Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Steinsteypa í gatnagerð

Steinsteypa þekkist ekki eingöngu í formi húsbygginga heldur er hún allt í kringum okkur og má þar nefna vegi, brýr, hafnir, gangstéttir, stíflur, rör og svo lengi mætti telja. Efnið er ótrúlega hentugt þar sem um endingu og styrk er að ræða. Í heimildum frá fyrri öldum er lítið talað um hafnarmannvirki. Árið 1882 lét Reykjavíkurborg gera bryggju úr höggnum stein. Þessi bryggja var fyrsta steinbryggjan á Íslandi og var hún kölluð Steinbryggjan. Formaður hafnarnefndar var Lárus E. Sveinbjörnsson dómstjóri. Lárus lét múrarameistarann Lüders gera teikningu af fyrirhugaðari bryggju en einnig leitaði hann til Smith og Mygind sem var verkfræðifélag í Kaupmannahöfn og gerðu þeir uppdrátt af bryggju samkvæmt hans ósk. Lárus óskaði einnig eftir því að Smith og Mygind myndu senda hingað til lands verkfræðing sem átti að kanna sjávarbotninn og fjöruna. Borgarstjórn Reykjavíkurborgar hafnaði þessu öllu, bæði höfnuðu þeir að Lüder myndi teikna uppdrætti og að danskir verkfræðingar kæmu nálægt þessari framkvæmd. Borgarstjórnin gat að sjálfsögðu ekki skilið við málið með þessu móti og þurfti hún nú að koma með uppástungur um hvernig standa ætti að þessum málum. Borgarstjórn sendi hafnarnefnd í að leita tilboða við byggingu á bryggjunni, sumum tilboðanna sem fengust fylgdu uppdrættir, einu fylgdi smíðað líkan af bryggjunni. Borgarstjórn fannst uppdráttur þeirra Lüders og Magnúsar Árnasonar vera heppilegasti kosturinn. Hann þótti bæði aðgengilegastur og nákvæmastur. Ekki er ólíklegt að steinbryggja hafi verið smíðuð á Akureyri árið 1889. Bryggjur þessar voru hlaðnar úr höggnu eða ótilhöggnu grjóti, en semetsblandan mun sennilega hafa verið notuð sem binding.


Eitthvað af ám hér á landi hafa verið brúaðar á þjóðveldisöld og nefna fornrit brýr á Jökulsá á Dal, Hvítá í Borgarfirði hjá Brúárreykjum, Öxará, Álftá á Mýrum og Barnafossi. Þessar brýr sem nefndar eru hér að ofan hafa sennilega allar verið smíðaðar úr timbri en ekki er þó ósennilegt að eitthvað af þeim hafi verið með steinboga, til að mynda Hvítá hjá Barnafossi og Brúará í Árnessýslu. Allflestar þessara brúa hafa nú í dag sungið sitt síðasta og fallið frá lokum þjóveldisaldar og fram á 18. öld. Þó er Jökulsá á Dal undantekning frá þessu en sú á virðist hafa verið brúuð nær samfellt frá þjóðveldisöld til dagsins í dag. Fyrstu brýrnar sem byggðar voru úr járnabentri steinsteypu voru reistar árið 1907. Þessar brýr voru yfir Bláskeggsá í Hvalfirði og hin var yfir Fnjóská. Brúin yfir Fnjóská var bogabrú og hafði hún yfir 55 m breitt haf. Þetta var á þeim tíma lengsta bogabrú sem gerð hafði verið í heiminum. Þessi brúargerð heppnaðist með eindæmum vel og fylgdi landsverkfræðingurinn Jón Þorláksson þessu eftir og reisti á næstu árum og áratugum mörghundruð járnbentar steinsteypubrýr. Á millistríðsárunum voru margar brýr byggðar á Íslandi og voru þá langflest stórfljót landsins brúuð. Markarfljótsbrúin var þó sérstækust þar sem átak var gert til þess að veita kvíslum Markarfljótsins í einn farveg.


Steinsteypa í gatnagerð er ekki algeng en þó hefur hún verið notuð. Um langan tíma voru hér eingöngu slóðar og malarvegir en árið 1912 var fyrsta gatan í Reykjavík malbikuð. Malbik er þó ekki beint til umræðu í þessari ritgerð svo nánari skýringar á því verða látnar eiga sig. Árið 1960 hófst gatnagerð á Akranesi. Þá var 300 m vegur sem var staðsettur að Kirkjubraut lagður niður með steinsteypu. Árið eftir var Skólabraut steypt og í árslok 1963 var búið að steypa um 3800-3900 m af götum. Ekkert annað bæjarfélag hefur notað steinsteypu til gatnaframkvæmda jafn mikið og Akranes og er það sennilega vegna þess að Sementsverksmiðja ríkisins var staðsett þar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu