Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Að búa við ofbeldi

Að búa við ofbeldi

Síðastliðna sjö mánuði hef ég búið við ofbeldi. Gerendur ofbeldisins, umhverfishrottarnir í Helguvík,  hafa nú fengið í lið með sér þann aðila sem átti að gæta mín, þ.e. Umhverfisstofnun.  Þar sem ofbeldi þrífst er meðvirkni  nefnilega oftast fylgifiskur.  Ég hélt á tímabili að ég væri laus við ofbeldið og gæti andað léttar (í orðsins fyllstu merkingu) en þá greip meðvirknin um sig hjá UST og ofbeldið hófst á ný. 

Áhrif ofbeldisins eru bæði líkamleg og andleg hjá þeim sem verða fyrir  því. Sviði í augum, óþægindi í öndunarfærum og særindi í hálsi eru líkamleg einkenni sem margir bæjarbúar hafa nefnt.  Eftir því sem lengra líður á ofbeldið  magnast undirliggjandi gremja og reiði í garð hrottans og þeirra sem hafa leyft sér að skerða lífsgæði  þolandans með þessum hætti. Ofbeldið smeygir sér inn í sálina og veldur m.a. vonleysi og örvæntingu þegar þolandinn, sem fyrir löngu hefur fengið nóg,  sér að hann á litla möguleika til að losna úr aðstæðunum.  Í meðvirkni sinni líta þeir í hina áttina sem í raun áttu að taka afstöðu með þolandanum.  Eina leiðin er að koma sér burt úr aðstæðunum en það er hægara sagt en gert.

Að hafa opinn glugga á góðviðrisdögum og fylla húsakynni sín fersku lofti hafa hingað til þótt sjálfsögð lífsgæði. Við búum ekki í stórborg með þeirri mengun sem fylgir slíku samfélagi.  Umhverfishrottarnir í Helguvík hafa á þessum sjö mánuðum svipt mig þessum lífsgæðum hvað eftir annað þegar þeir ryðjast inn á heimili mitt, nú síðast um helgina. 

Gerandann skortir aldrei afsakanir fyrir ofbeldinu.  Smá kamínulykt, lúgur sem opnast alveg óvart, brotin skaut og öxlar, skipulagt viðhaldsstopp og svo framvegis.  Allar þessar afsakanir segja manni bara það eitt að þessi skítaverksmiðja , undirbúningur hennar, hönnun og rekstur er fúsk algjörra viðvaninga.  Þarna hefur aldrei neitt verið í lagi. Og þrátt fyrir aðkeypta sérfræðinga sem eiga að hafa meira vit á þessu en viðvaningarnir, sem reka verksmiðjuna, búum við bæjarbúar enn við sama ofbeldið sem læðist að okkur í hvert sinn sem vindur snýst til norðlægrar áttar.

Ofbeldi felst ekki eingöngu í barsmíðum og líkamsmeiðingum.  Það felst einnig í því að þröngva einhverju upp á einhvern þvert gegn vilja hans.  Þannig er það með ofbeldið frá Helguvík.  Gerandinn kallar ofbeldið ýmsum nöfnum til að fegra það, s.s. „skipulagt viðhaldsstopp“. Hann gerir lítið úr ofbeldinu með því að kalla það „kamínulykt“. Hann kallar til sérfræðinga frá Noregi og Umhverfisstofnun til að kóa með sér svo hann geti haldið ofbeldinu áfram.  Og aftengir mælinn á Mánagrund.

Allt þetta breytir engu um líðan og velferð þeirra sem þurfa að þola ofbeldið. Því miður virðist enginn opinber aðili ætla standa með þolendunum.  Fjárhagslegir hagsmunir Arion banka, lífeyrissjóðanna og þeirra sem voru svo vitlausir að fjárfesta í ruglinu, eru settir ofar.

Ellert Grétarsson,
íbúi í Reykjanesbæ.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu