Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Maður er nefndur Davíð

Maður er nefndur Davíð

Þeir sem koma sjálfum sér á framfæri, að ekki sé talað um forsetaframboð, opna um leið á mikla skoðun á gjörðir og orð sín gegnum tíðina.
Davíð Oddson er svo þekktur að með gúggli kemur nafn hans fyrir 345000 sinnum.
Hann var í kynningarviðtali í Speglinum í gær og spurði Arnar Páll Hauksson m.a. að eftirfarandi: (12:55) ;

"En aðeins um fortíðina, óttast þú ekki hugsanlega draugar fortíðar varðandi fall bankanna, í Rannsóknarskýrslunni segir að þú ásamt fleiri hafi  sýnt ákveðna vanrækslu, óttast þú ekki að þetta valdi þér vandræðum?" Davíð svarar: " Nú er það reyndar þannig að þetta er ekki rétt túlkun að mínu mati. Það sem kemur fram í skýrslunni að þetta væri eina stofnunin sem stóð í lappirnar. Og ég sérstaklega sá eini sem veitti útrásar köppum viðnám. Tvö lítil atriði annað um vald sem við höfðum ekki og annað mjög smávægilegt".
Davíð hvetur svo alla til að lesa skýrsluna.

Það gerði ég. . .aftur.

Í áttunda bindi Rannsóknarskýrslu alþingis kemur nafn Davíðs fyrir a.m.k. 18 sinnum. Yfirleitt eru þetta tilvísanir í spurningar og svör Davíðs fyrir nefndinni en þó nokkrum sinnum upptaldar vanrækslur eða tómlæti stjórn Seðlabankans.

Í fyrsta bindi rannsóknarskýrslunnar kemur nafn Davíðs mun oftar fyrir  enda stór hluti þess bindis varið í einkavæðingu bankanna og aðdragandi Hrunsins.

Ég tek þó eitt atriði úr því bindi ef til vill dæmi sem einkennir stöðuna:

-Þórarinn G. Pétursson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum, lýsti þessari atburðarás fyrir rannsóknarnefndinni: „Því að bankinn var bara hreint út sagt bara stjórnlaus, algjörlega stjórnlaus, það var bara þannig.“ Þórarinn segist svo hafa skrifað í minnisbókina sína fyrir þennan dag „enn eitt ruglið. [...] Ég er að tala um fastgengisyfirlýsinguna og Rússalánið. Ég man, ég á aldrei eftir að gleyma þeim degi, því að ég kem bara til vinnu og það er búið að vera
brjálað að gera, mikið álag og allt það og ég held að ég hafi aldrei séð Arnór [aðalhagfræðing bankans] eins miður sín eftir að hafa [verið] kallaður upp á fund og kemur niður og ég bara sá að það hafði eitthvað mikið komið fyrir, því að hann var gjörsamlega niðurbrotinn.“ Þórarinn bætir við að þegar hann hafi innt Arnór eftir því hvað væri um að vera þá hefði Arnór sagt að það hafi „verið tekin ákvörðun um það að festa gengi krónunnar gagnvart [vísitölunni] Og sú, þessi tala, sagði hann mér að hefði bara verið, [...] ákveðin út í
bláinn... þetta var bara ákveðið einhvern veginn og kastað einhverjum tölum út í loftið og þá bara, þetta var bara ákvörðunin. Hann [Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar] hafði mikinn áhuga á að það væri Seðlabankinn sem mundi lýsa yfir þessu Rússaláni til að vera á undan fjármálaráðuneytinu með yfirlýsinguna, hann hljóp náttúrlega svona algjörlega á sig, það var enginn fótur fyrir þessu. ...ég held að þetta sé lágpunkturinn, ... Eða hápunktur stjórnleysisins en lágpunktur [...]. Þetta var algjörlega skelfilegt... [...]
Arnór Sighvatsson lýsti atburðarásinni þannig fyrir rannsóknarnefndinni:
„Það er eiginlega þá [7. október 2008] sem allt fer algjörlega úr böndum, að bara held ég óhætt að segja að hafi verið algjört paník-ástand og byrjaði náttúrlega með því. Og þá kom sem sagt í ljós að það var eitthvað rætt um þessa hugmynd um að kalla til sjóðinn og þeir voru þá komnir til landsins, sem sagt ekki kalla til sjóðinn heldur að fara á prógramm. Þá voru viðbrögðin [hjá formanni bankastjórnar] þau að við þyrftum ekki á þessu láni að halda vegna þess að það væri búið að semja við Rússa um að veita okkur lán. Og lá mikið á að koma þeirri tilkynningu [...]. Og það er eiginlega með þá lánveitingu, held
ég, í farteskinu sem reyndist nú vera hugarburður að einhverju leyti, hvort það var sendiherrann sem að, eða formaður bankastjórnar, að þá töldu menn sig vera nægilega sterka til þess að fara að festa gengið eða gefa einhverjar yfirlýsingar. Það að ég hafi reyndar lagt fram tillögu sem gekk út á það að reyna að róa markaðinn með því að tilkynna um það að það væru áform um
að fara í prógramm hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og að gengið væri orðið mjög lágt og bankinn teldi að til lengri tíma litið þá gæti það [...]. Nei, þetta var algjörlega stjórnlaust og varðandi síðan vaxtalækkunina sem að var tilkynnt þarna, vextir voru lækkaðir í 12% og mér var tilkynnt sú ákvörðun fimm mínútum áður en að hún fór á vefinn og það gerðist með þeim hætti að formaður bankastjórnar kallaði mig á eintal og tjáði mér þessa ákvörðun bankastjórnar og ég hélt fyrst að hann væri að grínast … og, en svo kom í ljós að það var ekki. Og ég verð nú bara að viðurkenna að mér var öllum lokið, vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta …“

Ef farið er aftast í kaflann þá má lesa þetta í lokin:

[Þ]að er niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að meta verði framangreint athafnaleysi Davíðs Oddssonar, Eiríks Guðnasonar og Ingimundar Friðrikssonar svo að þeir hafi þar látið hjá líða að bregðast við yfirvofandi hættu á viðeigandi hátt og grípa til viðhlítandi ráðstafana og með því sýnt af sér vanrækslu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008.

Ætli Davíð hafi ekki munað eftir þessu?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni