Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Frelsi til hatursáróðurs

Ég hef mikinn áhuga á hugtakinu frelsi og þá sérstaklega mismunandi skilningi sem fólk leggur í hugtakið. Flestir eru sammála um að manneskjan eigi að hafa frelsi til að vera sú sem hún er, hafa þær skoðanir sem hún hefur og gera það sem hún vill. Fólk (upp til hópa alla vega) áttar sig líka á því að frelsi fólks hlýtur að takmarkast við að það skerði ekki frelsi annarra. Þannig verður frelsi manneskju sem vill beita ofbeldi að víkja fyrir frelsi þess sem fyrir ofbeldinu yrði til að fá að vera í friði. Um þetta er fólk yfirleitt sammála. En hvað með frelsi til að hvetja til ofbeldis?

Þegar fólk setur fram fordómafullar skoðanir á opinberum vettvangi; eins og að samkynhneigðir séu óeðlilegir, veikar manneskjur og barnaperrar eða að allir múslimar hljóti að vera hryðjuverkamenn og vilji berja konurnar sínar, hafa margir vilja banna þær eða takmarka með einhverjum hætti. Alla vega hafa margir tjáð sig um að þeir kæri sig ekki um að slíkt fólk kenni börnum þeirra eða sitji í mannréttindaráði borgarinnar o.s.frv.

Þegar slíkt ber á góma koma yfirleitt fram boðberar málfrelsis sem segja það réttilega eitt af af grunnmannréttindum fólks og vilja meina að ,,óvinsælar“ skoðanir verði líka að fá að heyrast og að málfrelsi hljóti alltaf að þýða: engin ritskoðun. Ég er nú yfirleitt fylgjandi málfrelsi og er meinilla við hvers konar forræðishyggju og ritskoðun sem miðar að því að stjórna því hvað fólki finnst eða hvað það segir. En að sama skapi er ég MJÖG mikið á móti ofbeldi og hvers konar áróðri eða hvatningu til að stunda það. Mörgum finnst að það að tala um annað fólk sem annars flokks, óeðlilegt, eða guði illa þóknanlegt séu bara eins og allar aðrar skoðanir sem eigi þar með að lúta skoðanafrelsi og málfrelsi. En þar vandast málið all verulega.

Auðvitað getum við sem samfélag ekki stjórnað skoðunum fólks enda hafa rannsóknir í félagssálfræði sýnt að þær stjórnast gjarnan af tilfinningum sem ekkert samfélag á að geta stjórnað. En þurfum við samt ekki sem samfélag að geta haft hemil á hatursfullri orðræðu sem slíkir fordómar bera vott um? Nú er ég ekki svo einföld að telja að til sé fólk sem er fordómalaust með öllu og þá síst af öllu ég. En fordómar þess eðlis að einhver sé óeðlilegur eða minna virði BARA af því að hann er fæddur á ákveðinn hátt sem hann sjálfur ræður ekki við eins og kynhneigð, þjóðerni, fötlun o.s.frv. eru að mínu viti stórhættulegar skoðanir. Mig langar í þessu samhengi að búa til nýtt orð: eðlisfordómar, sem nafn yfir slíka fordóma.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að að það er ekki hægt að „banna“ slíkar skoðanir, en ef manneskja er tekin burt úr mannréttindaráði fyrir slíkt, er þá eðlilegt að manneskja með sams konar skoðanir kenni grunnskólabörnum? Gætum við sem samfélag meinað fólki að starfa á opinberum vettvangi sem hefur sett fram slíka eðlisfordóma af heift og innlifun? Ég hefði persónulega áhuga á því. Ástæðan er ekki dýrkun mín á forræðishyggju heldur löngun mín til að hefta hatursfulla orðræðu sem sagan hefur sýnt okkur að geti mjög auðveldlega leitt til ofbeldis. Er svo slæmt að reyna hefta útbreiðslu ofbeldis? Viljum við frekar verja rétt einstaklings til að gera það sem hann vill óháð áhrifunum sem það hefur á aðra frekar en að reyna að skapa samfélag sem stuðlar að virðingu á mismunandi einstaklingum?


Þeir sem helst tala fyrir slíku frelsi og ,,engri ritskoðun“ hafa gjarnan hampað sér sem hinum einu sönnu fulltrúum lýðræðis. En lýðræði sem hefur ekki mannréttindi allra að leiðarljósi og fordæmir ekki hatursáróður og hvatningu til ofbeldis er gagnslaust lýðræði að mínu mati. Lýðræði sem snýst eingöngu um frelsi allra til alls óháð afleiðingum sem það gæti haft fyrir aðra eða sem reynir að réttlæta hatursáróður og eðlisfordóma með því að þykjast hampa málfrelsi er gagnslaust lýðræði!


 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu