastofunni sem nýtur mikils trausts. En ég velti fyrir mér hvort það séu ekki til lýðræðislegri fyrirkomulög sem mætti nota til að viðhalda öflugri fjölmiðlun. Hvað nú ef við tækjum upp svipað fyrirkomulag og með trúfélögin, létum 2/3 útsvars renna í framleiðslu íslenskra þátta, og 1/3 væri valfrjáls. Fólk gæti styrkt fjölmiðil að eigin vali, vefsíðu, dagblað, útvarpsstöð eða sjónvarp. Það myndi tryggja öfluga fjölmiðla sem væru frekar háðir tryggð lesenda og trausti þeirra á miðlinum, heldur en auglýsendum og hagsmunaaðilum.

Að þessu sögðu þá er útvarpshliðin á RÚV að standa sig ágætlega.

3. Pólitísk rétthugsun
Sumt fólk virðist vakna á morgnanna með það að markmiði að móðgast yfir einhverju yfir daginn og ef því tekst ekki að móðgast, þá alla vega sýna fram á að hann/hún sé betri manneskja en við hin.
Slík manneskja setur upp franska fánann ef hún er fyrst inn á feisbók eftir hrikaleg hryðjuverk. Sjái hún hins vegar að allir feisbókarvinir sínir séu komnir með franska fánann og þar með búnir að sanna góðmennsku sína (sem innifól enga peningagjöf eða álíka vesen að sjálfsögðu) þá finnur hún einhverja aðra tragedíu. „Af hverju settuð þið ekki upp líbanska fánann þegar sprengjuárás varð í Beirút?“ spyr góða manneskjan en hafði að vísu lítið pælt í Líbanon fram að þessu. A.m.k. ekkert skrifað um á feisbók.
Svo má nefna óþarfa tillitsemi við trúarbrögð. Manni ber ekki að virða heimskulegar skoðanir. Í raun mætti segja að það væri ákveðin tegund af rasisma að gagnrýna ekki íslamstrú til jafns við kristni. Bæði eru fornar og úreltar, en við tölum á ákveðin hátt um kristnina kannski af því við virðum andstæðinginn þar og búumst við því að hann kunni að svara fyrir sig. Þegar kemur svo að múslimanum þá klöppum við honum bara á kollinn og segjum að félagslegar aðstæður séu svo hrikalegar að það væri hreinlega ljótt að rökræða við hann. (M.ö.o. erum við að segja að hann sé svo vitlaus og ómenntaður að við getum ekki talað við hann eins og manneskju í þjóðkirkjunni).

4. Listamannalaun.
Núverandi kerfi er rétt eins og framleiðsla RÚV á sjónvarpsefni, ófullnægjandi. Það er ekki hægt að lifa á laununum, fólk fær þar að auki að njóta þeirra í afar takmarkaðan tíma, umsóknarferlið er ógagnsætt og háð duttlungum tiltekinna nefnda frekar en skýrra starfsregla. Þetta er óeftirsóknarverð fátæktargildra sem búið er að slá skjaldborg um af því einhver nátt-tröll á hægrinu vilja helst ekki að neinar bækur komi út (eða leiksýningar fari á svið, listasýningar opni osfrv.). Nátt-tröllin á hægrinu eru auðvitað öfundsjúk af því það hefur ekki sést hægrisinnaður listamaður með hæfileika frá því vestmanneyingar trömpuðu niður geirfuglinn. (Ég gæti ímyndað mér að afkomendur hans vilji helst trampa niður íslenska listamanninn en það er önnur saga).
Það eru til önnur og betri kerfi erlendis. Í Svíþjóð fara leikhópar sem starfað hafa um langt skeið á margra ára styrki svo þeir þurfi ekki að sækja um árlega, í Frakklandi er tiltölulega þægilegt að vera sviðslistamaður á milli verkefna því hafi maður uppfyllt ákveðinn tímafjölda er maður með trygg laun. (Alveg óháð nefndarniðurstöðum).

Í stað þess að verja listamannalaun ætti vinstrið að berjast fyrir einhverju betra.

5. Konur í valdastöður
Ég næ því og samt ekki. Svo lengi sem við erum með ráðherra væri það framför að fjölga konum í ráðherraembætti. Fá fleiri í stjórnunarstöður. En hrokinn verður ekki mikið skárri þótt að ráðherra verði að ráðskonu. Ég afþakka heim með fleiri Hönnu Birnum. Það væri óskandi að við gætum einhvern veginn losnað við allt þetta lið sem sækist í stjórnunarstöður. Kjör almennings í Bandaríkjunum munu t.d. ekki batna þótt Hillary Clinton yrði forseti (frábært samt ef það eykur sjálfstraust ungra stúlkna, slæmt ef það þýðir að fjármálaeftirlit verði ekki hert og sama rugl haldi áfram á Wall Street).
Valdapýramídarnir og kerfið sjálft er vandamál sem krefst einhvers konar endurforritunar. Það er vonandi að við getum lagað lýðræðið á þessari öld frekar en að bíða númer 22.

Eflaust gæti ég talið inn nokkur fleiri atriði en ég læt þetta duga í bili. Þetta var minn topp fimm listi yfir það sem ég næ ekki við íslenska vinstrið og þið megið eiga von á framhaldsgreininni: Það sem ég næ ekki við íslenska hægrið, innan skamms.

 

Uppfært 6. júní 2018, þremur árum síðar:

Ég næ því ekki af hverju þið eruð með Jordan Peterson á heilanum.

Svo næ ég ekki því af hverju VG vill lækka veiðigjöld. Og af hverju Kolbeinn Proppé er alltaf reiður.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni