Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Úthlutunarnefnd lífsgæða hefur lokið störfum

Úthlutunarnefnd lífsgæða hefur lokið störfum

Þessi fíni pistill fjallar um ungt fólk og möguleika þeirra á lífsgæðum í framtíðinni. Hann er í raun hvatning til ungs fólks um að taka málin í sínar hendur og krefjast lífsskilyrða sem eru í líkingu við það sem þekkist í nágrannalöndunum.

Leigumarkaðurinn eins og hann er núna er að breytast hægt og rólega í ófreskju og engin leið að vita hvað henni dettur til hugar næst.
Þessir hefðbundnu skilmálar eins og engin gæludýr leyfð hafa túttnað út og leigusalar virðast hafa ákveðið að kanna hversu langt þeir geta gengið gagnvart half örvingluðu fólki sem sér fram á að verða heimilislaust.
Það má sjá eina og eina auglýsingu á stangli þar sem kemur fram að íbúðin verði ekki leigð fólki með börn. Fyrirframgreiðslur eru farnar að skaga hátt upp í útborgun í íbúð áður en fasteignamarkaðurinn fór á stera.
Eftirspurnin er svo miklu meiri en framboðið að skekkjan í samskiptum þess sem leitar að íbúð og leigusala er löngu komin framhjá samningaviðræðum. Leigusali setur fram allskyns skilyrði og veit að fyrr eða síðar rambar einhver til hans sem er nógu desperat til að samþykkja nánast hvað sem er.

Greiðslumat lánastofnanna er stór hindrun fyrir áhugasaman fasteignakaupanda en það breytir svo sem engu. Þangað til vísindin hafa fundið leið til að lengja lífslíkur mannsins hátt í líftíma Dracula mun launþeginn sem ber ábyrgð á stöðugleikanum ekki komast nálægt því að nurla saman í útborgun.
Og ef spár um 20% hækkun fasteignaverðs á næstu þremur árum standast munu gámarnir hennar Guðfinnu verða ígildi draumahúss maursins sem skrimtir á skammarlegu laununum sem geta ekki tryggt nein lífsgæði nema gáminn og kjötfars.


Já, mikið væri hollt og gott ef þetta unga fólk myndi rísa upp gegn þessum ójöfnuði sem vex bara og vex á okkar vakt.
En við sem tilheyrum kynslóðinn á undan, getum ekki bara leyft okkur að sitja á rassinum og beðið eftir því að unga fólkið okkar rísi upp og krefjist þeirra umbóta sem við höfum ekki dug og nennu til að sækja.

Hvað ætlum við að segja við þetta unga fólk okkar?
Hvernig ætlum við að útskýra fyrir því að sátum á rassinum, létum stjórnlaust óréttlæti, ójöfnuð og spillingu yfir okkur ganga, en samt gargandi úr hneykslun?
Hvernig ætlum við að hvetja og styðja þau til að krefjast sjálfsagðra lífsgæða á Íslandi þegar við ýmist nennum því ekki, teljum okkur ekki þurfa þess eða vitum ekki hvernig á að setja X við annan bókstaf en þennan sem við höfum verið í klappliðinu fyrir alla ævi án þess að hafa hugmynd um hvers vegna.
Kannski kæmust einhverjir úr þeim hjólförum en þá kemur snákasölumaðurinn og við kaupum af honum skuldir framtíðarinnar til að bjarga okkur í núinu.

Barnalán er ekki bara gæfa. Barnalán hafa líka verið beinharðir peningar sem ríkisstjórnir redda sér í þynnkunni. Reikningurinn fyrir greiðslunni verður svo sendur á litlu ormana sem hjóla ennþá með aðstoð hjálpadekkja og vita ekkert að það er búið að taka veð í þeim.
En foreldrarnir vissu það. Og þau tuðuðu kannski yfir því á kaffistofunni og í góðra vina hópi. Næst þegar þau gengju til kosninga er alveg eins líklegt að þau hafi smellt X á lántakann. Hann er nefnilega í réttum flokki og allt annað verður léttvægt.

Tveir æðstu ráðamenn þjóðarinnar eru vellauðugir og þurfa ekkert að standa í því að smjaðra fyrir ósanngjörnum leigusölum né fara í gegnum greiðslumatsferlið. Ég efast um að þeir hafi nokkurn tímann á ævinni komið inn í kjallaraíbúð né talið klink í strætó… ekki viss um að þeir hafi komð í strætó heldur.

Það er auðvitað ekkert sjálfgefið að vellauðugir ráðherrar séu verri en semi-blankir. En það er fátt sem bendir til þess að þessir tveir hafi hugmynd um hvaða lífsskilyrði stór hluti landsmanna býr við. Á meðan veruleiki flestra launþega er í besta falli bölvað ströggl berast tilkynningar frá þeim um að hér sé allt í glimrandi fínu lagi og stefni í að verða enn betra.
Hér drýpur smjör af hverju strái þó að lágmarkslaun séu langt undir lögbundinni lágmarksframfærslu. Og þannig þarf það víst að vera áfram til að ógna ekki stöðugleikanum sem enginn kannast við nema vellauðugu ráðherrarnir okkar og efsta lag samfélagsins sem þeir þjóna með því að færa auðlindir þjóðarinnar á milli skrifborða örfárra. Þeir sem eru ekki í auðlindabransanum fá kvittun frá ráðherra fjármála um að það megi hækka bónusa upp úr öllu valdi rétt eins og það sé 2007 alla daga.
Þeim tekst ekki einu sinni að þykjast hafa glóru. Þessi 5% sem sögðu að þeir teldu forsætis og fjármálaráðherra í tengslum við almenning hljóta að hafa verið í annarlegu ástandi eða fjölskyldumeðlimir þeirra.
Nítíu og fimm manneskjur af hverjum hundrað átta sig á því að þeir eru svo langt frá því að vera í tengslum við borgarana að þeir gætu allt eins átt heima á annarri plánetu.

Níu hræður af hundrað trúa því að Sigmundur Davíð sé heiðarlegur maður og tíu af hverjum hundrað telja Bjarna Ben heiðarlegan. Mikill meirihluti landsmanna telur báða ráðherrana óheiðarlega.
Ég man bara eftir persónu úr amerískri sápu sem gæti mögulega komið verr út úr svona könnun og það er Underwood.
Við eigum tvo svona Underwood-a og þeir eru valdamestu menn landsins.

Það væri beinlínis skýr merki um lélega greind að trúa sögu Engeyjar-ráðherrans um að hann hafi ekki  komið nálægt Borgunarmálinu.
En segjum að hann hafi verið salerninu á meðan þetta gekk allt í gegn og ekki haft grænan grun um að fjölskyldutengdir aðilar hans væru að fá 250 milljónir á silfurfati.
Meira að segja undir þannig kringumstæðum hefði siðferðiskompás allra Engeyjarfjölskyldumeðlima átt að blikka, pípa, snooza og endurtakast eftir þörfum.
Við getum ekki verið svo miklar sultur að horfa upp á annan valdamesta mann landsins taka af sameiginlegum sjóðum almennings og færa fjölskyldumeðlimum. Það er einfaldlega of langt gengið og yrði ekki liðið í neinu þeirra landa sem við lítum til.

Hinn valdamesti ráðherrann, níu prósenta maðurinn, höndlar ekki gagnrýni af neinu tagi og virðist eiga þá ósk heitasta að ná sér í algeran frið með því að slökkva á nettengingunni og setja alla á íslenska kúrinn. Útlönd eru hvort sem er óvinur númer eitt, tvö og þrjú. 

Aðrir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafa ekkert verið framúrskarandi starfsmenn heldur. Við höfðum einn sem virðist ekki geta sagt satt þó að hún ætti að bjarga lífi sínu. Fórnarlömb hennar ráðuneytis er lítil fjölskylda sem átti sér engan séns undir árásum þess. Hún er ennþá að hagræða sannleikanum orðin óbreyttur þingmaður og lætur ekki sitt stórskaddaða mannorð þvælast mikið fyrir sér. Hún er aðallega í því að þakka þeim sem hafa stutt hana blint í gegnum allar lygarnar og ósvífnina
Utanríkisráðherra gerir allskonar en veit svo ekkert hvað afleiðingar það hefur. Ekki einu sinni eftir á. Svo er einn að gefa makríl til vildarvina. Ég býst við að á meðan Ragnheiður Elín gerir ekkert alvarlegra en að færa vildarvinum og ættingjum fjármálaráðherra styrki sem þeir eiga ekki skilið og lögin sem ef til vill myndu leyfa það eru ennþá frumvarp sem ekki hefur verið lagt fram í þinginu. Náttúrpassinn er bara svona aumingjahrollur og það er ekki laust við að maður verði var við að hún njóti smá samúðar fyrir það klúður. 

Ekkert af þessu fólki er að fara að huga að lífsskilyrðum þínum né undirbúa umhverfið fyrir börnin þín. Nema síður sé. Úthlutun lífsgæða er lokið og alveg orðið ljóst að þú ert ekki á listanum.

Ætli við séum búin að kenna afkomendum okkar að láta sig bara hafa það með andvaraleysi okkar og endalausu tuði sem er farið að hljóma eins og lag á repeat?

Kannski erum við bara ekki nógu vel gefin, svona á heildina litið. Við höfðum tækifæri eftir hrun til að þokast nær virku lýðræði en tókum það ekki. Við skrifuðum stjórnarskrá en létum nappa henni af okkur. 

Eftir því sem dagarnir líða, eftir því sem fleiri milljarðar eru plokkaðir úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, með hverri grímulausri spillingar- og eiginhagsmunataflinu, með hverjum deginum sem líður án þess að við ákveðum að sýna að það sé einhver töggur í okkur erum við ömurlegar fyrirmyndir og getum ekki gert ráð fyrir því að börnin okkar geri annað en það sem við erum að höfum kennt þeim, að láta sig hafa það eða flýja land.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu