Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Verða íbúar Reykjanesbæjar fluttir í burtu?

Verða íbúar Reykjanesbæjar fluttir í burtu?

Myndin hér að ofan er af Facebook-síðu sem ber heitið Helguvík: Vilt þú njóta vafans? Að síðunni stendur hópur bæjarbúa í Reykjanesbæ sem vill vekja íbúa bæjarins til vitundar um þá miklu stóriðju sem fyrirhugað er að koma upp í Helguvík og hugsanlegar afleiðingar hennar fyrir heilsu og velferð manna og dýra.

„Út í Helguvík“ hljómar kannski svolítið fjarrænt – eins og víkin sé langt í burtu – en þannig er það nú ekki.  Á þessari afstöðumynd hafa teikningar af fyrirhuguðum verksmiðjubyggingum í Helguvík verið felldar inn í Google Earth í réttum stærðarhlutföllum. Eins og sést er ekki nema um kílómetri frá fyrirhuguðum kísilmálmverksmiðjum að hesthúsahverfinu að Mánagrund og ekki nema um  1,5km frá nyrstu og vestustu hverfum bæjarins. Norðurál hefur hafið byggingu álvers sem er enn nær hesthúsabyggðinni.  Reynslan af slíku nábýli við stóriðju er ekki góð eins og t.d. íbúar í Hvalfirði hafa fengið að kynnast. Við höfum nefnilega vítin til að varast.  Reyðarfjörður er nýjasta dæmið, Grundartangi er fyrir löngu þekkt dæmi og svo þekkjum við hörmungasöguna af Hellisheiði. Allt átti þetta að vera „innan marka“ eða hafa „óveruleg umhverfisáhrif“ í matsskýrslum en reyndin varð síðan allt önnur.

Í nýlegu áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskýrslu vegna kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík er stuðst við sérfræðiálit Sigurðar Magnúsar Garðarssonar, prófessors við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands. Lokaorðin í áliti hans eru svohljóðandi:  

Með hliðsjón af óvissu í útreikningum og reynslunni frá Grundartanga er rétt að íhuga hvort ekki eigi að sannreyna spárnar með vöktun eftir að rekstur hefst.“

Nei, bæjarbúar vilja ekki verða gerðir að tilraunadýrum í lýðheilsutilraun stóriðjunnar í Helguvík.  Það er nefnilega ekkert betra að anda að sér eiturlofti þótt það sé vaktað.  Hópurinn telur allof mörg vafaatriði í umhverfismatinu og vill að heilsa manna og dýra fái að njóta vafans.

Hópurinn stóð í kvöld að fundi fyrir troðfullu húsi á Mánagrund með hestafólki, sem hefur eðlilega áhyggjur af framtíð hesthúsahverfisins og velferð dýranna. Frummælendur á fundinum voru Ragnheiður Þorgrímsdóttir, bóndi á Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit og Sigurður Sigurðsson, dýralæknir. Ragnheiður sagði  frá áralangri baráttu sinni vegna meintrar mengunar frá stóriðjunni á Grundartanga. Í baráttu sinni við afbrigðileg veikindi vegna flúormengunar hefur hún þurft að fella 12 hross á nokkrum árum. Hún hefur skrifað athyglisverða og sláandi greinargerð um málið.

Sigurður greindi frá reynslu sinni af veikindum hrossa og búfénaðs  í nálægð við stóriðju. Eftir Sigurð liggja fjölmargar greinar í erlendum vísindatímaritum og í íslenskum fagblöðum landbúnaðarins. Hann hefur nýlega gefið út bók sem fjallar m.a. um áhrif flúormengunar á hross og aðra grasbíta á Íslandi.

Erindi þeirra beggja voru sláandi. Þegar Sigurður var spurður af einum fundargesta hvað hann gæti ráðlagt bæjaryfirvöldum í  Reykjanesbæ var svarið á þá leið að annað hvort yrði að flytja íbúa Reykjanesbæjar í burtu, líkt og gert er í Kína, eða hætta við þessa stóriðju.

Það fer greinilega illa í forsvarsmenn Norðuráls að fólk fái upplýsingar aðrar en þær sem þeir sjálfir skammta. Fyrir hádegi sendu þeir meil á alla bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ í því skyni að gera frummælendur fundarins ótrúverðuga. Eftir hádegi pönkuðust þeir svo í formanni hestamannafélagsins og um kvöldið sendu þeir mann með upptökukameru á fundinn.  Svona eru nú vinnubrögðin á þeim bænum  og ekki við öðru að búast.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu