Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Bandaríski sósíalistaflokkurinn sigrar í Oklahoma

Bandaríski sósíalistaflokkurinn sigrar í Oklahoma

Á netinu er núna urmull greina og greininga á ofur-þriðjudeginum. Tólf bandarísk fylki kusu í gær í prófkjörum repúblikana og demókrata, flest í suðrinu.

Ted Cruz kemur á óvart á meðal Repúblikana

Kanadísk-kúbanski ofsatrúarmaðurinn sem vill að við trúum því að hann steiki beikon með hríðskotara kom á óvart með því að sigra í nokkrum fylkjum. Sigurinn í Texas var kannski ekki óvæntur þar sem hann er þingmaður fylkisins, en sigrarnir Alaska og Oklahoma voru ekki fyrirséðir. (Síst af öllu Oklahoma þar sem skoðanakannanir sýndu Trump með 12% forskot).

Marco Rubio vann sitt fyrsta fylki líka, Minnesota, en það er of lítið ,of seint. Sumir vilja meina að ef Cruz, Rubio og Kasich nái fylkjum eins og Ohio eða Florida væri hægt að koma í veg fyrir hreinan meirihluta Trump á landsfundi repúblikana, og þar með búa til möguleikann á að fulltrúar þar neyðist til að semja um nýjan frambjóðanda. Það eru sennilega draumórar, en yrði athyglisvert að fylgjast með ef rætist úr því.

Það yrði þá í fyrsta skipti sem frambjóðandi sigraði í flestum fylkjum, á fyrsta þriðjudegi marsmánaðar, og yrði ekki forsetaefni flokksins.

Eins og staðan er núna þá þarf u.þ.b. 1200 stig, Trump er kominn með 285, Cruz 161 og Rubio 87. (Jájá, Carson 8 og Kasich 25 ef þið viljið telja þá með).  Höfum í huga að sterkustu fylki Cruz, suðurríkin eru flest búin að kjósa, svo það er ólíklegt að hann safni mörgum fleiri stigum. Rubio gæti náð einhverjum miðvesturríkjum en tapar líkast til heimafylki sínu Florída.

Arftaki Eugene Debs sigrar í Oklahoma

Hver í fjandanum er Eugene Debs?

Gott að þú spurðir. Eugene Debs var einn af stofnendum bandarísku verkalýðshreyfingarinnar. Hann stofnaði samtök slökkviliðsmanna og síðan járnbrautastarfsmanna (sem var fyrsta verkalýðsfélag iðnaðarmanna í Bandaríkjunum).

Þetta var um lok nítjándu aldar. Á þessum tíma höfðu repúblikanar stýrt Bandaríkjum um áratugaskeið (enda höfðu þeir leitt norðurríkin til sigurs í borgarastyrjöldinni og frelsað þrælana fyrir nokkrum áratugum), en demókratar voru á hliðarlínunni (enda sóttu þeir fylgi sitt mest suður).

Eugene Debs og svipaðir verkalýðsforkólfar nýttu sér tómarúmið á meðal demókrata í norðurríkjunum til að bjóða sig fram undir þeirra formerkjum. Valdaflokkurinn, repúblikanar, var í höndum iðnrekenda og bankastjóra, en demókratar voru í mótun. Eugene Debs og fleiri sáu möguleikann á því að breyta gamla flokki plantekrueigendana í vinstrisinnaðan flokk.

Eugene fór á þing um svipað leyti og fyrsti demókrataforsetinn í áratugi fór í hvíta húsið. Grover Cleveland var þó tóm vonbrigði.

Þegar Eugene tók þátt í að skipuleggja verkfall járnbrautastarfsmanna árið 1894 sendi forsetinn herinn út til að opna aftur járnbrautalínurnar. Eftir það gafst Eugene upp á demókrötum og stofnaði sósíalistaflokk Bandaríkjanna.

Þessi flokkur átti stutt blómaskeið í byrjun 20. aldar. Sósíaldemókratinn Eugene bauð sig fram til forseta fjórum sinnum (í síðasta sinn úr fangelsi), en í kosningunum 1912 náði hann 5% á landvísu. (Þar að auki náðu ýmsir sósíalistar inn á þing).

Kosningarnar 1912 eru reyndar athyglisverðar fyrir þær sakir að í þeim eru fjórir flokkar að keppast. Framsóknarmenn (progressives) undir forystu fyrrum forsetans Theodore Roosevelt, sitjandi repúblikana-forseti Taft (sem hafði verið arftaki Roosevelts þegar hann fór frá) og Woodrow Wilson fyrir hönd demókrata.

En hverjum er ekki sama um Eugene Debs?

Ekki Bernie Sanders

Ungur stjórnmálafræðingur skrifaði ævisögu Eugene Debs stuttu eftir útskrift, en í henni er rakið hvernig Eugene varð smám saman róttækari, hvernig hann andmælti stríði Wilsons og var loks handtekinn fyrir föðurlandssvik. (Debs var ekki hrifinn af þátttöku Bandaríkjanna í fyrri heimsstyrjöld).

Markmið Eugene á upphafi ferils síns var að gera demókrata að vinstriflokk, en að lokum gerðu demókratar hann að föðurlandssvikara. Það er kannski erfitt að ímynda sér það, en fyrir fyrri heimsstyrjöld voru margir opinskáir sósíalistar í Bandaríkjunum og það, bæði í repúblikana og demókrata flokki. Theodore Roosevelt reyndi að umbreyta repúblikönum, og tókst meira að segja að brjóta banka í sundur (því völd þeirra ógnuðu stjórnskipulagi Bandaríkjanna og efnahagi heimsins). Síðar átti frændi hans Franklin Roosevelt eftir að njóta stuðnings róttæklinga í því að koma New Deal í gegn.

En jæja. Það er svolítið athyglisvert að maðurinn sem ritaði ævisögu Eugene Debs, og hefur ljósmynd af honum hangandi inn á skrifstofu sinni, (og hefur haft síðan hann varð bæjarstjóri Burlington í Vermont), hafi unnið forval demókrata í Oklahoma.

Í Oklahoma!

En hver er arftaki Wilsons?

Hillary Clinton hafði sigur í flestum fylkjana 12. Heimafylki hennar Arkansas ætti ekki að koma á óvart, né Texas. Suðurríkin eru heimili íhaldssamra demókrata, þau færa þeim aldrei kosningasigra því þau eru enn sem komið er öruggt vígi fyrir repúblikana, en þjóna þeim tilgangi að halda demókrötum inn á miðju.

Eftir ofur-þriðjudag er íhaldsamasti frambjóðandi demókrata yfirleitt komiinn með dágott forskot á keppinauta sína. Það var þarna sem John Kerry náði forskoti á keppinautum sínum, það var þarna sem Al Gore (sem var fyrst þingmaður Tennessee áður en hann varð varaforseti) tryggði sér útnefningu demókrata kosningarnar 2000. Það var líka á ofur-þriðjudegi sem Bill Clinton náði forskoti eftir að hafa tapað bæði Iowa og New Hampshire.

Er Hillary Clinton arftaki Woodrow Wilsons, bandaríkjaforsetans sem kom á aðskilnaðarstefnu innan hersins og gerði tilraun til að koma Bandaríkjunum í þjóðabandalagið? Hvað varðar hugmyndafræði þeirra á sviði utanríkismála þá mætti jánka því.

Wilson vildi Bandaríki sem væru virk á alþjóðavettvangi og myndu nota herafla sinn til að styðja við lýðræði út um allan heim. Hillary Clinton gæti fengið stuðning Neo-Con-hugmyndafræðinga ef Trump verður forsetaefni repúblikana. Hún þiggur ráð frá Henry Kissinger, og hefur stutt allar hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna síðan hún fór út í pólitík. 

Sanders tjáir sig lítið um utanríkismál, en það er athyglisvert að hann skyldi hafa heimsótt Nicaragua þegar hann var bæjarstjóri Burlington, til að andmæla afskiptum Reagan af borgarastyrjöldinni þar í landi. Og að bæjarfélagið skyldi hafa andmælt landnemabyggðum Ísraela í Palestínu á svipuðum tíma. Bernie er svo sannarlega ekki einn af stríðshaukunum svokölluðu.

Hvað svo sem manni kann að finnast um líkur hans á sigri gegn Hillary þá er athyglisvert að sjá þessar tvær hliðar demókrataflokksins takast á aftur. Sósíaldemókratarnir hafa snúið aftur úr útlegð sinni, inn í demókrata til að berjast fyrir völdum, og takast á við íhaldsömu öflin í suðurríkjunum (sem á sínum tíma völdu Wilson, Jimmy Carter og Clinton), í baráttu um eðli flokksins.

Því fleiri fulltrúa sem Bernie safnar því meiri áhrif hefur sú hlið á landsfundi demókrata. Bernie gæti án þess að verða forsetaefni flokksins átt þátt í að gjörbreyta stefnu hans og fjarlægja aldarlangt stigma sem hvílt hefur á orðinu sósíalismi.

En þótt Hillary hafi unnið í suðurríkjunum þá er of snemmt að afskrifa Bernie. Þetta voru ríkin sem hún er sterkust í. Framundan er ryðbeltið svokallaða. Þar eru mikið af verkamönnum sem eru reiðir yfir því að verksmiðjustörfin séu farin til Kína.

Góðar veiðilendur fyrir bæði Bernie Sanders og Donald Trump.

Og hvernig í ósköpunum fór arftaki Eugene Debs að því að vinna Oklahoma?

Oklahoma, sem er nágrannaríki Arkansas, og þar sem flestir demókratar telja sig íhaldssama.

Ég klóra mér á hausnum yfir því.

Hver veit nema við eigum í vændum forsetakosningar í líkingu við árið 1912, ef að milljarðamæringurinn og fyrrum borgarstjóri New York, Michael Bloomberg býður sig fram þá gætu hófsamir repúblikanar, íhaldsamir demókratar og alls kyns flökkufylgi sópast inn í nýjan flokk. (Framboð Bloomberg myndi líka kallast á við Ross Perot sem fékk 20% atkvæða 1992, en í stefnumálum og persónuleika á Perot sennilega meira sameiginlegt með Trump).


P.S.
Hér er annars skemmtileg tilvitnun í Eugene Debs sem hljómar býsna pírataleg:
I am not a Labor Leader; I do not want you to follow me or anyone else; if you are looking for a Moses to lead you out of this capitalist wilderness, you will stay right where you are. I would not lead you into the promised land if I could, because if I led you in, some one else would lead you out. You must use your heads as well as your hands, and get yourself out of your present condition.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni