Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Trigger warning: Umræða um stjörnugjöf

Trigger warning: Umræða um stjörnugjöf

Íslenskir listamenn þurfa að hætta að væla svona mikið yfir stjörnugjöf. En íslenskir blaðamenn verða að hætta að gefa svona mikið af stjörnum, þetta er orðið vandræðalegt. Stjörnur eru alveg leim, það er ekki það, það er alltaf kjánalegt að fá einkunn eins og í barnaskóla. Virtasti álitsgjafi landsins og stílisti með meiru, Guðmundur Andri Thorsson skrifaði fyrir nokkrum vikum að stjörnugjöfin væri smættun. Það er alveg rétt að stjörnur eru plebbalegar og bjánalegt væri að gefa Eddukvæðunum eða Sölku Völku eða í raun hvaða listaverki sem er einkunn út frá groddalegum 1-5 skala. Eddukvæðin fá auðvitað 5 stjörnur. En það fær Arnaldur líka, en að vísu í Danmörku þar sem 5 stjörnur eru 4 stjörnur og því ekki nema rétt í meðallagi ef miðað er við íslenska dóma.

En það á við um svo margt. Maður gæti hugsanlega kvartað yfir því að fyrirsagnir blaðanna fangi ekki hörmungar-ástandið í París, ekki hrikalegar umbreytingar gróðurhúsaáhrifanna, ekki stríð, ekki ástir, ekki það mannlega drama sem felst í sveiflum á fjármálamörkuðum eða þær ótrúlegu vonir sem vakna þegar NASA tilkynnir að vatn finnist á Mars.

Hvernig ætti ein fyrirsögn, ein fréttagrein, ein fréttamynd að fanga slíkt? Það er hreint brjálæði að gefa út dagblað og ætla sér að fjalla um allt það mikilvægasta, allt sem skiptir máli og allt sem fólk ætti að kynna sér áður en það sest upp í bíl og keyrir í vinnuna. Það er líka hreint brjálæði að ætla sér að útvarpa skoðunum og umræðum fólks út í loftið, að tala við heila þjóð í gegnum útvarpsbylgjur á meðan hún er á leiðinni í grámyglulega vinnu. Og hvers konar geðbilun er það að ætla sér að varpa stjórnmálaumræðu upp á sjónvarpsskjá í ekki nema hálftíma? Að ætla sér einungis hálftíma í að miða kastljósi ríkisfjölmiðilsins að umræðu um framtíðina? „Framtíðina!“ Eigum við að ræða bág kjör aldraðra, öryrkja, óréttlæti og mismunun ... ræða atvinnulífið, stefnu stjórnvalda, vonir okkar og væntingar, allt umrót samfélagsins í einum skitnum umræðuþætti? 

Brjálæði.

Og sem betur fer láta menningarrýnar þessa lands ekki bjóða sér að ræða leikhús eða listir á þessum nótum. Að eiga í fimm til tíu mínútna spjalli í lok umræðuþáttarins til að ræða stórvirki sem oft tók mörg ár að smíða? Þvílík smættun.

Þá væri tómið betra. Því þegar við horfum á grátt sjónvarpssuðið á tómum sjónvarpsskjá þá erum við að horfa bylgjur sem flugu af stað í sjálfum mikla hvelli. Bergmál frá upphafi alheimsins. Beintenging við almættið myndu sumir jafnvel segja.

Og væri það ekki betra?

 

---


Nei, ókey. Blaðamennska og fjölmiðlun er í krísu. Hún er alltaf í krísu, en núna er krísan efnahagsleg eðlis. Hagsmunaöfl éta upp fjölmiðla en klikkvæðingin er líka hættuleg. Ef maður rýnir of mikið í klikkið eru allar líkur á því að maður klikkist. Stundum klikka ég á greinar sem höfða til þess allra frumstæðasta í mér, oft verð ég fyrir vonbrigðum því fyrirsögnin gaf í skyn eitthvað allt annað en það sem stendur svo í greininni sem í þokkabót er eldgamall stuldur frá einhverri amerískri klikk-beitu síðu. (Mæli með því að þið horfið á nýjasta South Park þáttinn, sem tekur fyrir þessa klikkun m.a.) 

Ég vil gjarnan lesa öfluga menningarrýni. Öfluga menningarblaðamennsku. En menning er býsna margþætt hugtak. Það er erfitt að afskrifa eitt sem ómenningu og annað ekki. Oft veltur það bara á aldri.

Upp á síðkastið hef ég þó pælt í því hvort listamenn velti of mikið af ábyrgð yfir á fjölmiðlafólk. Það er eiginlega ekki í þeirra verkahring að halda uppi öflugri menningarumræðu eða veita pláss fyrir fagurfræðilegan debatt. Það er mjög gaman þegar þeir gera það, en þeir eiga í fullu fangi með „raunveruleikann.“ Síður eins og Reykvélin og aðrar menningarsíður sem listamenn og listfræðingar standa að eru líklegri til stórræðanna (Eða smáræðanna, gleymum ekki þeim). Síður á borð við Starafugl og Sirkustjaldið poppa upp og deyja svo. Þetta eru ólaunuð ástríðu-prójekt, sem er eflaust synd en staðreynd engu að síður. Þar inni getum við gefið skít í klikkinn og spáð í gæðum umræðanna frekar en útbreiðslu þeirra. Bestu klúbbarnir byggja nefnilega á útilokun. Fjöl-miðlun felst hins vegar í fjölda.

Að því sögðu er óþarfi að gera lítið úr Víðsjá eða öðrum svæðum innan fjölmiðla sem vissulega standa fyrir athyglisverðum innslögum. Mogginn og DV eru reyndar líka með býsna öfluga spretti í menningarumfjöllun líka þótt fólkið sem helst hampar menningunni sé um leið minnst líklegast til að lesa þau blöð.

 

---

 

Aftur að stjörnugjöf. Rýnar landsins eru góðar og gjafmildar manneskjur sem oft á tíðum gefa allt of háar einkannir. Mér finnst það stundum beinlínis vandræðalegt. Allt á þessu landi er upp á fjórar stjörnur og það þykir hin mesta skömm að fá þrjár. (Á skalanum 1-5). Rýnin heldur ekki uppi neinni merkilegri umræðu þótt við látum stundum eins og svo sé, hún í mesta lagi bergmálar aftur í auglýsingum bókaforlaga. 

En það er heldur ekki meiningin. Rýnin er ætluð lesendum sem ekki eru endilega ákafir menningarneytendur, bara fólk sem er að fletta. Samtalið er ekki á milli tveggja listamanna, tveggja listfræðinga, heldur blaðamanns og lesanda. Og ég held að lesandinn hugsi með sér: enn einn fimm stjörnudómurinn, vá, Ísland best í heimi enn eina ferðina barasta. Eða hann tekur ekki mikið mark á blaðamanninum sem ekki þorir að skrifa illa um vini sína. (Eða sleppir því af tillitsemi).

Það væri ekki endilega stór missir þótt við hættum að rýna í bækur eða sýningar. Ekki frekar en þótt við hættum að sýna fótboltaleiki í sjónvarpinu eða taka viðtöl við íþróttamenn. Hverjum þykir sinn fugl fagur og mér þætti ágætt ef það væri einhver þáttur eins og djöflaeyjan væri enn þá til í sjónvarpinu. Svo þykir mér gaman að plögga það sem ég er að gera, mamma mín klippir út það sem stendur um mig í blöðunum yfirleitt og það er ágætis minnisvarði, (alveg eins og það sem ég skrifaði í fyrra á feisbók). Einn listamaður sagði við mig að ef það hefði ekki verið skrifað um það sem hann gerði í blöðin þá liði honum eins og það hefði aldrei gerst. En þegar ég spurði hann hvort hann læsi einhvern tímann viðtöl við aðra listamenn brostum við báðir vandræðalega og ypptum öxlum. 

 

---

 

Á morgun á ég von á rýni um eitthvað sem ég hef gert. Sú stjörnugjöf mun endurspegla hvað komandi kynslóðir munu halda um þetta kvöld á Reykjavík Dancefestival þegar þau lesa um það á tímarit.is (mögulega í þeim tilgangi að skrifa B.A. ritgerð um menningarumfjöllun á fyrri hluta 21. aldar). Ef ég fæ fullt hús stiga mun ég nota það til að markaðssetja sjálfan mig, ef ég fæ eina stjörnu opna ég kampavín því þá loksins hefur einhver hatað mig. (Og mér finnst ég ekki fá nógu mikið hatur verð ég að játa, kommentið fyrir neðan og segið eitthvað nastý, takk).

Langspenntastur er ég auðvitað fyrir Reykvélinni. En er svoleiðis blogg nokkuð annað en smættun á raunveruleikanum og því mikilfenglega stórvirki sem danssýningin mín var?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni