Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Kjallaraíbúð, rauðamöl, léreftstuskur og barn

Kjallaraíbúð, rauðamöl, léreftstuskur og barn

Þessi blaðsíða úr Morgunblaðinu frá því 18.mars 1964 er svo sem ekkert merkileg fyrir aðra en mig. Rauðamölin sem Vörubílastöðin Þróttur var að auglýsa til sölu er væntanlega löngu seld og léreftstuskurnar sem þeim í Ísafold vantaði löngu gleymdar. Íbúðir fundnar og farnar.

En þarna er samt ein lítil auglýsing sem tengist mér og mér þykir afskaplega vænt um. 
Hún hljómar svona; „Óskum eftir að komast í kynni við ung hjón sem vilja taka að sér kjörbarn. Svör sendist afgr. Mbls merkt Kjörbarn - 9023

Sá sem samdi auglýsinguna og kom henni á Morgunblaðið var Örn Clausen. Kjörbarnið er ég og ungu hjónin foreldrar mínir. 
Ég ólst upp við að vita að ég væri ættleidd og var fullkomlega sátt við það alla tíð. En þegar ég sá þessa auglýsingu í skartgripaskríninu hennar mömmu, líklega 12 ára, leið mér eins og reiðhjóli.
En bara í augnablik. Augnablikið sem leið þangað til mamma sagði mér söguna af því hvað hún varð spennt þegar hún rak augun í þessa litlu látlausu auglýsingu, sem henni fannst beint til sín. Og hvernig hún æddi um íbúðina með auglýsinguna í hendinni á meðan hún þurfti að bíða eftir því að pabbi kæmi heim. Hvernig hún æfði það sem hún ætlaði að segja við hann í von um að geta sannfært hann um að þetta væri leiðin sem þau ættu að fara til að fá langþráð barn. 
Og hvernig í ósköpunum hún ætti að fá hann til að trúa því eins innilega og hún trúði því að þetta væri þeirra barn. 
Hún var algjörlega viss um þetta ófædda kjörbarn myndi lenda hjá þeim.

Hún gat reyndar ekki sannfært manninn sinn algjörlega um að þetta barn myndi lenda hjá þeim. Hann þorði ekki að trúa því fyrr en hjónin Örn Clausen og Guðrún Erlendsdóttir réttu honum ættleiðingapappírana til undirskriftar. Svo varð hann ekki alveg viss fyrr en hann hélt á „organdi dökkeygðu greppitrýni“ í fanginu og mátti fara með það heim. 

En svona var þetta gert í þá daga. Daginn eftir birtist svona auglýsing;
Ung hjón í góðum efnum óska eftir að fá gefins nýfætt barn. Svör sendist á afgr. Mbl merkt „Kjörbarn - 3201“

Blóðmóðir mín fékk líka bréf frá þessum ungu hjónum en kunni minna vel við þau en foreldra mína.  Vonandi fengu þessi hjón líka draum sinn uppfylltan. 

Ég hef reynt að finna þessa auglýsingu lengi. Eftir að ég sá hana í skartgripaskríni mömmu fyrir öllum þessum árum síðan var eins og hún hafi gufað upp... eða mamma ákveðið að láta hana hverfa. 
Ég fékk hjálp frá Illuga Jökulssyn og hann var í nokkrar mínútur að hafa upp á þessu fyrir mig og ég er þakklát.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni