Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Slæm byrjun á deginum

Slæm byrjun á deginum

Áróðursrit Íslenska jarðvarmaklasans fylgdi Fréttablaðinu í morgun. Þar voru myndir af brosandi fólki að tala um sjálfbærni. 

Þar var hins vegar ekkert minnst á þrýstingsfallið í Hellisheiðarvirkjun sem skapast hefur vegna of ágengrar orkuvinnslu. Ekkert var heldur minnst á margumrædd vandamál vegna útblásturs fá virkjuninni  - mengun sem alltof oft er langt yfir viðmiðunarmörkum.

Ekki gat ég heldur séð að minnst væri á ósjálfbærni Svartsengisvirkjunar.  Þá virkjun er ekki hægt að keyra nema á milli 70% - 80% afköstum því menn hafa uppgötvað að niðurdrátturinn í jarðhitakerfinu er gríðarlegur á undanförnum árum. Þannig  hefur einn þriðji hluti kerfisins verið þurrkaður upp.  Ekki var heldur minnst á að Reykjanesvirkjun er ekki lengur 100Mv heldur 85Mv. Allt bendir til að menn ætli að nota Eldvörp til að „bústa“ upp vinnsluna  í Reykjanesvirkjun og leggja gufulögn þaðan út á Reykjanes. Svipað ætla menn að reyna á Hellisheiði með gufulögn frá Hverahlíð.   Ekkert var heldur minnst á geislavirka úrganginn frá Reykjanesvirkjun sem HS Orka faldi og þagði yfir í mörg ár.

Hins vegar var talað um „auðlindagarðinn“ svokallaða og dásemdir hans. Nú heita þetta ekki lengur virkjanasvæði því ímynd þeirra er ekki nógu góð. Hitt hljómar miklu betur.  Greinilega drýpur smjör af hverju strái í þeim Edensgarði þar sem hamingjan ein ríkir og allir fá nóg að bíta og brenna sem dansa með.

Og enn er stjórnarformaður Reykjanes Geopark, sem jafnframt er bæjarstjóri í Grindavík, að tala sig bláan í framan um einstakar jarðminjar.  Hann minnist hins vegar ekkert á að hann hefur nýlega veitt HS Orku leyfi til að ráðast á hinar einstöku jarðminjar í Eldvörpum þar sem hin magnaða gígaröð verður „skreytt“ með fimm ríflega fjögur þúsund fermetra borteigum.  Það kemur ekki fram í greininni að þessi Geopark var stofnaður af HS Orku og Grindavíkurbæ.  Fólk getur svo velt fyrir sér tilganginum.

Æi, þetta  blað var ekki góð byrjun á deginum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu