Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Að eitra umræðuna

Við berum öll ábyrgð á því að viðhalda umræðunni upplýstri og skynsamri. Stjórnmálafólk meira en aðrir.

Þess vegna er það alvarlegt þegar fyrrum forsætisráðherra mætir í viðtöl og spýr fram samsæriskenningum. Þótt maður viti vel að flokkur hans tapi einungis á því, og sennilega stjórnin í heild sinni, (og maður á víst aldrei að trufla mótandstæðing sem gerir mistök), þá fagna ég því ekki. Það er einfaldlega miklu uppbyggilegra og skemmtilegra að eiga í samtali með rökum og raunverulegum skoðanaskiptum. Samsæriskenningar sem byggja á engu skaða og eitra umræðuna.

Um langt skeið hefur George Soros verið notaður sem kóði fyrir „alheimssamsæri Gyðinga.“ Samtök sem fylgjast með hatursorðræðu eins og Anti-Defamations League hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir því hvernig róttækir Repúblikanar nota samsæriskenningar sínar um George Soros.

Soros er raunveruleg persóna og rétt eins og aðrir milljarðamæringar er hann óhóflega valdamikill. Þ.e.a.s. eins og heimurinn er í dag getur milljarðamæringur haft ískyggileg áhrif með því að kaupa fjölmiðla og styrkja stjórnmálaöfl. Flest lýðræðisríki (þ.m.t. Ísland) reyna að setja þessu hömlur. Þau sem gera það ekki eiga í hættu á að verða oligörkum að bráð (Rússland og Bandaríkin). Soros hefur grætt á gjaldeyrisbraski og hluta af þessum peningum hefur hann notað til að fjárstyrkja pólitískar hreyfingar. Sér í lagi lýðræðissinna í austur-evrópu, en einnig Demókrata í Bandaríkjunum. Í fyrra tilvikinu sýnist mér féð að mesta hafa verið til góðs, sér í lagi á níunda áratugnum þegar hann styrkti andspyrnuhreyfingar gegn kommúnistastjórnunum, en það þarf ekki að þræta um það að í sama hversu göfugum tilgangi maður gefur frambjóðendum stórfé þá er slæmt að stjórnmálafólk skuldi auðkýfingum greiða. Það er slæmt þegar Koch-bræður gera það og slæmt þegar Soros gerir það. (Framlög Soros eru þó dvergvaxin við hlið auðkýfinga eins og Koch og Adelson).

Eftir sem áður er búið að kveða Soros-kenningu SDG í kútinn í Kvennablaðinu. Það vill nefnilega svo til að Soros og félög hans (og viðskiptafélaga hans sem ég hef reyndar skrifað um fyrir Stundina) koma víða við í lekanum og það er frekar óþægilegt fyrir Soros grunar mig.
Og þeir sem vilja sjá hvaðan innblástur Sigmundar Davíðs fyrir því að nota George Soros sem sökudólginn í samsæri sínu geta klikkað hér. (Triggerwarning, þetta er Glenn Beck).

Ég vona að SDG taki sér aftur pásu. Svona tal skemmir á endanum bara fyrir vitrænni umræðu. Víða um heim eru þó stjórnmálamenn sem nýta sér vafasamar samsæriskenningar, t.d. Donald Trump, og Pútín Rússlandsforseti sem eins og SDG telur Panamalekann einhvers konar árás frá bandarískum skuggaöflum. (Hvað sem því líður þá sýnir lekinn fram á peningaþvætti hans).

Samt finnst mér tal SDG kallast óþægilega á við núverandi stjórnarherra í Póllandi. Þeir virðast trúa því helst að Pólland sé umkringt sósíalískum óvinum, innan og utan, og hamast sérstaklega í fjölmiðlum (og ríkisútvarpi landsins). Þegar sú hreyfing byrjaði var hún hlægileg, en núna í dag er verið að þrengja að málfrelsi í Póllandi og grundvallarmannréttindum.

Lesið um samsæriskenningastjórnina hér.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni