Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Listflakkið: Sumarskýrsla

Listflakkið: Sumarskýrsla

Það er búið að vera rosalega langt síðan listflakkið fjallaði um list, kannski af því ég hef verið meira upptekinn af því að skrifa og þegar ég hef skrifað hér á bloggið hefur það verið tengt prófkjöri hjá Pírötum eða forsetaframboðum (á Íslandi og í Bandaríkjunum).

Þar sem ég hét sjálfum mér að byrja að blogga um listir til að geta munað það sem ég geri og sé ætla ég að skella í eitt hrátt listflakk um það sem ég sá í sumar.

1. Kunstenfestival.

Sá frumsýningu á Welcome to Caveland! eftir Philippe Quesne í Kaai í Brussel í byrjun maí. Sýningin var kraftmikil og fjörug, virkilega ólík öðru sem Philippe hefur áður gert, og það á góðan máta. Verkið hefst á því að risavaxnar moldvörpur bora sig inn í tóman helli, það er hávært og skepnurnar eru viðbjóðslegar, leikendurnir fara alla leið í leikinn því búningarnir (sem eru, get ég sjálfur sagt ykkur, verulega óþægilegir) virka svipað og grímur í því að þær virka frelsandi og gefa ákveðið leyfi til að ganga lengra. Það er spilað á trommur, ljósin eru agressív, það er byggt, það eru loftfimleikar, en andrúmsloftið er ávallt brútalt og ofbeldisfullt. Verkið minnir á endann í Swamp Club, mætti eiginlega tala um framhald eða a.m.k. uppfyllingu á því loforði sem gefið var í lok þeirrar sýningar.

Ég sá vídjóverk, eða vídjóleiksýningu öllu heldur, eftir Jisun Kim á sömu hátíð. Mér fannst verkið sniðugt að því leytinu til að þarna voru möguleikar tölvuleikja sem leikhúss nýttir. Við fylgdumst með fígúrum í sköpuðum heimi ráfa um og framkvæma gjörðir, en vissum að listakonan var að spila leikinn í beinni. Sjálfur leikurinn hafði ekkert markmið annað en að láta fígúrurnar fara um og segja frá, þeir dóu og lifnuðu aftur við, en sjálfur heimurinn fylgdi fáum rökréttum lögmálum þótt hann ræki fagurfræði sína til tölvuleikja með lögmálum. (og Teletubbies). Tölvuleikir eru í sjálfu sér listform, en þegar áhorfendur koma til að horfa á manneskju spila þá er yfirleitt um íþróttaviðburð að ræða. (Leikir eins og minecraft eru undantekningin, þar er spilarinn frekar að skapa list ef hann sýnir fólki afrakstur sinn). 

Ég sá einnig marokkóska danssýningu eftir Taoufiq Izzediou, En alerte. Dansarinn, Taoufiq sjálfur, er ótrúlega góður performer með svakalega útgeislun, áhugaverðan stíl og líkama, en því miður var verkið full einfeldningslegt. Symbolíkin var flatneskjuleg og vangavelturnar grunnar þótt dansinn væri á köflum býsna góður.

Að lokum sá ég japanskt leikrit eftir Toshiki Okada, en verð að játa að þótt mig minni að ég hafi notið þess get ég ekki munað nógu margt til að skýra frá því. Sviðsmyndin var skemmtileg að því leytinu til að hún ein og sér hefði getað verið sér innsetning, hún nýtti sér plötuspilara og vatnsflæði til að skapa sjálfstæða hreyfi-lúppu.

2.
Við fórum aftur til Parísar og fórum á danshátíðina Rencontres Choreographiques þar í byrjun júní. Ég sá verk sem mér þykir of slæmt til að eyða orðum í. Svo sá ég Extended Play eftir Ulu Sickle, þar var virkilega frjótt samstarf á milli popptónlistarfólks og listafólks, sýning sem ég mæli hjartanlega með. Tónlistarfólk og dansarar frá Belgíu, Bandaríkjunum/Japan og Frakklandi vann saman, og slík samstörf þegar allir eru jafnfrægir og virkilega góðir virka ekki alltaf, en þetta small. Einföld hugmyndin um að skoða nútíma popp og vinna með boybanda-girlbanda dansa fannst mér ekki hljóma vel en í þeirra framkvæmd virkaði hún fullkomlega.

3.

Í lok júní fór ég til London og missti þar með af leik Íslands og Englands. (En ég hafði reyndar séð Ísland-Austurríki, sem var rosaleg upplifun og fimm stjörnu sjóv). Ég náði engu neti um borð í rútunni svo mér var beinlínis brugðið af viðtökunum á landamærum Frakklands og Bretlands. Frakkinn í landamæraeftirlitinu hló þegar ég sýndi honum íslenskt vegabréfið ... Bretanum var minna skemmt.

Ástæða ferðarinnar var gjörningur sem ég gerði á vegum Jake Laffoley í Xero Cline and Coma galleríið við Hackney Road. Galleríið er rekið af pari/listakollektívinu Pil og Galíu, sem eru upprunalega frá Jerúsalem en hafa búið í London í ótal ár. Mæli með því að fólk tékki á þeim ef það vill sjá pólitíska list í London, þau hafa gert býsna mikið af myndlist, tónlist og gjörningum, og eru ótrúlega fróð. 

Verkið hans Jake tjái ég mig lítið um, enda lék ég í öllum myndböndunum og gjörningurinn var í raun upptaka á síðasta vídjóverkinu sem var til sýnis. En hann er virkilega skemmtilegur pólitískur listamaður, sem m.a. hefur stofnað öryggisvarðafyrirtæki í listrænum tilgangi. Toilet Time Compression sem snýst aðallega um að takmarka tíma starfsfólks inn á klósetti á vinnutíma, eða gera algerlega út af við alla óframleiðni yfir höfuð er frekar augljós krítík á þróun síðustu ára í Bretlandi, þar sem grafið hefur verið undan réttindum starfsfólks í sífellu. Raunveruleikinn tekur stundum fram úr listinni, meðan við vorum að taka upp vídjóverkin þar sem forstjórinn Grímur Þór útskýrði áætlun sína um örugga framtíð framleiðni, birtust fréttir um konu sem hafði fætt andvana barn inn á klósetti í verksmiðju Sports Direct og haldið svo beint aftur til vinnu af ótta við að missa lifibrauð sitt. Þetta var ekki einhvers staðar í Bangladesh, heldur Bretlandi. Aðeins um fyrirtækið hér. Og gjörningin hér.

4.
Eftir London var haldið aftur heim. Borgin er hálfdauð í júlí (nema fótboltinn lífgaði upp á). Samt sá ég innsetningar Ólafs Elíassonar í Versölum (en guð minn góður hvað sá staður er mikil túristagildra og varla hægt að njóta sökum langra biðraða á hvern stað, og pínu óheiðarlegrar upplýsingagjafar um hvað raunverulega kostaði inn). 

Einnig sá ég sýningu í Palais de Tokyo, efri hæðin sem var tileinkuð verkum unnin úr bókum Michel Houllebeq var ekkert rosaleg, en á neðri hæðinni voru vídjóverk eftir Mika Rottenberg sem voru svo góð að við entumst þrjá tíma þar niðri að horfa á þau. Marguerite Humeau og fílahöfuðkúpur hennar voru líka býsna flott upplifun. (Ég ítreka að þetta eru eiginlega meira minnispunktar en listrýni).

Ég lék í verki Philippe Quesne, Mélancolie des Dragons á World Breakers í Dro. Náttúran á svæðinu er rosaleg, enda fjöllin himinhá og samt græn. Dag einn langar mig að fara í hjólaferð um suðurhluta alpanna eins og ég sá marga Þjóðverja gera. (Kom mér skemmtilega á óvart að íbúar þar voru margir hverjir tvítyngdir á bæði ítölsku og þýsku, en kunnu ekkert í ensku).

The rock slide and the world, eftir Andreco, nýtti landslagið vel, enda site specific verk út í náttúrunni en áhorfendur gengu nokkur hundruð metra upp í fjallshlíðina til að fylgjast með gjörningunum. Það vísaði í andatrú fyrri alda og heilagleika skógarins, nema nú minntu skógarandarnir helst á svartklædda anarkista, en verkið sjálft vakti sterk hughrif. (Ég gat þó ekki annað en horft í öfuga átt á vissum tímapunkti, þegar ég sá þrjá fallhlífastökkvara koma niður úr himnunum handan við dalinn og missti því af góðum fimm mínútum).

5.

Framundan hjá mér er tvennt. Þátttaka í prófkjöri Pírata, en því miður missi ég af öllum viðburðum í raunheimum þar sem ég er að sýna á listahátíð í Tampere, Finnlandi. Við konan mín í Rebel Rebel erum að sýna á Tampere Theatre Festival og erum býsna stolt því það er í fyrsta sinn sem við sýnum verk á alþjóðlegri hátíð. (Af þessari stærðargráðu, Ragnheiður hefur að vísu gert ýmislegt ein og ég hef sýnt á svipuðum listahátíðum en bara ekki sem höfundur). Verkið heitir Retrospective og var frumsýnt á Reykjavík Dancefestival og Lókal í fyrra. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni