Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Er Guðni strengjabrúða Sjálfstæðisflokksins?

Ég held að stór öfl hafi viljað ÓRG frá, stór öfl með peninga. Fólk í fyrirtækjarekstri og fólk í útrás. Já, meira segja þeir sem héldu að ÓRG hafi boðið sér með í partíið hér um árið. Það gleymdi því að ÓRG er í grunninn afturhaldssamur þjóðernissinni og hefði fyrr látið lífið en að afhenda Evrópu Ísland á silfurfati! Landið þar sem sumir höfðu setið með vinum sínum einir að verðmætum lands og sjávar.

 Þetta fólk vissi að Guðni sem þegar hafði verið mikilsverður fræðimaður í fjölmörg ár, álitsgjafi um ýmis mál hjá RÚV og skrifað bækur sem tengjast málefninu. Með því að tefla honum fram myndi það tryggja sér breitt fylgi, bæði fræðimanna og peningamanna (nei, ég útiloka ekki að þessi mengi skarist, en ég er hér að tala um meirihlutann) og koma ÓRG loksins frá.

Margir voru með kenningar um þetta bakland. Ég velti því alveg fyrir mér og skal játa að mér fannst pínu grunsamlegt hversu mikið fylgi Guðni hlaut strax og hversu lítið það breyttist. Sumir reyndu að nýta sér sömu grunsemdir sínum frambjóðanda til framdráttar. Komu með órökstuddar fullyrðingar sem byggja á samskonar alhæfingum og fordómar gera. Ein fullyrðingin var að Guðni væri handbendi Sjálfstæðisflokksins. Vegna þess að a) það væru svo miklir peningar í framboðinu b) nafnalisti sýndi að margir af bakhjörlum hans væru Sjálfstæðismenn. c) hann væri úr Garðabæ. Þetta er krossaspurning með ekkert rétt svar.

Ég held persónulega að þessi háskólakennari og  hugvísindamaður sem hjólar með börn sín í skólann hafi ekki beint kosið Sjálfstæðisflokkinn í gegnum tíðina! Jafnvel þótt hann sé úr Garðabæ! Ég hef kennt  í Garðabæ í 14 ár og  unnið með innfæddum stuðningsmönnum Stjörnunnar, íklæddum bláum bolum, sem hafa ALDREI kosið Sjálfstæðisflokkinn! Enda það að póstnúmer stýri stjórnmálaskoðunum fólks fáránleg alhæfing.  Enda var einnig fólk úr öðrum flokkum sem stóð á bakvið framboð Guðna. Þarna var slatti af fólki úr Viðreisn (blikk, blikk... hint, hint... Evrópusinnaðir Sjálfstæðismenn), Samfylkingafólk og meira að segja tveir úr Vinstri Grænum! Og þó svo að hann hafi kosið Sjálfstæðisflokkinn einhvern tíman; þá er ég nú þroskaðri en það að ætla öllum Sjálfstæðismönnum að vera vont fólk þó að ég sé ekki hrifin af hugmyndafræði þeirra og forgangsröðun.

Mér fannst það pínu sorglegt að einhverjir væru að fara með svona alhæfingar og fordóma þegar þeir höfðu fullt af málefnalegum rökum fyrir því að kjósa Andra og láta þar við sitja. Mér finnst hann svo frábær með mikilvæg málefni sem eru aðkallandi, bæði nú og um ókomna tíð. Mér finnst hann standa á eigin verðleikum. Án þess að stuðningsmenn hans þyrftu að vera með skítkast til að upphefja sinn frambjóðanda. Sem er gamla hugsunin. Já, feðraveldið. Mér fannst þessi flétta skyggja á framboð Andra. Héldu sumir kannski að landinu yrði nú sökkt í sæ því Andri var ekki kosinn forseti? Héldu þeir þá kannski líka að hér yrði stríðsástand og enginn friður því Ástþór var ekki kosinn forseti?

Ég er ánægð með nýjan forseta sem ég held að sé skynsamur nútímamaður og komi til með að standa með þjóð og náttúru í sinni forsetatíð. Hann er alla vega fylgjandi breytingum á stjórnarskrá sem gefa þjóðinni ákvörðunarrétt í þjóðaratkvæðagreiðslu svo að við ættum þá að geta veitt honum aðhald. En ég kaus samt sem áður að vera forseti í eigin lífi og átta mig á því að lýðræðið er ekki bara tölur. Stóð með mæðraveldinu, náttúrunni, listinni, fegurðinni, börnunum og húmornum ásamt eiginlega öllu öðru en ofbeldinu. Takk fyrir mig Elísabet Kristín Jökulsdóttir.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni