Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Lífslexíur frá Bond

Hverfulleiki lífsins er mér hugleikinn þessa stundina. Á leið minni til Strasbourg varð töf á lestinni og hún varð að snúa til baka, tveggja tíma ferð breyttist í 6 tíma ferð.

Ég heyrði síðar hjá starfsfólki lestarfélagsins að einhver hefði verið að taka selfie af sjálfum sér á brautarpallinum til að ná mynd af aðvífandi lest. Því miður var loftstreymið sem myndaðist svo sterkt að það greip manneskjuna og feykti henni utan í lestina.

Degi síðar vorum við komin til Strasbourg að sýna leikverk í Maillon. Það er býsna töff leikhús. Í augnablikinu stendur það eitt friðað húsið (sem var reist sem expo-center) mitt í eyðimörk en það á að reisa nýtt fjármálahverfi milli leikhússins og evrópuþingsins svokallaða. Enn bólar ekkert á fjármálahverfinu en prógramm leikhússins er býsna gott. Það er skemmtileg blanda af svissneskum, þýskum og frönskum sýningum, sumum stórum samtímaverkum, og öðrum smærri tilraunaverkum.

Leiksýningin heppnaðist ágætlega. Fyrir sýninguna sáum við brot af leik Frakklands og Þýskalands við Stade de France og mér sýndist Frakkar vera að vinna. Enginn spáði í sprengjuhljóðunum í miðjum leiknum. Flugeldar? Ég var að horfa á boltann, greiða hárkollunni minni, fara í leðurjakkanna.

Þegar við komum út voru mikil fagnaðarlæti. Enginn var að spá í landsleiknum. Um borð í sporvagninum var fólk að fagna því að Strasbourg hefði unnið Real Madrid í körfubolta. (íþróttahúsið var rétt við hlið leikhússins).

Tíðindin komu þegar við vorum á leið inn á veitingastað. Sonur Ísabellu hringdi til að láta hana vita. Restina af kvöldinu hlustuðum við agndofa á útvarpslýsingar af ódæðisverkunum, flettum milli fréttasíða í símunum, hringdum í ættingja og vini. Ég borðaði quenelles de foie af lítilli lyst.

Daginn eftir var ég að prenta miðann minn fyrir lestina frá Strasbourg og fer inn á fréttasíðu. Fyrsta sem kemur upp er frétt um lest sem fer út af sporinu skammt frá Strasbourg og drepur sjö manns.

Stundum langar mann helst að hanga inni. Ég fór samt út og horfði á nýju James Bond með tæknimanni sýningarinnar til að drepa tímann. Ég tók eftir því að í byrjunarsenu myndarinnar (sem gerist á degi hinna dauðu ... allir í beinagrindabúningum að dansa) sprengir James Bond hús fyrir mistök. Fimm hæða bygging hrynur fram á við, reykmökkur rís, jörðin hristist og skelfur.

Í næstu andrá er James Bond á harðaspretti á eftir óþokka. Merkilegt nokk er skrúðgangan en í gangi. Fólk lætur eins og ekkert hafi í skorist og heldur áfram að dansa. Ekkert bólar á löggunni. Mikið ofboðslega er öryggismálum illa fyrir komið í Mexíkóborg. Eða fólk bara svona ligeglad. Það þýðir kannski ekki annað ef maður er inni í Bond-mynd. 

En það er kannski eitthvað til í því hjá Bond, þýðir lítið að kippa sér upp við svona lagað. Þegar maður hefur leyfi til að myrða þá lítur maður aldrei aftur um öxl, jafnvel þótt það sé sprenging.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni