Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Rektor í ruglinu

Rektor í ruglinu

Eða ég ætti kannski öllu heldur að segja að húsnæðismál Listaháskóla Íslands séu í ruglinu. Listaháskólinn er húsnæðislaus en núverandi rektor telur að honum væri betur borgið í Landsbankahúsinu við Austurstræti. Það er rangt hjá henni. (Og hér fyrir áhugasama er miklu betri hugmynd fyrir húsið, en þið verðið að lesa þessa grein fyrst).

Fyrir nokkrum árum síðan fékk LHÍ úthlutað reit nærri Háskóla Íslands. Staðsetningin var mjög góð fyrir listaháskóla, þarna nærri norræna húsinu, vatnsmýrinni, stúdentagörðum og háskólanum sjálfum var nóg svæði til að stækka við sig.

Nemendur hefðu getað nýtt sömu kaffihús og mötuneyti og háskólanemendur. Þeir væru í göngufjarlægð frá miðbænum og landsbókasafninu, og húsið hefði getað verið hannað með þarfir þeirra í huga. En hvað þarf listaháskóli fyrst og fremst:

Sviðslistanemar þurfa sýningarrými. Þeir þurfa æfingarrými og svið, með ljóskösturum og hljóðkerfi, reykvélum og öðrum leikhúsgræjum. Þeir þurfa verkstæði til að vinna að sviðsmyndum, búningum, gjörningum og ýmsu öðru.

Myndlistanemar þurfa öðruvísi sýningarrými, þeir þurfa rými þar sem þeir geta draslað til, þar sem er í lagi þótt málning, blóð eða sag slettist á gólf. 

Tónlistarnemar þurfa hljóðeinangruð rými til að æfa sig og taka upp.

Hönnunarnemar og arkitektar þurfa skrifstofurými. Líka verkstæði.

Allir þurfa fyrirlestrasali.

 

Sjáið þið fyrir ykkur þetta rúmast við Austurstræti?

Já, ég veit að hugmyndin um bóhemíska listanema að sötra kaffi á Laugaveginum, eða fremja gjörninga í Maílok á Austurvelli hljómar freistandi, en listnemar eru ekki bara í námi sínu svo túristar geti tekið af þeim krúttlegar myndir. Það endaði þannig að reitnum á Háskólasvæðinu var hafnað og gerð voru plön um listaháskóla á Frakkastíg. Teikningarnar fyrir þann skóla voru katastrófa. T.d. áttu dansarar að æfa í glerkastala, sem yrði of heitur til að nota þegar vorsólin loks sýnir sig, en var eflaust hugsaður til þess að túristar gætu tekið myndir af dönsurum í miðri æfingu. (En hvaða upprennandi dansari vill virkilega vera truflaður af ljósmyndandi túristum í miðjum æfingatíma? Mér fannst tillögurnar vægast sagt ósmekklegar, en kannski viðeigandi miðað við að skólinn átti að rísa á reit sem áður hýsti strippbúllu).

Sem betur fer varð ekkert af Frakkastígshugmyndunum. Alveg eins og það verður ekkert af LHÍ við Austurstræti. Húsið er friðlýst og ég sé ekki fyrir mér að málað verði yfir veggmyndirnar þarna inni til að búa til hvíta eða svarta sýningarsali.

 

LHÍ gæti verið vel staðsettur á háskólasvæðinu. Svo mætti íhuga að hafa hann á Lauganesinu þar sem myndlistardeildin er núna. Listnemar eru ekki skraut, og háskólar eiga að hafa pláss til að stækka. Eftir áratug verður kannski tekin ákvörðun um að hafa kvikmyndadeild við háskólann (miðað við að LHÍ varð til þegar myndlistarskólinn, leiklistarskólinn og fleiri skólar runnu saman þá finnst mér ekki fáránleg tilhugsun að sjá kvikmyndaskólann renna þangað inn líka).

Þá yrði að reisa kvikmyndastúdíó ofan á allt annað.

Grjót æðra listinni

Á sama tíma og forsætisráðherra eyðir 500 milljónum í að færa grjót milli staða og dútla sér við að endurhanna hinn mjög svo ofmetna Guðjón Samúelsson er LHÍ húsnæðislaus og hefur verið frá upphafi. Að hluta til er þetta vegna lítils menningarlegs metnaðar hjá stjórnmálamönnum, en þeir hafa vanrækt að reisa hús fyrir íslensku handritin (sem við ættum eiginlega bara að skila til Danmerkur fyrst við getum ekki drattast til að sýna þau í veglegu safni) eða bara metnaðar almennt. (Það hefur líka staðið býsna lengi til að ný stjórnarskrá líti dagsins ljós, eiginlega síðan 17. Júní 1944).

Alveg eins og handritin eiga nemendur í listaháskóla (sem borga hæstu skólagjöld á Íslandi!) skilið að leggja stund á list sína í almennilegu húsnæði. En af einhverjum ástæðum hefur það ekki enn gerst, og hluti af ástæðunni er sú að þeir ávallt haft skólastjórn með miðbæinn á heilanum. Það er auðvelt að sjá fyrir sér skrifstofurými skólans í gömlu landsbankabyggingunni en fátt annað því miður.

Að því sögðu þá finnst mér sorglegt að hugsa til þess að kennslan fari fram ennþá úti um allan bæ.

Þegar ég byrjaði í leiklistarnámi var kennt í hripleku rými á Sölvhólsgötu. Fyrstu önnina var hávaði út af stöðugum viðgerðum. (Árinu áður hafði starfsfólki skyndilega verið tilkynnt að rífa ætti húsið án þess að leiklistardeild og tónlistardeild hefði verið fundið annað rými, það reyndist misskilningur, en hefði kannski verið framför).

Tónlistarfólkið sem við deildum húsinu með var frábært, en það voru átök á milli okkar oft á tíðum. Við trufluðum æfingar þeirra með hrópum og ólátum, en restina af deginu þurftum við að þola óminn af fiðluspili og síendurteknum frösum af sama lagi, allan daginn. (Þetta var fagfólk sem spilaði vel, en það er engin unun að hlusta á sama tónskalann aftur og aftur fyrir því).

Mér finnst sorglegt að hugsa til þess að núna tíu árum síðar er ástandið ennþá það sama. En það er kannski bara lúxusvandamál, það átti líka að vera löngu búið að reisa hátæknisjúkrahús, hús íslenskra fræða og Vaðlaheiðagöng. (Nei, heyrðu bíddu við, það fundust peningar í Vaðlaheiðagöng!)

 

P.S.
Ef einhvern tímann verður af þeirri brjálæðislega glötuðu hugmynd að planta listaháskólanum í miðbæjinn, ekki láta nemendur þurfa að gjalda þess hversu hátt fermetraverðið er í þeirri hótelparadís. Skólagjöld þeirra fyrir hverja önn eru nú þegar svimandi há, sem er ótrúlega óréttlátt miðað við hversu lágar framtíðartekjur nemenda eru yfirleitt.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni