Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Þurfum við að græða á innflytjendum?

Algengt viðkvæði í umræðu um fólk sem flyst hingað frá öðrum löndum af misjöfnum aðstæðum er að fólkið nýtist hér til vinnu og að Ísland græði svo mikið á því. Vissulega auðgar að hafa sem fjölbreyttast mannlíf. Fólk með ólíka menningu, sýn, trúarbrögð, lífstíl o.s.frv. Ég eiginlega grátbið fólk sem er andstæðan við perukökuétandi þjóðernissinna að flytja til Íslands, við þurfum virkilega á því að halda. Það hefur í för með sér meira umburðarlyndi og minnkar alhæfingar okkar um hópa fólks sem við þekkjum lítið. Slíkar alhæfingar eru grundvöllurinn að fordómum og oft hatri og ofbeldi. Þetta er gefið.

Erum við að græða á öllum Íslendingum? Auðgar hver einasti Íslendingur samfélagið sitt? Erum við við ekki jafn misjöfn og við erum mörg? Hið sama á auðvitað við um fólk sem fæðist í öðru landi eða annarri menningu en velur að koma og búa hér. Rétt eins og við viljum hafa frelsi til að flytja til hvaða lands í heiminum sem er til að vinna, læra eða bara búa eiga innflytjendur á Íslandi að hafa það líka. Ég veit vel að þessi orðræða eru ákveðin viðbrögð við útlendingaandúð sem því miður hefur verið að gera meira og meira vart við sig á Íslandi. Ég veit að fólk er að reyna að finna mótrök við þá sem halda að fólk frá öðrum löndum sé ástæðan fyrir því að ýmsir hópar á Íslandi hafi það skítt. Sem er auðvitað hið mesta bull.

En getum við ekki fundið betri rök en að við séum að „græða“ á fólkinu. Eru ekki allar manneskjur jafnmikilvægar og hafa rétt á að búa og lifa þar sem þær vilja? Er það ekki grunnurinn að svokölluðum vestrænum mannréttindargildum sem sumir vilja eigna kristinni trú? Fólk er ekki til að græða á. Þýski heimsekingurinn Immanuel Kant setti fram eitt af lykillögmálum á siðfræði sinni til að hnykkja á þessu; Allar manneskjur eru markmið í sjálfu sér og á ekki að nota sem tæki til að ná fram markmiðum annarra.

Ég legg alla vega til að við breytum orðræðunni í anda Kants og virðingu fyrir öllum mannslífum á þessari jörð. Við erum ekki að að fara að græða á öllum sem flytjast hingað frekar en við græðum á öllum Íslendingum. Hver manneskja skiptir máli í sjálfu sér.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu