Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Fyrir hvern eru þjóðaratkvæðagreiðslur?

Fyrir hvern eru þjóðaratkvæðagreiðslur?

Svarið felst svo augljóslega í spurningunni. Atkvæðagreiðslan er fyrir þann sem greiðir atkvæðið, þ.e.a.s. þjóðina sjálfa. 

Þess vegna þarf einmitt stjórnarskrá sem gerir ráð fyrir því að þjóðin geti kallað eftir atkvæðagreiðslunni og að farið verði eftir henni.

Á síðustu árum hafa verið ótal þjóðaratkvæðagreiðslur og mikið rifist um hvort þær séu af hinu góða. Að mínu mati eru svona atkvæðagreiðslur, þegar þær eru bindandi og niðurstaðan þar með talið virt, góð leið til að útkljá erfið og heit deilumál. Sum mál eru þess eðlis að þótt þjóðkjörið þing vilji eitthvað þá er ekki augljóst að það sé vilji meirihluta þjóðarinnar. ESB-aðildarviðræður eru eitt dæmi þar sem skoðanakannanir stangast á við vilja þingmeirihluta ítrekað. Icesave málið var annað. (Icesave atkvæðagreiðslurnar eru gott dæmi um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem batt enda á langvarandi deilur).

En í öllu falli er ómögulegt að hafa góðar atkvæðagreiðslur nema upplýsingagjöf og gegnsæi er fyrir hendi. Þá er gott að hafa langan aðdraganda.

Ástæða þess að ég skrifa þetta er hvernig mér finnst stjórnmálamenn hafa misnotað þjóðaratkvæðagreiðslur. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla er móðgun við þátttakendur. Það getur verið ágætt að segja að til að atkvæðagreiðsla sé bindandi þurfi ákveðið marga þátttakendur, en að hunsa atkvæðagreiðslu með háu hlutfalli kjósenda er einfaldlega ólýðræðislegt. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla býður bara upp á að stjórnmálamenn fari að túlka niðurstöðurnar. Þeir eru býsna margir góðir túlkendur, sér í lagi þeir sem hafa lögfræðimenntun. En hver er munurinn á því að gera dyra-at og að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu sem þú ætlar bara að nota sem rökræðupunkt en ekki fara eftir?

Þjóðin á að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur sýnt sig að það er vel mögulegt að safna tugþúsundum undirskrifta fyrir málefni sem skipta fólk máli. Hvort sem um 53 þúsund undirskriftir fyrir atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að ESB er að ræða, staðsetningu innanlandsflugs eða uppboði á kvóta er að ræða.

Allt þrennt mætti mín vegna fara í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu enda hafa tugþúsundir Íslendinga lýst yfir áhuga sínum á því.

Því miður virðast stjórnmálamenn þó ekki vilja sleppa völdunum í raun. Þeir dingla á bjöllu þjóðaratkvæða og hlaupa svo undan flissandi, eins og litlir krakkar í dyra-ati. En mér finnst komið nóg af svona tímasóun og væri alveg til í að við bara kláruðum nokkur atriði með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Geri ráð fyrir að þeir sem vilja kjósa um flugvöll í Vatnsmýri séu til í að hafa ESB-umsókn og uppboð á makrílkvóta á kjörseðlinum líka. Og hafa niðurstöður bindandi, þarf ekki að kosta mikið, gerum þetta bara meðfram alþingiskosningum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni