Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ungfrúin, dauðinn og klámið

Það er athyglisvert að fylgjast með því á hvaða vegferð pólsk stjórnvöld eru. Athyglisvert í þeim skilningi að það sé hrollvekjandi. Á undanförnum árum hafa kaþólskir ofstækismenn ógnað lífi lækna sem framkvæma fóstureyðingar og hótað hryðjuverkum gagnvart leikhúsum sem sýna óæskilega list.

Ég skrifaði um það á reykvélinni í fyrra. Það var nokkrum mánuðum fyrir Charlie Hebdo og alla þá umræðu um málfrelsi sem spannst í kjölfarið innan Frakklands, en málið var í deiglunni á frönskum fjölmiðlum og ég sló upp fréttaskýringu:

Malta-festival í Poznan hugðist sýna verk eftir Argentínsk-Franska leikstjórann Rodrigo Garcia þetta sumar (árið er 2014) en neyddist til að hætta við þegar hótanir um ofbeldi, sprengjuárásir og óeirðir náðu hápunkti. Lokaútslagið var þegar lögreglan sagðist ekki geta tryggt öryggi hátíðisgesta (eða hyggðist öllu heldur ekki standa fyrir aukinni löggæslu).

Verkið Golgota Picnic vakti mikla athygli og deilur í Frakklandi þegar það var sýnt fyrst árið 2011, annað verk eftir ekki síður umdeildan leikstjóra Romeo Castellucci sama ár einnig. Bæði verkin fjölluðu um Jesú á tvo mismunandi vegu. Castellucci kannaði fagurfræði málverka og sér í lagi andlitsmynda á frelsaranum. Rodrigo Garcia var talsvert hrárri. Verk hans var ádeila á neysluhyggju og kapítalisma, innifól nekt og hamborgara. Enda gerir Garcia í því að vera pönkaður.

Viðbrögðin voru svipuð í Frakklandi og Póllandi. Fordæmingar komu frá kaþólsku kirkjunni, óeirðir og mótmæli brutust út, en stjórnvöld tóku á málinu allt öðru vísi. Lögreglan mætti fyrir utan leikhúsin til að tryggja öryggi áhorfenda og leikara. Málfrelsið var heilagt og bar að vernda. (Frökkum var enn í fersku minni eldsprengjuárásir á kvikmyndahús á 10. áratugnum þegar Martin Scorsese sýndi mynd sína um seinustu freistingu krists).

Hefðin fyrir að aðskilja trú og pólitík er ekki eins sterk í Póllandi og Frakklandi. Frá lokum nítjándu aldar hafa trúarleg tákn verið bönnuð í skólum í Frakklandi og reyndar opinberum stöðum almennt. Pólland hins vegar eftir fall kommúnismans hefur guðlastslög svipað og Ísland þar til Píratar nýttu meðbyrinn eftir Charlie Hebdo árásirnar til að keyra frumvarp um afnám þeirra gegnum þingið. Guðlastslögin í Póllandi standa enn hins vegar. Og ekki er líklegt til að þau hverfi í bráð. 

Sýning Rodrigo Garcia var ekki sýnd árið 2014 á Malta Festival eins og áður kom fram. Það olli mikilli hneykslan og undrun í Frakklandi. Þar hafði Garcia hlotnast sá heiður að vera skipaður þjóðleikhússtjóri í Montpellier. (CDN eða centre dramatique national eru nokkurs konar þjóðleikhúsa-útibú sem finna má í flestum stærri bæja Frakklands og eru rekin af skáldum eða leiksstjórum með nokkuð frjálsum höndum). Sú ákvörðun að aflýsa verki Garcia hafði þau áhrif að fjölmörg leikhús mótmæltu með því að leiklesa verkið úti um allt Pólland. Umræður bárust inn á þingið þar sem sumir íhaldsamir þingmenn vildu banna leiklestrana og kæra leikhúsin.

En af hverju að rifja þetta mál upp núna?

Við lifum á athyglisverðum tímum og þau öfl sem hótuðu ofbeldi til að banna þær skoðanir og tjáningu sem þeim líkaði ekki eru komin til valda. Menningarmálaráðherra Póllands reyndi í þessari viku að banna verk eftir nóbelsverðlaunahafann Elfriede Jelinek.

Verkið Ungfrúin og dauðinn er ekki bara umdeilt út af texta skáldkonunnar (sem ég efast um að Piotr Glinski hafi nokkurn tímann lesið) heldur fyrir þær sakir að kynlífssena í miðju verkinu er sett á svið af tékkneskum klámmyndaleikurum. Ráðherrann, sem sennilega er kunnugri tékknesku klámi en austurrískri leikritunarhefð, er alveg brjálaður. Ekki sökum þess að um innflutt vinnuafl sé að ræða heldur fyrst og fremst út af því að opinbert fé styrki leikhúsið að hluta til. (Það er reyndar ekki óalgeng afstaða hjá ráðafólki að opinbert fé gefi þeim tilkall til að ákveða hvernig list sé viðeigandi.)

Ráðherrann hefur valdið ýmsum mannréttindahópum áhyggjum yfir því að pólsk stjórnvöld stefni á að takmarka málfrelsi sem nú þegar stendur frekar veikt. Það er ekki ólíklegt að hann muni refsa menningarstofnunum sem ekki þóknast honum með niðurskurði, en það er svo sem ekki orðræða sem er sérstaklega framandi fyrir Íslendinga. (Sér í lagi í tengslum við RÚV, en það er efni í aðrar umræður). Magnað hvernig það er alltaf ólistrænasta fólkið sem mest er ógnað af list, kannski af því hið ókunnuglega hræðir.

Svo mikið er víst að ófrjálslynd öfl eru í sókn. Þeir sem segja Pólverja, Íslendinga og jafnvel Frakka kristnar þjóðir sækja á. Og sömuleiðis þær sem þrá að skilgreina allar miðausturlandaþjóðir út frá trúarbrögðum þeirra, en Arabar eru jafnmikið múslimar og Íslendingar eru kristnir sem betur fer, m.ö.o. þeir láta börnin sín í gegnum ritúölin en spá lítið í merkingu þeirra. Pólverjar eru ekki kaþólsk þjóð, þeir eru alls kyns fólk, sumt vill notast við getnaðarvarnir, fóstureyðingu, drekka á Sunnudögum og horfa á klámfengin verðlaunaleikrit. 

Besta leiðin til að sigrast á þessum ófrjálslyndu öflum er auðvitað að halda áfram að skapa list, klám, menningu og halda áfram að hafa húmor fyrir öllu því vitlausa sem fólki dettur í hug að trúa. 

Hér er linkur á upprunalegu greinina.
Yfirlýsing frá evrópskum listamönnum til varnar málfrelsinu.
Grein frá Guardian um verk Elfried Jelinek.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni