Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Listaháskólinn í Breiðholtinu

Listaháskólinn í Breiðholtinu

Ef við getum verið sammála því að listaháskólinn sé betur staðsettur þar sem hann hefur pláss til að stækka, þá þurfum við að leita uppi staðsetningu þar sem hann hefur pláss til að dafna. Ég held að við getum hæglega afskrifað hugmyndir um að planta háskólanum í 101 Reykjavík, miðað við þarfir skólans fyrir hljóðeinangruð stúdíó, svartmáluð leikhúsrými, stóra kennslusali, sýningarrými og ótal verkstæði. Listaháskólinn er nú þegar stofnun með hundruðir nemenda og starfsfólks, en er að bæta við mastersnámum og hver veit hvað fleira bætist við í framtíðinni. Hvaða rýmisþarfir hefur óperunám, sviðsmyndahönnun eða kvikmyndagerð? (Aðalbygging háskóla Íslands var reist fyrir 76 árum, og það er með árhundruðir í huga sem þarf að reisa háskólabyggingar, svo ég ætla ekki að þykjast vita hvað LHÍ þarf árið 2089 en svo mikið er víst að hann þarf ekki friðlýst hús).

Eini reiturinn í miðbænum sem hugsanlega gæti dugað undir framtíðar listaháskóla er sá sem Landsbankinn hefur hugsað undir sjálfan sig (en það eru reyndar mistök hjá bankanum, fjármálastofnanir eiga heima í Borgartúni eða álíka hverfi . . . og ég skora á ykkur að nefna einhverja borg þar sem bankahöfuðstöðvar viðskiptabanka eru í sögulega miðbænum. Hér í París safnast bankar allir út í skýjakljúfahverfið La Defense og láta kaffihús og hótel um nítjándu aldar hverfin).

Það eru tveir kostir sem mér finnst ágætir:

A. Ef það er ekki of seint reyna að endurheimta upprunalega reit sinn nærri Öskju. Fyrir utan nánd við aðrar háskólastofnanir, bókasöfn og mötuneyti, þá er hérna kominn kostur á þægilegu samstarfi við norræna húsið eða þekkingarfyrirtæki eins og Íslenska Erfðagreiningu.

B. Lauganesið. Á reitnum þar sem myndlistadeild skólans er húsuð í gömlu sláturhúsi er ágætispláss til að byggja. Þetta gæti verið þægilegt fyrir nemendur (það er sundlaug nærri), myndi lífga upp á hverfið, er nærri hjarta borgarinnar. 

Hafi einhver áhyggjur af því að ekki verði nóg af kaffihúsum fyrir listaskólanema þá bið ég þá vinsamlegast að hafa meiri trú á ósýnilegri hönd markaðarins. 500 nemendur í listsköpun munu kalla fram að lágmarki þrjú ný kaffihús í hverfinu, þar af eitt með stöðugum happy-hour á krananum og góðu wifi.

En það er ekki þar með sagt að það séu einu kostirnir. Ég skellti Breiðholtinu hérna í fyrirsögn svona út í loftið, (ég hallast sjálfur helst að kosti B), en ég skal færa rök fyrir því.

C. Það er ódýrt fyrir nemendur að leigja í Breiðholtinu (miðað við t.d. í þingholtunum) það er nóg af þjónustu þar og hverfið er spennandi að vinna með í listsköpun á almannavettvangi. Þetta er stærsta innflytjendahverfi Reykjavíkur og í mótun, Listaháskóli á svæðinu myndi eiga mun stærri þátt í að móta það heldur en hann myndi nokkurn tímann ná að móta eða glæða lífi í miðbæ Reykjavíkur.

Listaháskólanemar eru ekki skraut til að skemmta túristum, en ef okkur dreymir um einhvers konar hipster-væðingu í Breiðholtinu, þannig að eitthvað mótvægi myndist við miðbæinn (þangað sem öll menning virðist sogast) þá er þetta staðurinn.

Þetta er staður þar sem gætu sprottið upp ótal fleiri listagallerí, kaffihús, staður með einangruðum þjóðfélagshópum sem hefðu gagn af samskiptum við listaskólanema (rétt eins og þeir hefðu gagn af þeim).

Það gæti verið mjög rómantískt og fallegt allt saman.

En segjum þetta gott í bili. Það mikilvægasta er núna að verða sammála um einhvern stað, fá góðar tillögur að byggingunni (sem vonandi yrði teiknuð af fyrrum nemanda . . . af því það væri skemmtilegt að segja frá því), og reisa hús sem myndi duga listmenntun á Íslandi til næstu hundrað ára.


P.S.
Þetta þarf ekki að vera neitt tröll, þessi bygging, bara falleg og praktísk. Við erum ekki að tala um neina Hörpu hérna, við þurfum ekki að slá Íslandsmet í steypu, ég held miklu frekar að við ættum að stefna að húsi sem er í sátt við umhverfi sitt og helst sjálfbært.

P.P.S.
Listnám á Íslandi er fáránlega dýrt. Ný listaháskólabygging verður ekki reist með því að hækka skólagjöld nemenda við skólann nema einhverjum finnist eðlilegt að borga milljón fyrir önn (í landi sem þykist bjóða upp á ókeypis menntun).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu