Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Leikskólakennarinn og bankastjórinn

Ætti leikskólakennarinn að borga sömu upphæð fyrir nám sitt og bankastjórinn? Já, segir menntamálaráðherra, en nýja frumvarp hans afnemur tekjutengingu til námslána og hækkar vexti. Námslán verða þar með ekki bara dýrari, heldur jafndýr óháð stöðu einstaklingsins. Fjármálaverkfræðingurinn með tvær milljónir á mánuði greiðir sömu upphæð og hjúkrunarfræðingurinn sem nær ekki einu sinni helmingnum af sömu launum þótt hann tæki allar aukavaktir í boði. Er það sanngjörn niðurstaða?

Allt nám á Íslandi er niðurgreitt hvort sem það er Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands eða sjálfseignarstofnun eins og Listaháskólinn. Eins furðulegt og það kann að hljóma eru skólagjöld við Listaháskólann langhæst og niðurgreiðslan langminnst þrátt fyrir að meðaltekjur útskriftarnema jafnist seint á við önnur háskólanám.

Gott samfélag býður fólki upp á valfrelsi í lífinu. Okkur er frjálst að velja starf við hæfi, og einungis örfáir gera tekjurnar að aðalatriði. Ef svo væri þá færu fleiri í iðnnám til dæmis. En svo virðist vera sem lægri tekjumöguleikar hafi einhver áhrif, t.d. er framundan mikil krísa í að manna kennarastöður á næstu árum og áratugum. Þar ber menntamálaráðherra ekki síður ábyrgð, en kannski meira um það síðar, hvað með upprunalegu spurninguna, ættu námslán að vera dýrari og ættu leikskólakennarar að borga jafnmikið og bankastjórar?

Svarið er augljóst. Það er nei. Því jafnvel fjármálaverkfræðingar geta handleggsbrotið sig á skíðum og þá væri gott að hafa bæði sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga. Og jafnvel bankastjórar eignast börn.

Að breyta hluta af námslánum í námsstyrk er góð hugmynd, en það er afleit hugmynd að hækka vexti á hinum hlutanum og afnema tekjutengingar. Niðurstaðan væri óréttlátara samfélag og það er nógu óréttlátt fyrir. Bankastjórinn myndi ekki finna fyrir vaxtahækkuninni, en bókasafnsfræðingurinn, grunnskólakennarinn og meirihluti fólks í heilbrigðisgeiranum myndu gera það. Þeir sem eiga mikið þurfa ekki alltaf meira, og þeir sem eiga minna ættu ekki alltaf að borga sömu upphæð og þeir.

E.S.
Og hvað er málið með að leyfa fólki ekki að fá lán fyrir doktorsnámi? Heldur fólk að það verði minni þörf á hámenntuðu fólki á 21. öldinni?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu