Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hvar varst þú?

Hvar varst þú?

Það er þekkja allir einhverja stóratburði í samtímasögunni sem höfðu svo mikil áhrif að þeir muna nákvæmlega hvar þeir voru og hvernig þeim leið þegar fregnir bárust. 

Þekktasta dæmið er líklega þegar Kennedy var skotinn. Fyrir okkur er það líklega árásin á World Trade Center turnanna. 

Fyrir mig er það mómentið sem ég hætti að vera meðvitundarlaus og áttaði mig á því að ef mér líkaði ekki við aðgerðir stjórnvalda þá þurfti ég að gera meira en að tuða í korter með kaffibolla og æða svo í Kringluna. 

Ég man nákvæmlega hvar ég var þann 18. mars 2003. Ég man hvar ég sat, hvernig bollinn sem ég hélt á var á litinn og ég man nákvæmlega upp á hár hvernig mér leið. 

Ég man að ég grét. Með tárum. Og ég man að ég stóð upp og óð um íbúðina með hnefana kreppta af reiði, sorg og vonbrigðum. 

Ég man að ég ætlaði mér aldrei að vita ekki hvað stjórnvöld væru að bardúsa á meðan ég væri að spóka mig í Kringlunni.

Dagar mínir sem þögull kjósandi væru liðnir. 

Þetta var dagurinn sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson settu Ísland á lista viljugra þjóða og studdu afvopnun Íraks. Án samráðs við neinn.

Þeir tveir settu nöfn okkar við að mörg hundruð þúsund írakskra borgara voru drepnir í stríði sem opinberlega stóð yfir frá 2003-2011 en er í raun ennþá. Við sjáum afleiðingar þess á hverjum degi, meðal annars með myndum af fólki á flótta frá heimalöndum sínum. Fólki sem við erum of góð til að veita skjól.

Í þinginu nokkrum mánuðum síðar sagði Steingrímur þetta í ræðu;
„Það er enginn vafi á því í mínum huga, herra forseti, að uppáskrift hæstv. ráðherra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar á Íraksstríðinu eru einhver hörmulegustu afglöp íslenskra stjórnmála um langt skeið, örugglega á þessari öld og má mikið vera ef þau endast ekki út öldina sem slík, að þetta eigi eftir að verða á spjöldum sögunnar einhver hörmulegustu pólitísku afglöp og mistök sem lengi hafa verið framin“

Núna vill þessi Davíð verða forseti og kynnir sig sem mann friðar og sátta. Gott ef hann ætlar ekki að baka pönnukökur fyrir gesti og gangandi. 

Og fólk sem veit, þekkir söguna og man hana, keppist við að segja okkur að við eigum að láta eins og hann sé ekki að reyna að læsa krumlunum í embættið. 

Það fólk þarf að átta sig á því að Davíð Oddsson hefur verið með krumlurnar í íslenskri pólitík, á einn eða annan hátt, síðan ég var kornung, og trúið mér, það er langur tími.

Ný kynslóð atkvæða hefur vaxið úr grasi án þess að hafa upplifa það sem við vitum um Davíð. Við vitum að hann er ekki föðurlega týpan sem elskar allt og umlykur.

Hann er ófyrirleitinn í hörku sinni til að viðhalda þeim valdastrúktur sem honum þóknast. 

Við eigum að treysta nýrri kynslóð til að taka við. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni