Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Í skjól fyrir jól

Ef ég væri framsóknarmaður myndi ég eflaust leggja til að þetta yrði slagorð flokksins. Því þetta hljómar eins og það loforð sem myndi skila mestum atkvæðum. Taktu 100% lán og hafðu engar áhyggjur. Ef eitthvað kemur upp á notum við bara lífeyrissparnaðinn þinn til að borga fyrir steinsteypuna. Ég meina, fasteign er sparnaður ekki satt?

Það er freistandi að líta á fasteign sem „asset“ frekar en „liability“, staðreyndin er þó sú að við þurfum flest að búa einhvers staðar og það kostar pening, en stundum má vona að með smá heppni komi maður út úr þessu án þess að tapa of miklu. Steypa er aldrei örugg fjárfesting, en í lokuðu haftahagkerfi er stundum um illskásta kostinn að ræða. Það er samt gott að hafa í huga að blokkaríbúð kemur ekki í staðinn fyrir lífeyrissjóð eða séreignarsparnað.

En erum við að berja hausinn við steininn til að viðhalda séreignarstefnu sem gengur ekki endilega upp fyrir alla tekjuhópa?

Reyndar berjum við hausum reglulega við steina: Húsnæðiskostnaði er viðhaldið of háum, gjaldeyrisstefnan leiðir til þess að til að greiða af þessum alltof háa kostnaði tökum við alltof há lán, og þau eru svo með alltof háa vexti.

Að leigja er ekki valmöguleiki. Samt er fullt af fólki á hinum Norðurlöndunum sem leigir alla ævi og sparar samt til elliáranna. Þar eru leigufélög rekin af sameignarfélögum og stéttarfélögum, og virðist ganga nokkuð vel.

Það væri til mikils að vinna ef leigumarkaður á Íslandi væri stöðugri. Að fólk gæti leigt ódýrt og til langframa. Ef það er hægt í Þýskalandi, Svíþjóð eða Spáni, hví ekki hér? Í 50 þúsund manna borginni Kalmar eru 5000 leiguíbúðir. Og fólk sem býr í leiguhúsnæði í Svíþjóð ber því ágætlega söguna:

Þegar fjölskylduaðstæður breytast er auðvelt að breyta um íbúðastærð. Í boði eru litlar og stórar íbúðir, raðhús og einbýlishús. Og auðvitað íbúðir fyrir eftirlaunaþega. Á sanngjarnri leigu. 

Að sjálfsögðu geta leigjendur treyst því að leigan er æfilangt. Enginn missir leiguíbúð svo fremi hann greiði leiguna og gangi vel um.

Ekki er hægt að hækka leiguna nema semja um það við leigjendasamtök sem semja fyrir alla leigjendur. Auðvitað er frjálst að vera í slíkum samtökum. Leigan er því yfirleitt sanngjörn.

Lög tryggja að leigusalar þurfa að halda við íbúðum og þjónusta.

Ég leigi og bý t.d. í íbúð þar sem fylgir þvottavél og þurrkari. Hér um daginn bilaði þvottavélin og daginn eftir var komin ný. Þetta er aðeins lítið dæmi. 

Þannig er reyndar staða leigumála um öll Norðurlönd.

Og þykir sjálfsögð.

Nema á Íslandi.

Skrifaði Þórhallur Heimisson prestur um reynslu sína af Svíþjóð. Og svona er þetta víða á Norðurlöndum, spyrjið bara ættingja og vini. Það er mikilvægt að muna að þetta eru ekki félagsíbúðir. Efnað fólk leigir líka, en leiga hentar líka tekjulágum. 

Auðvitað mun ég seint halda því fram að leigumarkaður í Svíþjóð sé fullkominn, þar eru langir biðlistar (en fólk á móti skráir sig inn á þá á unglingsaldri), og erfitt að finna góða skammtímaleigu. En á móti kemur að þegar maður leigir íbúð getur maður treyst því að ekki sé okrað á manni. Það var í það minnsta mín reynsla af tveggja ára dvöl í Svíþjóð.

En ættu ekki allir bara að kaupa íbúð? Þannig hefur það alltaf verið hér.

Nei.

Samfélög sem þvinga alla í sama hólf eru ekki góð samfélög. Samfélög sem þvinga fólk til að kaupa húseignir sem það ræður ekki við að kaupa af því að hinn valkosturinn er enn hrikalegri eru meira að segja slæm. Lífið ætti ekki að vera valmöguleiki á milli Donald Trump eða Hillary Clinton. Lífið tekur nefnilega alls kyns breytingum, fjölskyldur stækka og svo minnka þær aftur þegar börn flytja að heiman. Stór leigufélög með mismunandi íbúðum bjóða upp á sveigjanleika sem séreignarstefnan býður ekki upp á. Fólk getur svissað á milli íbúða í stað þess að þurfa að fara út í tugi milljón króna fjárfestingar bara af því það þarf að bæta við barnaherbergi.

Eftir sem áður munu flestir Íslendingar vilja eiga. Það skýrist fyrst og fremst af því hingað til hefur húsnæði verið nánast eini almennilegi sparnaðurinn því gjaldmiðillinn er óstöðugur, bankarnir oft illa reknir og ávöxtun lífeyrissjóða ekki nægileg. Við deilum mörgu með Grikklandi, þar sem óstöðugleiki drökmunnar leiddi til offjárfestinga í steypu.

Sem er algjör steypa.

Stjórnvöld hafa því miður ekki sýnt áhuga á því að hjálpa leigjendum. Samt er það sá hópur sem fór verst úr hruninu. Sá hópur sem sárlega þarfnaðist, og þarfnast enn leiðréttingar á kjörum sínum.

Spáið bara í það hvernig það er að vera talinn of fátækur af bönkum til að fá húsnæðislán en samt þurfa að greiða um 200 þúsund krónur í leigu mánaðarlega svo þú og börnin þín hafi húsaskjól. Að bjóða slíku fólki upp á séreignarsparnaðarleið er bara ósmekklegur brandari, fjölskylda í þannig stöðu hefur aldrei neitt afgangs til að spara.

En hvernig væri það ef fólki byðist að leigja ódýrt? Gera samninga til margra áratuga líkt og í öllum öðrum Evrópulöndum? Fjölskyldur sem væru að greiða um 100 þúsund eða minna mánaðarlega fyrir húsaskjól sitt gætu vel sparað, þær gætu líka notið þess að borða góðan mat og jafnvel ferðast. Hagkerfið þarfnast einmitt þess stöðugleika sem gott og ódýrt leigukerfi skapar. Í stað þess að þriðjungur þjóðarinnar skrimti við hungurmörk til að borga fyrir steinsteypu (sem er ekki víst að hún hafi efni á þegar öllu er á botninn hvolft), yrðu þetta áhyggjulausir neytendur sem myndu halda uppi atvinnu og menningarlífi landsins.

Þetta er ekkert ómögulegt fyrst að aðrar þjóðir geta það. Það þarf bara pólitískan vilja. Samfélag með valmöguleikum er gott samfélag. Bjóðum upp á leigu sem möguleika.

E.S.

Í skjól fyrir jól er ekki kosningaloforð sem ábyrgt stjórnmálaafl getur boðið upp á. Styrking leigumarkaðar á Íslandi er langtímamarkmið, en það er langtímamarkmið sem ég tel að við verðum að stefna að til að ná jafnvægi í efnahaginum og stöðugleika. Að þessu sögðu vona ég að þessi skrif mín verði öllum stjórnmálaflokkum, bæði Pírötum (sem ég tek þátt í) og öllum hinum, hvatning til að hugsa málin upp á nýtt.

Mótum stefnu sem er ekki fjandsamleg leigjendum. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni