Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Framtíðarsýn við Grensásveg

Framtíðarsýn við Grensásveg

Ég á mér draum um að Grensásvegur (til norðurs við Miklubraut) verði tekinn algjörlega í gegn. Þetta er þungamiðja borgarinnar og eru miklir möguleikar þarna til að gera líflega og flotta götu.

Það er nærri ógerlegt að ganga frá Miklubraut til Suðurlandsbrautar í gegnum Grensás. Slæm landnýting, illa hirtar byggingar, úrsérgengin bílastæði, grámygla, svifryk og hávaði frá bílaumferð er það sem einkennir Grensásveg. Endurbætur myndu laða að fólk og styrkja rekstrargrundvöll þeirra fyrirtækja sem nú eru á svæðinu og einnig verið aðdráttarafl fyrir fjárfesta og fyrirtæki til þess að starfa í götunni.


Í fallegum götum eru meiri kröfur um að fólk vandi til verka í uppbyggingu húsnæðis. Tökum Hverfisgötu eða Borgartún sem dæmi, burt séð frá hverjum finnst um útlit á gangstéttarhellum og ljósastaurum, það er smekksatriði. Borgartúnið hefur blómstrað eftir breytingar, þetta er eftirsótt gata með allavega starfsemi. Skrifstofur, íbúðir, veitingastaðir o.s.frv.

Ef við lítum til framtíðar þá segir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 að Skeifan skuli vera blönduð byggð, en það er þegar verslun, þjónusta og íbúðir eru samofin á ekki of stóru svæði. Skeifan er stór og þar eru margir svo umturnun Skeifunnar gerist ekki á einni nóttu.  Skipulagsbreytingar taka tíma. Endurbætur á Grensásvegi (til norðurs við Miklubraut) gætu verið fyrsti fasinn. Þarna er dauðafæri til að tengja smáíbúðarhverfið betur við Laugardalinn, sem og hjólastíginn við Suðurlandsbrautina sem gengur alla leið niður í bæ. Það er í raun fáránlegt að varla sé hægt að ganga eða hjóla með góðu móti í gegnum þessa mikilvægu götu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni