Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

,,Þá getur maður víst ekki lengur verið í BDSM félaginu“

 

Mér finnst umræðan um inngöngu BDSM félagsins í Samtökin ´78 svo áhugverð fyrir margra sakir að ég ákvað að hripa niður nokkrar hugleiðingar varðandi hana. Fyrstu viðbrögðin mín eftir aðalfundinn í vetur tjáði ég í facebook statusi sem leit svona út:

Já, mer finnst furðulegt að blanda saman hvers konar kynlíf fólk vill stunda við baráttunni fyrir réttinum um að vera sá sem maður er í lífinu... þrátt fyrir að kynlíf sé stór partur af lífinu ... held að þetta sé til þess fallið að ýta undir fordóma og staðalímyndir vitgrannra á því hvað það er að vera samkynhneigður eða ekki fæddur inn í "tvíhyggjuna" .. þetta er eins og að félag doggy style myndi sameinast félagi asíubúa eða eitthvað ... en áfram alls konar!

Í þessum status kemur ýmislegt fram; Í fyrsta lagi er ég með honum að gera greinarmun á kynhneigð (réttinum til að vera sá sem maður er og elska þann sem maður vill) og kynórum (hvað maður vill gera í kynlífinu sínu) sem er einmitt inntakið í fínum pistli sr. Hildar Eir Bolladótturum um málið. Ýmsir hafa brugðist við þeirri aðgreiningu í samhenginu og sagt m.a. að BDSM sé miklu meira og allt annað en bara kynórar eða það sem fólk fíli að gera í kynlífinu sínu heldur liti það allt þeirra líf og öll þeirra samskipti. Gott og vel. Aðrir hafa brugðist við með því að segja að ekki sé hægt að greina kynhneigð frá kynórum; því kynórar tengist jú alltaf eða hljóti að litast að miklu leyti að kynhneigð manns. Þetta er vissulega rétt, enda segi ég í þessum blessaða status:,þótt kynlíf sé stór hluti af lífinu” sem mætti líta á sem ákveðið svar við þessu. Því þótt kynórar séu afleiðing kynhneigðar að þá er ekki þar með sagt að kynórar og kynhneigð séu það sama. Að segja að vinnan sé stór hluti af lífinu, skipti okkur miklu máli og sé afleiðing af gildismati okkar er ekki það sama og að segja að lífið eða gildismat okkar sé það sama og vinnan okkar.

Eins og flestir vita snýst BDSM um upplýst samþykki tveggja aðila á valdamismuni þar sem annar er undirgefinn og hinn er drottnandi, og mér finnst á þessu stigi málsins mikilvægt að það komi fram að ég styð fyllilega tilverurétt, baráttu gegn fordómum, fræðslu og því starfi sem BDSM samtökin standa fyrir. Ég hef kynnt mér starfsemi þeirra aðeins á netinu í gegnum tíðina bæði í fyrir starf mitt sem kennari en einnig af eigin áhuga og forvitni á annars vegar kynlífi og hins vegar mannréttindabaráttu. Því eins og ég sagði líka í statusnum:,,en áfram alls konar!” er það mér mikið hjartans mál. Þessi setning vísar sem sagt bæði  til samtakanna ´78 og BDSM félagsins. Hins vegar er ég ekki sannfærð um réttmæti inngöngu þeirra í Samtökin og set spurningarmerki við mörg rökin sem sett hafa verið fram fyrir þessu skrefi. Ein rökin eru söguleg og kannski einna skynsamlegust að mínu mati. Þar kemur fram að áður hafi skapast andstaða við inngöngu hópa í samtökin eins og tvíkynhneigða, transfólks o.s.frv. Þess vegna væri þessi andstaða eðlileg og myndi jafna sig á einhverjum tíma og öllum finnast þetta sjálfsagt eftir einhvern tíma. Ég er hins vegar ekki sannfærð um það því mér finnst ennþá stórmunur á BDSM og tvíkynhneigð og trans í samhengi við samtökin ´78 og ætla ég að útskýra það hér betur að neðan.

 Ég lít á samtökin ´78 sem fræðslu-og baráttusamtök fyrir fólk sem í dag er kallað “hinsegin” eða þá sem falla ekki að hinni hefðbundnu “tvíhyggju” í lífi sínu. Þessi tvíhyggja felur m.a. í sér að þú sért annaðhvort kona í konulíkama sem hefur áhuga á að giftast, elska, eiga sem sálfélaga, stunda kynlíf með karli í karllíkama eða akkúrat öfugt (karl í karllíkama sem vilt gitast og elska konu í konulíkama). Þetta hefur löngum verið talið “eðlilegt”, guði þóknanlegt eða það eina sem ætti að vera í boði og fólk sem hefur upplifað sig utan þessarar tvíhyggju hefur verið fordæmd, fangelsað, grýtt, bölvað, myrt í áraraðir. Af því að ég vil fagna alls konar og af því að ég trúi því og veit að samkvæmt vísindalegum rannsóknum í þroskasálfræði og tengdum greinum að samkynhneigð eða önnur hneigð utan tvíhyggjunnar er meðfætt fyrirbæri sem fólk ræður engu um. Þá hef ég alla tíð stutt baráttu hinsegin fólks af heilum hug (og reyndar alla aðra mannréttindabaráttu sem snýst um að fólk fái sömu virðingu og réttindi og aðrir á grundvelli eðlis síns).

Einhverjir gætu viljað setja fram spurning í þessu samhengi hvort að það geti ekki verið í eðli sumra að vilja drottna yfir öðrum og annarra að vilja vera undirgefin og hvort þeir megi ekki allt eins vera í samtökunum fyrst þeir eru með öðruvísi eðli en fjöldinn. Ef samtökin eru regnhlífasamtök fyrir alla þá sem eru með öðruvísi eðli en fjöldin eða sem falla ekki innan hinnar hefðbundinnar tvíhyggju; þá eigi BDSM heima þar. Þá vandast málið. Eins og ég skil samtökin þá snýst vera fólks í þeim um að passa ekki inn í tvíhyggjuna varðandi hver þau eru eða hvern þau vilja elska (giftast, stunda kynlíf með, eiga sem sálufélaga) en ekki um þá sem greina sig frá öðrum um hvernig samskipti þeir vija eiga við aðra. Ef maður passar í undirflokk samtaka verður maður að passa í yfirflokk samtakanna. Samtök hjólreiðamanna ættu hins vegar ekki heima innan öryrkjabandalagsins þrátt fyrir að þeir eins og aðrir í öryrkjabandalaginu séu vanir að ferðast um á hjólum í stað tveggja jafnfljótra. Ef eina skilgreiningin á yfirflokknum er barátta fyrir almennum mannréttindum og að vinna á móti fordómum fyrir öllu ættu ansi mörg félög að drífa sig að sækja um inngöngu (eiginlega flest félög). Ef BDSM snýst um að maður vill hafa valdamismun í öllu sínu lífi (ekki bara kynlífi) velti ég fyrir mér hvaða hljómgrunn þeir telja sig eiga með Samtökunum ´78. Mér fyndist nær að benda þeim á ýmis konar félög, stjórnmálaflokka, skóla, vinnustaði, trúarsamtök, hjónabönd og önnur samskipti þar sem einstaklingar virðast samþykkja slíkan valdamismun milli einstaklinga. Nú vil ég sérstaklega taka fram að ég hef enga óbeit á BDSM samtökunum sem slíkum og líklega ætti ég þar heima ef ég leitaði eftir samtökum til að lýsa hluta kynóra minna.

 Ég tel sem sagt BDSM ekki eiga heima í Samtökunum ´78 vegna þess að í mínum skilningi snýst félagið um þá sem eru hinsegin varðandi hver þau eru og hvern þau vilja elska, ekki hvernig þau vilja að slík samskipti séu. Ég tel skilgreininguna á undirflokknum BDSM þannig ekki eiga heima með yfirflokknum Hinsegin. Ástæðan er sumsé ekki að mér finnist BDSM eitthvað athugvert sem slíkt. Það er sem sagt hægt að vera mótfallinn hugmyndinni um sameiningu án þess að vera með fordóma fyrir BDSM. Því ef ég ætti heima í öðrum þessara samtaka, væru það BDSM samtökin. Ég tel mig hins vegar alls ekki eiga heima í Samtökunum ´78. Þrátt fyrir að vera ekki í BDSM samtökunum myndi ég samt sem áður þurfa að skrá mig úr þeim eftir þessa breytingu. Til þess vísar titillinn á greininni.

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu