Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Nýtt ofþenslurugl í Helguvík?

Nýtt ofþenslurugl í Helguvík?

Mikil umræða er nú meðal íbúa suður með sjó um fyrirhugaða stóriðjuvæðingu í Helguvík. Þar stendur til að byggja tvær feikna stórar kísilmálmverksmiðjur auk þess sem þegar er hafin bygging álvers.  Framkvæmdir við það hafa hins vegar legið niðri um tíma en ekki er að heyra á forsvarsmönnum Norðuráls að þeir séu hættir við áform sín. Þeir virðast því bíða eftir réttu aðstæðunum, sem felast í því að heimsmarkaðsverð á áli hækki á ný eða skipt verði um forstjóra í Landsvirkjun og þar settur inn einhver sem er undirgefnari iðnaðarráðherranum heldur en sá sem nú situr.

Íbúar í Reykjanesbæ gætu því einn góðan veðurdag verið komnir með þrjár eiturspúandi stórverksmiðjur aðeins örskammt frá íbúabyggð þar sem helstu frístundasvæði bæjarins lenda innan þynningarsvæðis.  Það stefnir í að sjóndeildarhringur okkar verði varðaður með 52 metra háum verksmiðjustrompum í Helguvík og tröllvöxnum háspennulínum á 30 metra háum stálgrindarmöstrum í tvöfaldi staurastæðu eftir endilöngum Reykjanesskaganum þegar Landsnet hefur lagt nýja Suðurnesjalínu 2.  Og við erum að tala um innganginn í landið okkar á gríðarlegum vaxtartímum í ferðaþjónustu landsins.  Þetta getur ekki verið gott fyrir ímyndina!

Stóriðjusinnar hafa ávallt haldið því á lofti að forsenda fyrir atvinnutækifærum á Suðurnesjum væri stórfelld stóriðjuuppbygging í Helguvík.  Eftir Hrun var 15 - 17% atvinnuleysi á Suðurnesjum en er núna komið niður í 5% þrátt fyrir að álver eða önnur stóriðja hafi EKKI farið í gang. Þessi rök halda því ekki.  Í þeirri umræðu sem nú fer fram heyrast samt sem áður enn og aftur upphrópanir í þessa veru: Það vantar vinnu fyrir fólkið!
Á sama tíma les maður fréttir eins og þessa hér  um mikla fækkun á atvinnuleysisskrá og að fyrirtæki t.d. í flugþjónustu á Keflavíkurflugvelli þurfi að leita út fyrir svæðið eftir starfsfólki.

Það er alveg klárt mál að atvinnuleysi verður ekki útrýmt með verksmiðjum.  Menn geta byggt verksmiðjur út um allar koppagrundir en alltaf væri til staðar það sem kallast viðvarandi atvinnuleysi á bilinu 3 – 5%. Fyrir því eru ýmsar ástæður, t.d. félagslegar.

Á framkvæmdatímanum er talað um 600 störf við þessi tvö kísilver. Ekki veit ég alveg hvar finna á iðnaðarmenn í þessi störf.  Samkvæmt fréttum vantar þrjú þúsund iðnaðarmenn á Íslandi. Þeir sem fóru til Noregs og hafa komið sér vel fyrir þar eru ekki á leiðinni heim í tímabundin verkefni á miklu lakari kjörum en þeim bjóðast þar ytra. Þeir sem urðu eftir hafa alveg nóg að gera, m.a. við uppbyggingu í kringum flugstöðina og fleira. Það vantar iðnaðarmenn, meira að segja á Suðurnesjum!

Því bendir allt til þess að flytja þurfi inn erlent vinnuafl, bæði til að byggja verksmiðjurnar og starfa í þeim.  Svo virðist sem menn vilji endilega endurvekja ofþensluruglið sem varð með byggingu Kárahnúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði þar sem erlent  vinnuafl var flutt inn í þúsundatali með gríðarlegum undirboðum á vinnumarkaði.

Hálaunastörf? Nei, ég held nú ekki.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni