Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Bréfasprengjur á Reykjanesi

Bréfasprengjur á Reykjanesi

Njálskar strategíur

Mig langar að segja eitthvað um strategíur en áður en ég segi eitthvað um strategíur finnst mér ég þurfa að segja eitthvað um orðið strategíu. Á íslensku hefur það verið þýtt sem herkænska. Kænska er eitthvað í ætt við klókindi og klækjabrögð, og á áreiðanlega oft erindi innan strategíu, en þetta tvennt er ekki það sama. Og þó að strategíur séu upprunnar innan hernaðar, þá er það ekki sú beiting þeirra sem mig langar að tala um. Ekki beinlínis.

Kannski er engin tilviljun að orðið á sér enga samsvörun í íslensku. Í átökunum sem birtast í Íslendingasögunum er strategía ekki í forgrunni: frá upphafi Njálu til enda virðist enginn hafa neina hugmynd um hvernig megi leiða deilur til lykta, hvað þá ná sigri – athafnir birtast í einhvers konar orsakasamhengi, sem viðbragð við viðbragði, oftar en ekki reiðiviðbragð til varnar særðum heiðri.

Enska Wikipedia skilgreinir strategíu, í grófri þýðingu, sem „áætlun til að ná fram einu markmiði eða fleirum, við óvissar aðstæður“. Reyndar stendur „a high-level plan“ – og jafnvel það er ekki auðvelt að þýða. Hástigsáætlun? Ef markmiðið er að komast úr Kópavogi í Kringluna getur strategían, hástigsáætlunin, verið sú að aka bíl um Reykjavíkurveg. Smáatriði eins og hvernig maður bregst við á gulu ljósi, hvort maður brunar þá eða staðnæmist, eru ekki spurning um strategíu heldur taktík.

Ef einhver strategía er algengari en önnur á Íslandi er það kannski þrjóska: að leggja fram kröfu, bíða, endurtaka hana, bíða – stundum dugir það kannski ágætlega. Ég segi þetta með almenning í huga – ekki lögfræðinga og framámenn í Sjálfstæðisflokknum. Lögfræðingar stúdera strategíur og ef þeir eru í Sjálfstæðisflokknum hafa þeir yfirleitt nokkurn áhuga á sögu hernaðar.

Umrædd bréfasprengja

Þá kemur að viðfangsefninu sem kallar á þessi grísku orð: fyrir nokkrum dögum síðan birtist frétt um að nýir eigendur íbúða sem áður voru í eigu Íbúðalánasjóðs hafi látið leigjendur þeirra vita með viku fyrirvara um allt að 40 prósenta hækkun á leigu. Þetta er í Reykjanesbæ. Í dæmi sem tekið er í fréttinni hækkar mánaðarleiga einnar íbúðar úr 140 þúsund krónum í um 200 þúsund. Í Reykjanesbæ.

Þessar tölur eru bilun. Skyndilega hækkunin virðist þó lögmæt – eigendurnir hafa hugsað bæði strategískt og taktískt: strategían er þá sú að losna við fyrri leigjendur og fá inn nýja, efnaðri, til að hámarka arðinn af fjárfestingunni. Taktískt gæta þeir að því að fara að lögum með því að bjóða fyrri leigjendum að dvelja út uppsagnarfrest upphaflegs samnings á fyrri leigu – vilji þeir hins vegar búa heima hjá sér lengur en til næsta febrúar borga þeir nýju leiguna strax.

Tilkynningin barst leigjendum með bréfi. Fulltrúi eigendanna segir leigjendurna hafa misskilið bréfið og endursegir síðan efni þess brosandi. Leigjendurnir gleymdu að brosa.

Aðspurður segist bæjarstjórinn ekki hafa miklar áhyggjur: „Markaðurinn hlýtur að leiðrétta sig og finna rétt verð. Ef fólki finnst þetta of há leiga hljóta markaðslögmálin að leysa það, einhverjir labba út.“ Bæjarstjórinn. Enginn kommúnisti í Rússlandi var jafn sannfærður eftir fall Sovétríkjanna og frjálshyggjusjúklingarnir eru á Íslandi eftir hrun.

Hér er rétt og skylt að tjá ósætti, færa það til bókar. En það er ekki nóg. Þessi hryðjuverk sem vofa yfir fólki með lítil fjárráð öllum stundum eru ekki ásættanleg.

Andstaða

Líklega má bæta við skilgreininguna á strategíu hér að ofan að hún á ekki bara við í óvissu ástandi heldur óvissu ástandi frammi fyrir andstæðingi. Í stéttskiptu samfélagi eru það aðeins lægri stéttirnar sem eiga sér andstæðinga – efri stéttirnar, sem innihalda þá til dæmis alla sem hafa efni á að kaupa fjölda leiguíbúða af Íbúðalánasjóði – þær sjá ekki leigjendurna sem andstæðing heldur fólk sem má hunsa. Eigendurnir sjá ekki fyrir sér átök við leigjendurna en þeir ætla sér heldur aldrei að bjóða þeim í mat, ekki einu sinni deila með þeim kaffibolla eða ölkrús. Þeir geta látið eins og leigjendurnir séu ekki til.

Þetta er strax nokkurt forskot: ef andstæðingur þinn gerir ekki ráð fyrir að þú sért til munu allar hreyfingar þínar koma honum á óvart. Þetta forskot endist ekki lengi en það er eins gott að nýta það.

Því við þurfum strategíu. Það er ekki nóg að tala eða kvarta. Allra síst hrín á nokkrum fjárfesti að álasa honum fyrir græðgi – eins og bæjarstjórinn er hann sannfærður um að þannig rétti maður heiminn af. Það þarf að breyta vígstöðunni þannig að aðrir hafi ekki hag af því að níðast á þér.

Til þess eru nokkrar leiðir. Ein er lagasetning. Ég þekki ekki til löggjafarinnar víða en ég veit að í Berlínarborg var nýverið komið á leiguþaki, hámarksleigu sem tekur mið af meðalfermetraverði í hverju hverfi borgarinnar. Þá er AirBNB-útleiga bönnuð í borginni, til að stemma stigu við leiguhækkunum, og undanþágur aðeins veittar í hverfum þar sem ekki hafa mælst viðvarandi hækkanir. Og svo framvegis.

Strategískar bílabrennur

En hvað býr að baki lagasetningunni? Hvernig myndast þrýstingur á þingmenn þannig að þeir sjái þörf á breytingum? Hann myndast á ótal vegu. Ein strategía sem hefur verið beitt í borginni eru skemmdarverk: þegar fyrri leigjendur hafa verið flæmdir úr húsum og þau augljóslega gerð upp fyrir efnaðra fólk, er víða til siðs að kasta grjóti í rúður eða málningu í veggi. Bílabrennur eru fátíðari, þó að helst fréttist af þeim í fjölmiðlum – þær beinast helst að nýjum og dýrum bílum. Hús sem var gert upp með bílalyftu, til að nýir íbúar gætu tekið bílinn sinn með sér upp í stofu, hefur reynst gríðarvinsælt skotmark. Þannig er upplausn staðarsamfélaga í þágu efnafólks gerð kostnaðarsamari, aðeins óhagkvæmari, aðeins ófýsilegri kostur.

Það er ekki hægt að mæla með slíkum aðferðum á Íslandi, landi sem er svo lítið að þú ert yfirleitt málkunnugur, ef ekki sjálfum böðli þínum þá mömmu hans eða frænda eða góðum vini úr menntaskóla. Þetta mótsagnalandslag ýkir svo álagið, eykur svo samfélagsslitið að ein bílabrenna þætti jafngilda stríðsyfirlýsingu.

Að skapa frið

En spellvirki eru ekki heldur einu aðferðirnar sem beitt hefur verið í borgum Evrópu, og erfitt að meta hver vegur þyngst: félagasamtök, lögfræðiráðgjöf, samstöðupartí, hávær mótmæli og lágvær: mótspyrna. Hún fer fram á mörgum sviðum samtímis, í samstöðu ólíkra hópa sem sameinast um hagsmuni og málstað. Hún ber árangur. Aldrei allan, alltaf einhvern. Hún er nauðsynleg forsenda þess að þetta sem bæjarstjórinn kallar markað geti rétt sig af.

Í frétt sem birtist í mars kemur fram að meðalleiguverð á Íslandi hafi einmitt hækkað um 40 prósent á síðustu fjórum árum. Félagið sem kreisti út alla hækkunina á einni viku í Reykjanesbæ heitir Tjarnarverk. Kannski reynist taktík hinna árangursríkari, að kynda undir þér um eina gráðu í senn, svo þú takir varla eftir því fyrr en þú byrjar að bulla.

Eigendur hugsa strategískt og hegða sér taktískt til að hámarka arðinn af þér. Öll grísku orðin – þeir nota þau þegar þú heyrir ekki til.

Það var ekki nákvæmt að segja, hér að ofan, að misskilningur leigjendanna, samkvæmt fulltrúa eigendanna, hefði falist í að gleyma að brosa. Ég held að hann hafi átt við að þau gleymdu að vera ekki til.

Þeir sjá þig ekki en þú sérð þá. Eigendurna og afleiðingar þeirra. Þú kemst ekki hjá því. Hvert sem þú ferð, hvar sem þú finnur glufu, koma þeir að endingu og nema land, stríða þér fyrst, hrekja þig svo burt. Sjái þeir póstlúgu henda þeir inn sprengju. Eina ástæða þess að þeir líta ekki á það sem hernað er að þeir finna ekki fyrir verulegri mótspyrnu. Þú þarft að hugsa um strategíur og taktík. Við þurfum að skapa okkur frið fyrir póstlúguterrorisma. Eins og Grikkland. Ef það skyldi koma í ljós að lífeyrissjóðir eigi þetta félag þarna, eins og næstum allt, og ef þeir segja að þannig sért annað hvort þú að gera þér þetta sjálfur eða þeir í þágu fólksins, þess þá fokkins heldur. Grískuslettulaust.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni